Þörfin óvenju mikil í fyrra en meiri í ár

Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti facebook síðunni Matargjafir á Akureyri og…
Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti facebook síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni. Vaxandi hópur fólks óskar eftir liðsinni þeirra í hverjum mánuði og hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Mynd: Margrét Þóra

Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir halda úti síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni á Facebook. Vikublaðið ræddi við Sigrúnu en hún segir að þörf fyrir aðstoð sé meiri en á síðasta ári, sem þó var sérstaklega slæmt ár.

Ætla má að Kórónuveirufaraldurinn hafi talsvert að segja enda margir sem hafa misst atvinnu sína eða þurft að taka á sig skerðingu á starfshlutfalli. 

Þörfin mest fyrir jól

Matargjafir Akureyrar og nágrennis hefur verið starfrækt í sjö ár en þær stöllur stofnuðu hópinn árið 2014 og hafa sinnt þessu starfi saman frá upphafi. „Við erum að allan ársins hring. Þetta er ekki bara fyrir jólin þó að þörfin sé mest þá,“ segir Sigrún.

Sigrún segir að neyðin sé víða og margir sem sjá fram á erfið jól. Þörfin fyrir aðstoð sé óvenju mikil. „Já, hún var óvenjuslæm í fyrra og verður meiri í ár. Það eru komnir fleiri á lista nú þegar heldur en á síðasta ári fyrir jólin. Svona um miðjan desember þá bætist alltaf í, því þá fer fólk að sjá betur að það hefur ekki efni á öllu fyrir jólin,“ útskýrir Sigrún og bætir við að það sé ekki aðeins jólasteikin sem þær eru að aðstoða við fyrir jólin heldur gangi þær í öll verk stór og smál. „Við höfum verið að gefa skógjafir og sjálfar verið að kaupa jólagjafir fyrir börnin og reynt bara að aðstoða eins og við getum.“

 Hefur tekist að hjálpa öllum

Sigrún bendir á að það séu ýmsar leiðir fyrri fólk til að setja sig í samband til að óska eftir aðstoð. „Fólk getur sent okkur skilaboð á messenger, tölvupósti eða hringir og sækir um eða bendir á einhvern sem er í vanda. Við skráum alla niður og hingað til hefur okkur tekist að hjálpa öllum,“ segir hún.

Eins og getið er eru þær Sigrún og Sunna til aðstoðar allan ársins hring en hátíðirnar eru sá tími sem neyðin sé mest. „Þetta er mest yfir jól og páska og einnig þegar mæðrastyrksnefnd lokar á sumrin, það er eins og að fólk þurfi ekki að borða þá.“

Styrkir koma á margvíslegu formi frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. „Fyrstu árin voru þetta bara einstaklingar sem voru að styrkja, en það hefur breyst. Í fyrra fengum við styrk frá Netto upp á eina milljón í formi inneignakorta frá þeim og svo fengum við 400 þúsund frá Norðurorku. Það alveg bjargaði okkur,“ útskýrir Sigrún og bætir við að Matargjafir séu með söfnunarreikning sem hægt er að leggja inná.  „Við tökum líka við Bónuskortum og Nettokortum. Svo er fólk oft að fá kjöt frá vinnunni sem það sér ekki fram á að nota og gefur í söfnunina og með því.“


Athugasemdir

Nýjast