„Tökum á móti stjörnum framtíðarinnar og veitum þeim sviðið“

Örlygur Hnefill ásamt dóttur sinni Anítu, en þau feðgin höfðu í nógu að snúast þegar ljósmyndara bar…
Örlygur Hnefill ásamt dóttur sinni Anítu, en þau feðgin höfðu í nógu að snúast þegar ljósmyndara bar að garði í Íþróttahöllinni á Húsavík í dag. Mynd/epe

Það verður sannkölluð tónlistarveisla á Húsavík á sunnudagskvöld en þá fer fram Söngkeppni framhaldsskólanna í Íþróttahöllinni klukkan 19:45. Þetta er í fyrsta sinn sem keppnin er haldin í bænum en segja má að Húsavík sé nú orðin bær söngvakeppnanna. Bærinn komst í kastljós heimspressunnar þegar Netflix stórmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var tekin upp í bænum. Síðan hefur hvert stórverkefnið á fætur öðru rekið á fjörur, bæði tónlistar og kvikmyndaverkefni.

Framkvæmdastjóri keppninnar er Hlynur Þór Jensson, en sýnt verður beint frá keppninni í sjónvarpi allra landsmanna. Kynningarfulltrúi og framleiðandi er Örlygur Hnefill Örlygsson. Hann segir undirbúning ganga vonum framar og lofar frábærri skemmtun.

 Undirbúningur á fullu

„Þetta gengur vel og nú er tæknimannskapurinn að byrja tínast í bæinn í dag til að undirbúa útsendinguna,“ sagði Örlygur í samtali við Vikublaðið á þriðjudag og bætti við að sviðið yrði sett upp í dag, fimmtudag.

„Við reiknum með að byrja á fimmtudag að setja upp, en salnum verðu skipt í hólf og við byrjum á 1/3, setjum upp sviðið og svo verður allt undirlagt auðvitað á laugardag þegar við komum fyrir stólum og setjum upp ljósabúnað og annað slíkt.“

Þetta er í 32. skipti sem söngkeppnin fer fram og munu keppendur frá 23 skólum stíga á svið auk skemmtiatriða. Keppnin verður auk þess send út í beinni útsendingu á RÚV.

Dómnefnd keppninnar skipa þau Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur og Ljótur hálfviti, Greta Salóme, söngkona, fiðluleikari og Eurovision fari, og Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu og fyrrum keppandi í keppninni.

Draumur að rætast

Örlygur segir að gamall draumur sé að rætast með því fá keppnina til Húsavíkur „Mig hefur lengi langað til að keppnin yrði haldin hér á Húsavík, ég hef stundum tengst henni í gegnum árin. Einn af mínum bestu vinum sér um keppnina fyrir RÚV og ég hef alltaf reynt að íta þessu að honum að það væri gaman að halda keppnina á Húsavík. Svo lá landið bara þannig eftir allt Eurovision ævintýrið að það var slegið til og ákveðið að halda keppnina hérna,“ segir Örlygur aðspurður um aðdraganda þessa að ákveðið var að halda keppnina fyrir norðan. „Það eru svo margir sem tengja bæinn við tónlist núna, þó að það hafi vissulega verið ástæða til miklu fyrr. Það er ekki lítið af tónlistarfólki sem komið hefur frá Húsavík og farið suður yfir heiðar til að meika það,“ segir Örlygur og bætir við stoltur að nú sé kannski kominn tími til að snúa þessu við.

„Nú er kannski komið að því að fólk komi að sunnan og meiki það á Húsavík. Nú er komið að því að við tökum á móti stjörnum framtíðarinnar og veitum þeim sviðið.“

Örlygur bendir á að einhverjir keppendur muni koma til Húsavíkur í dag fimmtudag og svo verði þeir að tínast í bæinn fram á laugardag. Keppendum fylgi líka aðstandendur og því sé keppnin góð viðbót við ferðamannastrauminn sem er að vakna úr vetrardvala.

Húsvísk skemmtiatriði

Að lokum vill Örlygur vekja athygli á frábærum skemmtiatriðum sem boðið verður uppá í dómarahléi. Þau verða að sjálfsögðu með sérhúsvíksum blæ. Húsvíski Óskarsskórinn treður upp ásamt Grétu Salóme og tónlistarmaðurinn Einar Óli eða iLo eins og hann kallar sig mun flytja eitt af sínum frábæru lögum. „Svo vil ég hvetja Húsavíkinga til að drífa sig inn á Tix.is og tryggja sér miða á þennan einstaka viðburð,“ segir Örlygur að lokum.


Athugasemdir

Nýjast