„Það má segja að nánast allt hafi gengið upp í ár“

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar var valin hjólreiðakona ársins af Hjólreiðasamban…
Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar var valin hjólreiðakona ársins af Hjólreiðasambandi Íslands í október, en hún varð einnig Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímaþraut í sumar.
gunnar@vikubladid.is
egillpall@vikubladid.is

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar var valin hjólreiðakona ársins af Hjólreiðasambandi Íslands í október, en hún varð einnig Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímaþraut í sumar. Hún er gift tveggja barna móðir, menntaður íþróttafræðingur með meistaragráðu í menntunarfræðum og viðbótargráðu í lýðheilsuvísindum. Meðfram fullri vinnu og fjölskyldulífi skarar hún fram úr í sinni íþrótt og stefnir enn lengra.

Hfdís hóf að stunda hjólreiðar árið 2013 þegar hún var við nám í Reykjavík. „Ég byrjaði að æfa þríþraut sem ég stundaði í um eitt ár eða þangað til ég varð ófrísk af dóttur minni. Það tímabil sem fór í barneignir og uppeldi fyrstu árin stundaði ég hjólreiðar mér til skemmtunar og heilsubótar,“ segir Hafdís og bætir við að hún hafi alltaf elskað að keppa og takast á við allskonar áskoranir. „Ég keppti því við og við mér til skemmtunar og til að svala keppnisþörfinni.“ Árið 2019 byrjaði Hafdís að keppa undir merkjum Hjólreiðasambands Íslands og þá gerði hún sér grein fyrri því að hún væri bara ágætis hjólari eins og hún kemst sjálf að orði. „Sumarið var rétt svo hálfnað þegar ég var byrjuð að pæla næsta móti,“ segir hún en upp úr því ákvað hún að stunda hjólreiðarnar markvisst og fékk sér þjálfara sem hefur fylgt henni síðan.

hAFDÍS 5

Hafdís byrjaði unga að hjóla og ekki laust við að þarna megi sjá keppnisskapið verða til. 

 Setti kennarastarfið til hliðar

Hafdís starfaði sem grunnskólakennari þegar hún hóf ferilinn í götuhjólreiðum en fann það fljótt að hún þyrfti að einbeita sér að íþróttinni. „Það gekk ekki að vera í 100% vinnu sem kennari. Auk þess var ég að þjálfa á hjólanámskeiði hjá Líkamsræktarstöðinni Bjargi og kenna á sundnámskeiði. Kennarastarfið er því miður ekki með þann sveigjanleika sem ég þarf til að stunda þetta sport og þess vegna ákvað ég að leggja það til hliðar. Í dag vinn ég sem stöðvarstjóri á líkamsræktarstöðinni Bjargi og þjálfa þar líka. Ég hef verið með sundnámskeið fyrir börn síðastliðinn átta ár og það er erfitt að hætta því sundið er skemmtilegt. Það er gaman að geta boðið upp á þessi sundnámskeið fyrir börn og foreldra. Minn íþróttagrunnur kemur úr sundi og þekki ég sundið vel,“ útskýrir Hafdís en hún rekur einnig Pedal.is, litla hjólafataverslun á netinu ásamt vinkonu sinni.

Það liggur í augum úti að árangur Hafdísar kemur ekki af sjálfu sér. Á bak við hann liggur þrotlaus vinna, óteljandi kílómetrar, blóð, sviti og tár. „Ef maður ætlar að ná árangri heima og erlendis þá þarf að æfa gríðarlega mikið. Þetta er sport sem þarfnast mjög mikils tíma, margra klst. á hjólinu auk lyftinga og annara æfinga. Yfir vetrarmánuðina æfi ég á „trainer“ sem ég set hjólið mitt á og get þannig hjólað á því á staðnum,“ útskýrir Hafdís og bætir við að yfir vetrartímann æfi hún að mestu leiti í skúrnum heima hjá sér. „Núna síðastliðið haust fékk ég hjól sem ég get hjólað á yfir vetrartímann og hjóla ég á því 1-2 sinnum í viku og er það ótrúlega mikill munur að komast aðeins út. Ég er þó algjör kuldaskræfa svo við skulum sjá hvernig það fer þegar það kemur alvöru vetur hér hjá okkur,“ segir Hafdís og hlær.

