„Þessar elskur hafa alltaf mætt með bros á vör og til í áskorun dagsins“

Nokkrir af leikurum sýningarinnar baksviðs eftir æfingu í vikunni. Myndir/epe
Nokkrir af leikurum sýningarinnar baksviðs eftir æfingu í vikunni. Myndir/epe

Í kvöld klukkan 20 frumsýnir Píramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík; söngleikinn Wake Me Up Before You Go Go í Samkomuhúsinu á Húsavík en alls taka  40 manns þátt í uppfærslunni.

Karen Erludóttir leikstýrir verkinu en hún hefur leikstýrt yngstu leikurum Húsavíkur mörg undanfarin ár.

Karen segir í samtali við Vikublaðið að æfingar hafi farið af stað í byrjun október og gengið vonum framar þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Leikarar í burðarhlutverkum hafa í mörgum tilfellum ekki komist á æfingar á sama tíma og því hafi þurft að hugsa í lausnum.

FSH

„Þau létu það aldeilis ekki stoppa sig og skiptust bara á að stökkva í það hlutverk sem vantaði svo hinir leikararnir gætu amk fengið að æfa sig. Þannig hefur það verið allt ferlið. Reyndar pínu skrítið að segja frá því, en síðasti dagurinn fyrir general prufuna er jafnframt eini dagurinn sem allir leikarar hafa komist á æfingu samtímis allt æfingaferlið. Svo það verður ekki fyrr en fyrst þá sem við náum að æfa leikritið með alla á sínum stað. En þar sem þau hafa verið svo dugleg að æfa sig þó það vanti hinn og þennan hef ég engar áhyggjur af þessu,“ segir Karen en viðurkennir að hafa ekki verið allt of bjartsýn þegar hún gerði sér grein fyrir að talsvert yrði um forfölll yfir æfingatímann.

„En ég var ákveðin í að láta þetta ganga og þau líka svo það er bara nákvæmlega það sem við gerðum. Margir mættu á leikæfingar þrátt fyrir að þurfa þess ekki bara til að hlaupa í skarðið fyrir einhvern sem komst ekki og gerðu það alltaf með bros á vör og gáfu sig alltaf 100% í hlutverkið, þrátt fyrir að vera að leika fyrir einhvern annan. En þannig náðu allir aðrir leikarar að æfa sig og þannig létum við bara boltann rúlla,“ segir Karen.

FSH

Það er alltaf ákveðin áskorun þegar sett er upp leikrit sem gerist á öðrum tíma en samtímanum þegar þarf að huga að búningum, leikmunum og þess háttar. Mynduð var búningadeild innan leikhópsins þar sem hver einstaklingur fékk sitt hlutverk. „Þau hafa verið ófá símtölin til ömmu og afa og foreldra undanfarnar vikur til að  spyrja um hitt og þetta tengt 9. áratugnum,“ segir Karen létt í bragði og bætir við að ýmislegt gagnlegt hafi fundist í geymslunum.

Þetta er í annað sinn í röð sem leikfélagið setur upp söngleik en á síðasta ári var það Mamma Mia sem varð fyrir valinu. Karen segir að það hafi verið vilji leikhópsins að sýna söngleik aftur og eftir nokkra yfirsetu hafi þrír söngleikir orðið fyrir valinu sem kosið var um innan hópsins.  Wake Me Up Before You Go Go  varð fyrir valinu en það er upphaflega skrifað fyrir Verslunarskóla Íslands.

FSH

Verkið fjallar um hann Tomma, sem er 18 ára óhamingjusamur strákur því hann býr einn með mömmu sinni sem hann er alveg búinn að fá nóg af og pabbi hans ekki lengur í myndinni. Skyndilega er hann dreginn aftur í tímann til ársins 1984 þar sem hann er tveggja ára og samband foreldra hans hangir á bláþræði. Hann reynir allt sem hann getur til að halda foreldrum sínum saman í þeirri von um að framtíð, eða allt heldur nútíð, hans verði bærilegri. Við fylgjumst því með Tomma upplifa töfrana sem 1984 hafði að geyma og alla þá skrautlegu karaktera sem voru í lífi foreldra hans á þessum tíma. En áður en hann veit af er hann kominn í heljarinnar flækju sem hann veit ekki hvernig hann muni nokkurntíman komast úr.

„Þetta búið að vera hörku vinna, alla daga frá 16-22 og um helgar líka. En þessar elskur hafa alltaf mætt með bros á vör og til í áskorun dagsins. Nú þegar allt er að smella svona rétt fyrir frumsýningu þá er ekki laust við að það komi smá kvíðahnútur í mig, ekki fyrir frumsýningunni beint, eiginlega snýst hann meira um að þurfa að kveðja þessi frábæru ungmenni sem eru í Píramus og Þispu í ár. Auðvitað verður gott upp á heimilislífið að vera ekki alltaf í vinnunni öll kvöld, en mikið ofboðslega á ég eftir að sakna þeirra,“ segir Karen að lokum.

FSH

 


Athugasemdir

Nýjast