Tónleikar til heiðurs byltingartónskáldinu

Miðvikudaginn 16. desember 2020 kl 20:00 verða tónleikar í Hofi á Akureyri til heiðurs byltingartónskáldinu Ludwig van Beethoven en hann fæddist á þessum degi fyrir 250 árum.  Tónleikunum verður einnig streymt á mak.is. Tónleikarnir sem bera yfirskriftina “Hinn bjarti Beethoven” eru haldnir af Tónlistarfélagi Akureyrar í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar.

Verkin á efnisskránni einkennast af birtu, gleði og krafti og tilheyra þeim tíma í lífi Beethovens áður en hann fór að missa heyrn að ráði. Þetta eru Sónata í A-dúr opus 68 fyrir píanó og selló, Sjö tilbrigði um stef úr Töfraflautunni Wo O 46 fyrir píanó og selló og Tríó í B dúr opus 11 fyrir klarinett, selló og píanó. Einnig verður flutt Aría úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Í upphafi tónleikanna leikur hópur sellónemenda Óðinn til gleðinnar úr 9. Sinfóníunni. Fyrir tónleikana mun strengjakvartett nemenda leika verk eftir Beethoven í Naustinu.Nemendurnir stunda hljóðfæranám við Tónlistarskólann á Akureyri og í Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

Flytjendur eru Ásdís Arnardóttir selló, Helena Guðlaug Bjarnadóttir sópran, Jón Sigurðsson píanó, Michael Jón Clarke baritón, Michael Weaver klarinett og Þórarinn Stefánsson píanó.

Í tilkynningu segir að aðgangur á tónleikana sé ókeypis en frjáls framlög séu vel þegin. Panta þarf miða á tónleikana vegna gildandi fjöldatakmarkana. Menningarsjóður Akureyrar, Akureyrarbær og Tónlistarsjóður styrkja þennan viðburð.


Athugasemdir

Nýjast