Hafdís setur markið hátt og hefur einsett sér að komast tvisvar sinnum í æfingabúðir erlendis þar sem hún muni ekkert gera annað en að hjóla, borða og sofa. „Slíkar ferðir gera gríðarlega mikið fyrir formið og eru mjög nauðsynlegar ef ég ætla að ná betri árangri í hjólreiðum fyrir utan landsteinanna. Yfir sumartímann eða um leið og veður leyfir þá færi ég æfingar út,“ segir hún og bætir við að Akureyringar séu heppnir með mikið af frábærum brekkum sem komi henni að góðu gagni.

„Þar má helst nefna Hlíðarfjall sem er í mestu uppáhaldi hjá mér en einnig Víkurskarðið og Laugarlandsbrekka svo einhverjar sé nefndar. Þegar sést til lafmóðs hjóara fara upp og niður Hlíðarfjall, þá er það líklega ég,“ segir Hafdís í léttum dúr.

Tillitssemi að aukast

Hafdís 6

Þar sem ekki er mikið um hjólahringi á og við Akureyri þá þarf Hafdís að hjóla mikið innan um bílaumferð utanbæjar. Hún segir að tillitssemi gagnvart hjólreiðafólki hafi aukist til muna. „Langflestir sýna virðingu en auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru ekki ennþá tilbúnir að taka hjólafólki sem sjálfsögðu í umferðinni. Það er ótrúlega mikil núvitund fólgin í því að hjóla úti innan um bílaumferð og jafnvel í stórum hópi af hjólurum. Það þarf alltaf að vera meðvitaður um umhverfið sitt og hvað er að gerast en það er nokkuð sem lærist mjög fljótt þegar maður stundar þetta sport,“ segir Hafdís en hún hjólar að jafnaði 12-16 klst. á viku árið um kring.

„Ef ég tek meðaltal af hjóluðum klst. á síðasta ári þá eru þetta um 13 tímar allar vikur ársins. Annars er ég lítið að pæla í hjóluðum kílómetrum þar sem þeir segja bara hálfa söguna,“ segir hún og leggur áherslu á að ekki sé nóg að hjóla, að auki sé mikilvægt að stunda styrktaræfingar, huga að liðleika og endurheimt.

„Ef ég tek árið saman þá æfi ég eftir plani frá þjálfara 11 mánuði ársins. Um fjórar vikur á ári tek ég hvíldartímabil. Þá hvíli ég mig frá skipulögðum æfingum en hreyfi mig þó eins og mig langar. Ég er oft í algjöru basli með þetta tímabil og langar bara alls ekki taka mér frí frá hjólinu og því hjóla ég en legg allt skipulag til hliðar. Mér finnst þetta bara svo ótrúlega skemmtilegt og að komast á hjólið er bara það sem gefur mér svo mikið og þar hleð ég batteríin.“

Ærinn kostnaður

Hadgdís 3

Það er meira en þrotlausar æfingar sem huga þarf að þegar lagt er stund á afreksíþróttir, kostnaður við keppnisferðir og æfingar getur verið ærinn. Hafdís stendur straum af þessum kostnaði að mestu leiti sjálf en Hjólreiðasambandið tekur þátt í kostnaði hennar þegar hún hefur keppt fyrir Íslands hönd á EM og HM. „Það er þó alltaf stór kostnaður sem ég þarf að bera sjálf. Ég keppi fyrir Hjólreiðafélag Akureyrar (HFA) og hefur félagið einnig veitt mér einhverja styrki. Því miður er HFA mjög lítið félag og getur því ekki veitt mér mikinn stuðning fjárhagslega. Að vera afreksíþróttamaður í einstaklingsíþrótt eins og hjólreiðum þýðir að maður þarf að vera með gríðarlega ástríðu fyrir íþróttinni til að ná árangri. Allt sem ég geri tengt íþróttinni minni geri ég sjálf, það er ekkert félag á bakvið við mig sem aðstoðar mig,“ segir Hafdís og bætir við að hún greiði sjálf fyrir sinn þjálfara. „Ég hef verið hjá honum í þrjú ár, og þar datt ég heldur betur í lukkupottinn. Hann heldur utan um allar mínar æfingar og keppnir auk þess að vera ótrúlega góður stuðningur um allt milli himins og jarðar tengt sportinu.“

