Tina Turner og fleiri á Græna hattinum um helgina

Hljómsveitin ADHD spilar á Græna hattinum í kvöld.
Hljómsveitin ADHD spilar á Græna hattinum í kvöld.

Í kvöld, fimmtudaginn 10.september spilar hljómsveitin ADHD á Græna hattinum á Akureyri. Þeir félagar skelltu sér austur á Höfn í Hornafirði fyrr í sumar og tóku upp glænýja tónlist og verða því á efnisskránni lög, sum glæný, sum hundgömul og allt þar á milli. Bandið skipa þeir Ómar Guðjónsson gítar, Óskar Guðjónsson saxófónar, Tómas Jónsson Hammond orgel og önnur hljómborð og svo trymbillinn Magnús Trygvason Elíassen. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00.

Á föstudagskvöldinu 11. september flytur Magga Stína lög og ljóð Megasar ásamt hljómsveit, sem skipa þeir Matthías Hemstock, Jakob Smári Magnússon, Daníel Friðrik Böðvarsson og Tómas Jónsson. Tónlist Megasar skipar einstakan sess í íslenskri þjóðarvitund og framlag hans til íslenskrar tónlistarsögu og textagerðar mikil. Á þessum tónleikum hljóma lög hans og ljóð af löngum og ævintýralega fjölbreyttum ferli eins og Fílahirðinn frá Súrín, Gamli sorrí Gráni, Tvær stjörnur, auk þess sem flutt verða lög Megasar við nokkra Passíusálma Hallgríms Péturssonar. „Látið ekki þennan einstaka viðburð framhjá ykkur fara,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 21.00.

Laugardagskvöldið 12. september stígur sjálf Tina Turner Íslands, Bryndís Ásmundsdóttir, á svið á Græna hattinum. Með lið tónlistarmanna sér til halds og trausts ætlar Bryndís að flytja öll lög Tinu Turner og óhætt að lofa hámarksstuði. Tónleikarnir hefjast kl.21.00.

 


Nýjast