Tónleikabíó í Hofi

Sinfónísk tónlist spilar stórt hlutverk í teiknimyndinni og hefur tónlist Atla Örvarssonar fengið ei…
Sinfónísk tónlist spilar stórt hlutverk í teiknimyndinni og hefur tónlist Atla Örvarssonar fengið einróma lof gagnrýnenda.

Íslenskt tónleikabíó fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þegar íslenska verðlaunateiknimyndin LÓI – Þú flýgur aldrei einn verður sýnd við lifandi flutning Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, hljómsveitarinnar sem hljóðritaði tónlist norðlenska tónskáldsins Atla Örvarssonar við teiknimyndina.

Teiknimyndin LÓI – Þú flýgur aldrei einn, sem leikstýrð er af Árna Ólafi Ásgeirssyni, hefur verið sýnd um allan heim. Gagnrýnandi Fréttablaðsins gaf teiknimyndinni fimm stjörnur þegar hún kom út en um stærstu opnun á íslenskri bíómynd síðustu ára var um að ræða. Myndin sigraði í flokki evrópskra kvikmynda á Alþjóðlegu barnakvikmyndahátíðinni í Kristiansandi árið 2018 og flaug inn á topp tíu lista fjölda landa, meðal annars í Rússlandi, Mexíkó og Argentínu.

Sinfónísk tónlist spilar stórt hlutverk í teiknimyndinni og hefur tónlist Atla fengið einróma lof gagnrýnenda. Tónlistin komst á lista Public Choice á World Soundtrack Awards og fékk góða dóma í erlenda fagtímaritinu Movie Music þar sem henni var líst sem fallegri, hrífandi, hressandi og á stundum ógnvekjandi. „Lói er dásamleg kvikmynd með sígildri sögu sem snertir sakleysið í manni,“ segir tónlistarmaðurinn Högni Egilsson úr hljómsveitinni Hjaltalín sem verður sérstakur gestur tónleikabíósins og mun taka lagið. Hljómleikabíóið fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 22. september.

Miðasala er í fullum gangi á mak.is en verkefnið er samvinna Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, RIFF, Saga Film og GunHill.

 


Athugasemdir

Nýjast