Tíu tíma tónflæði í Hofi

Strengjasveitir Tónlistarskólans á Akureyri tóku sig til laugardaginn 12. febrúar og léku tónlist í tíu klukkustundir sleitulaust, frá kl. tíu um morguninn til kl. átta um kvöldið.

Þetta gerðu þær í því skyni bæði að gera sér glaðan dag, hrista upp í spilamennskunni eftir misdjúpar kóvidsveiflur, og einnig að afla fjár til hljómsveitarferðalaga og fleiri skemmtilegra uppákoma.

Mörg fyrirtæki í bænum styrktu strengjasveitirnar með áheitum, bakkelsi og pitsu, og einnig gestir og gangandi. Kennarar og foreldrafélag lögðu hjálparhönd á plóginn við skipulag og hljómsveitastjórn. Hliðarveggir Hamra voru opnaðir og gátu gestir í Hofi heyrt strengjasveitirnar þrjár, sem og smærri hópa skipaða nemendunum, æfa þar og leika lifandi tónlist allan daginn.

Krakkarnir, á aldrinum 8-20 ára, sýndu af sér stakan dugnað og úthald. Og inn á milli, þar sem sveitirnar skiptust á um að spila, var tími til að njóta lífsins í góðum hópi.

Sannarlega frábært tónflæði í Hofi.


Athugasemdir

Nýjast