„Það var tekið vel á móti manni og allir eru til í að hjálpa“

Brynjar Ingi Bjarnason í fullu fjöri með íslenska landsliðinu
Brynjar Ingi Bjarnason í fullu fjöri með íslenska landsliðinu

Það hafa verið óvenjuleg jól þetta árið hjá Akureyringnum Brynjari Inga Bjarnasyni. Miðvörðurinn knái fluttist nýverið búferlum til Suður-Ítalíu þar sem hann leikur knattspyrnu með B-deildarliði Lecce. Liðið spilar yfir hátíðirnar og því mun Brynjar halda jól fjarri heimahögunum.

Brynjar Ingi Bjarnason hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn. Eftir prýðilega frammistöðu með uppeldisfélagi sínu KA var hann valinn í A-landsliðið í fótbolta og vakti áhuga liða í Evrópu. Í kjölfarið færði Brynjar sig um set og gekk í raðir Lecce á Ítalíu. Við spurðum Brynjar út í upphafið á atvinnumennskunni og plön hans yfir jólin.

Þægilegt umhverfi í Lecce

Aðspurður hvernig hafi gengið að koma sér fyrir á Ítalíu segir Brynjar að það hafi gengið framar vonum og það hafi hjálpað sérstaklega til að fá annan Íslending til Lecce, en Þórir Jóhann Helgason var fenginn til liðs við félagið um svipað leyti og Brynjar. „Það gerir náttúrulega lífið léttara að fá annan Íslending með mér inn í þetta, þannig að ég var ekki einn í að takast á við þessar nýju áskoranir. Við búum saman, deilum bíl og gerum mestallt í daglegu lífi saman.“

Fyrstu ár í atvinnumennsku eru jafnan krefjandi þar sem oft ríkir mikil samkeppni innan liða og misjafnt hvernig útlendingar passa inn í hópinn en Brynjar segir að móttökurnar hafi verið góðar og það hafi hjálpað honum að fóta sig á nýjum vettvangi. „Þetta er lið sem er mjög þægilegt að koma inn í sem nýr leikmaður. Það var tekið vel á móti manni og allir eru til í að hjálpa ef á þarf að halda.“

Brynjar var síðan spurður út í hvernig hefur gengið að læra ítölsku og segir hann að honum fari stöðugt fram í tungumálinu.

„Ítalskan gæti alveg verið verri. Allt svona fótboltatal er komið upp á 9,5 en ég þarf vissulega að skerpa á henni almennt í þessu daglega tali. Lecce leggur áherslu á að við lærum ítölsku og ég hef lært mest í tungumálinu með því að hlusta og spyrja út í sérstök orð og þetta gengur bara fínt enn sem komið er.“

Óhefðbundin jól

Eftir að hafa rætt við Brynjar um fyrstu skrefin í atvinnumennsku færðist umræðan yfir í áform hans yfir hátíðirnar. Mörg lið í Evrópu spila yfir jólatímann og þar er Lecce engin undantekning. Þótt Brynjar verði ekki á Íslandi þá ætla foreldrar hans að koma með íslensk jól til hans á Suður-Ítalíu.

„Mamma og pabbi koma með hefðbundinn íslenskan jólamat og við reynum að halda í einhverjar hefðir þrátt fyrir þessar skrítnu aðstæður. Ég reikna þó með að við þurfum að færa hátíðarhöldin yfir á Þorláksmessu í ár þar sem ég ferðast með liðinu í útileik á aðfangadag. Þannig að ég verð á einhverju flakki yfir hátíðirnar og næ kannski ekki að hitta þau eins mikið og ég myndi vilja.“

Þrátt fyrir að það þurfi að bregða örlítið út af vananum segir Brynjar að hann muni ekki sakna íslensku jólanna neitt sérstaklega.

„Það sem maður mun kannski helst sakna er tíminn sem maður eyðir oft með vinum yfir hátíðarnar. Að mínu mati er það er eiginlega það besta við jólin.“

Á Akureyri um áramótin

Þótt Brynjar nái ekki að verða heima um jólin sökum leikjatarnarinnar hjá Lecce, hyggst hann ferðast til Íslands þegar deildin fer í frí og verja áramótunum á Akureyri.

„Um áramótin nær maður að hitta restina af fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt með félögunum. Það verður ánægjulegt að komast aðeins heim.“

Brynjar kveðst vera jólabarn þrátt fyrir að hann sé ekki með neinar öfgakenndar hefðir. Hann segir að íþróttaáhorf slái út kvikmyndaglápið sem einkennir jafnan dægrastyttingu fólks um jólin.

„Það er kannski klisjukennt en maður tekur allavega Home Alone og ég hef haft það fyrir hefð að horfa á Hobbit-myndirnar líka. Ég er ekkert að flækja þetta of mikið. Annars eiga íþróttir hug minn allan yfir jólin og ber þá helst að nefna píluna. Ég hef fylgst vel með HM í pílu sem fer fram um þetta leyti. Ég ætla að taka það af alvöru núna og hugsa að það sé orðin nokkur konar hefð hjá mér þótt það sé nýtilkomið. Ég reyni oftast að taka NBA og enska boltann líka, þannig að það er nóg við að vera þegar tími gefst“

Að endingu var Brynjar spurður út í jólatónlist og hvort hann ætti sér eitthvert sérstakt lag til að komast í jólagírinn.

„Mér þykir jólatónlist almennt skemmtileg og það er alltaf góð stemning yfir henni. Það er samt ekkert lag sem er í sérstöku uppáhaldi,“ segir Brynjar að lokum.

 ADB

 


Athugasemdir

Nýjast