Hafdís segir að erlendis sé fjöldi móta sem hægt sé að keppa á en kostnaðurinn geri henni erfitt fyrir. Bæði kostnaður við mótin, ferðakostnaður, uppihald og ekki síst vinnutap. Hafdís hefur metnað til að verða enn betri og til þess þarf hún að keppa við þær bestu. „Ég þarf að geta farið erlendis og hjólað með sterkari hjólurum. Þar eru líka töluvert fleiri keppendur sem skiptir gríðarlega miklu máli til að öðlast reynslu og verða betri,“ segir hún og viðurkennir að það sé áskorun að skipuleggja æfingar og keppnir í fullri vinnu með tvö börn. „Það hefur oft á tíðum verið krefjandi en til að ná settu marki hef ég lagt þetta aukalega á mig,“ segir Hafdís en hún byrjar gjarnan að æfa kl. fimm á morgnanna. Æfingarnar skipuleggur hún út frá vinnu og dagskrá fjölskyldunnar. Enda þótt Hafdís sé afreksíþróttakona, þá þarf hún að skutla börnum á æfingar og annað slíkt.

Næring og hvíld

Þegar dagskráin er svo þéttsetin eins og raun ber vitni hjá Hafdísi þá er eins gott að nýta þann tíma vel sem afgangs er til að hvílast. „Svefn og næring skipta ótrúlega miklu máli og þetta tvennt er alls ekki alltaf uppá 10. Að koma inn nægilegum svefni getur verið alveg hrikalega erfitt þegar það þarf að gera margt,“ viðurkennir Hafdís.

Það er óhætt að segja að árið sé búið að vera viðburðaríkt hjá Hafdísi. Spurð að því hvað standi upp úr kemur margt til greina, en Íslandsmótshelgin á Akureyri kemur fyrst upp í huga hennar. „Þar vann ég mína fyrstu Íslandsmeistaratitla. Bæði í tímaþraut og götuhjólreiðum.“ Þá er hún jafnframt tvöfaldur bikarmeistari í tímaþraut og götuhjólreiðum og til að kóróna allt var hún valin Hjólreiðakona ársins af Hjólreiðasambandi Íslands.

„Það má segja að nánast allt hafi gengið upp í ár,“ segir Hafdís en hún keppti einnig á erlendri grundu. Í Danmörku, Svíþjóð og tók svo þátt í Evrópumótinu í Þýskalandi. „Ég kom sjálfri mér gríðarlega á óvart bæði í Danmörku og Svíþjóð. Mér gékk mjög vel,“ segir Hafdís en bæði þessi mót voru fjöldægramót sem þýðir ein keppni á hverjum degi og samanlagður tími frá öllum keppnisdögunum tekin saman. „Ég varð í 8. sæti í heildarkeppninni þ.e. þegar sameiginlegur árangur er tekin saman eftir allar keppnirnar í fyrri keppninni og í 4. sæti í þeirri seinni. Það er mjög mikilvægt að komast erlendis að keppa þar sem sportið hér heim er ennþá að vaxa. Það er líka nauðsynlegt að komast í stærri og betri umgjörð og hjóla með fleiri og betri hjólurum. Þannig að þetta er heilmikil vinna sem þarf til að sækja sér reynslu.“

Tvær mismunandi greinar

Hafdís 1

 

Aðalgreinar Hafdísar eru götuhjólreiðar og tímaþraut. Í götuhjólreiðum hefst keppni á hópstarti, þ.e. allir keppendur byrja samtímis og í þessum keppnum er alltaf um langar vegalengdir að ræða eða um 80 til 100 km. hér á landi, stundum lengri. Þá eru götuhjólreiðar liðsíþrótt, þó svo að einstaklingur standi uppi sem sigurvegari. Liðin vinna saman að því að koma einum liðsmanni yfir endamarkið.

„Hér á landi er þetta frekar óþróað ennþá, þó svo að við séum komin aðeins af stað með þessar liðspælingar. Sportið er bara svo lítið ennþá að það er erfitt að vera með stór lið,“ útskýrir Hafdís og viðurkennir að fyrir vikið sé erfiðara að keppa erlendis þar sem stór lið eru að vinna saman. „Við erum þó aðeins farin að notast við liðstaktík í keppnunum hér heima og verður gaman að sjá það þróast á næstu árum. Á síðasta keppnistímabili þá vorum við Silja Rúnarsdóttir liðsfélagar en við höfum verið að æfa saman seinustu þrjú árin. Hún er ein af mínum bestu vinkonum. Það er heldur betur punkturinn yfir i-ið og gríðarlega mikill stuðningur að vera með vinkonu sína með sér í þessu.“

Í Tímaþraut er einn keppandi ræstur af stað í einu með 30-60 sek millibili. Vegalengd er oftast á bilinu 20 til 40 km. Sá keppandi sem hjólar keppnisleiðina hraðast, stendur uppi sem sigurvegari. Í tímatöku er ekki leyfilegt að notast við skjól af öðrum keppendum líkt og í götuhjólreiðum. „Ég get alls ekki gert upp á milli þessara greina en þær eru bara svo ólíkar. í götuhjólreiðunum er meira aksjón, þær er lengri og fjölbreyttari. Það sem ég hreinlega elska við tímatökukeppnir er að vera ein og þurfa að vera algjörlega með fókusinn á sjálfa mig, hausinn á mér og ekkert annað. Bara hjóla eins hratt og ég get, hreinlega gefa allt í þetta, pína mig eins mikið og ég get í ca 30-40 mínútur. Það er aldrei hvíld, maður hægir ekkert á og púlsinn er í botni allan tímann. Það er eitthvað við það að koma í mark gjörsamlega sigraður og þessi tilfinning að þú gafst allt í þetta,“ útskýrir Hafdís sem sigraði allar keppnir sumarsins í tímaþraut.

Þakklát fyrir stuðinginn

Hjólreiðar eru dýrt sport ef það er tekið af alvöru. Það þarf að eiga mismunandi hjól fyrir keppnisgreinarnar og þau eru ekki beint af ódýrustu gerð. „Ég er með frábæran stuðning frá Útisport en þeir sjá mér fyrir hjólum og eru alltaf til í að aðstoða mig. Eins er ég með styrki í formi næringar og bætiefna frá Hreysti, MS og Sprettinum. Garmin búðin sér mér fyrir þeim búnaði sem ég þarf tengt mínum æfingum. Einnig hefur Orkan lagt mér lið með bensínstyrk,“ segir Hafdís og bætir við að hún sé afar þakklát fyrir stuðninginn.

„Það sem mig vantar til að geta einbeitt mér að íþróttinni eru fjárstyrkir þar sem ég er ekki á launum meðan ég æfi og keppierlendis. Mig langar að geta stundað hjólreiðar og verða atvinnukona í hjólreiðum. Ef ég yrði svo heppin að fá slíkt get ég vel stundað íþróttina og náð enn lengra. Ég er gríðarlega stolt af sjálfri mér að þora að taka þetta skref og fylgja eftir draumum mínum um að verða framúrskarandi íþróttamaður og gera allt í mínu valdi til þess að verða eins góður íþróttamaður og ég get orðið. Ég er hvergi nærri hætt og ætla mér enn lengra í minni íþrótt. Ég lít á mig sem fyrirmynd og vona að trú mín á sjálfa mig sýni öðru íþróttafólki að með dugnaði og þrautseigju er hægt að taka þátt í ævintýrum,“ segir Hafdís að lokum.


Athugasemdir

Nýjast