„Það eru ótrúlegir töfrar sem eiga sér stað þegar æfingaferlið byrjar“

Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík frumsýndu í gær söngleikinn Grease undir leikstjórn K…
Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík frumsýndu í gær söngleikinn Grease undir leikstjórn Karenar Erludóttur. Myndir/epe

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins sem kom út á fimmtudag.

Nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík voru á lokametrunum við æfingar á söngleiknum Grease undir leikstjórn Karenar Erludóttur þegar blaðamaður leit við á æfingu. Frumsýning var í gær  í Samkomuhúsinu á Húsavík klukkan 18.

 Að sögn Karenar leikstjóra koma allir úr bekknum að sýningunni með einum eða öðrum hætti en nemendurnir eru 27 talsins. „Umsjónakennarinn þeirra, Nanna, hefur einnig staðið þétt við bakið á þeim sem og nokkrir foreldrar sem hafa tekið að sér nokkur verkefni. Ætli þetta séu ekki rétt undir 40 manns í heildina,“ segir Karen.

Grease

 Ódauðlegt verk

Grease er afar vinsæll söngleikur sem var fyrst settur upp á Broadway en svo gerð kvikmynd nokkrum árum seinna sem allir ættu að þekkja. Í myndinni eru John Travolta og Olivia Newton-John í aðalhlutverki og er það sú kvikmynd sem kom söngleiknum almennilega á kortið og lifir enn í dag næstum því 45 árum seinna.

„Grease fjallar um unglinga á sjötta áratugnum sem gerir verkið extra skemmtilegt hvað búninga og tónlist varðar. Sagan sjálf er saga sem við höfum séð í allskonar myndum, nýja og góða stelpan fellur fyrir vinsæla slæma stráknum sem reynist svo alls ekkert svo slæmur. En þrátt fyrir það er Grease samt algjörlega sér á báti og er það að mínu mati vegna vel heppnaðar persónusköpunnar handritshöfundar og hæfileikar tónskáldsins. Þetta einhvern veginn bara smellur eins og hanski á hönd og því lifir söngleikurinn svona lengi og vel,“ útskýrir Karen.

 Metnaðarfullur hópur

Það er óhætt að segja það sé metnaðarfullt að velja svo stórt verk til að setja upp í nemendalekhúsi en Karen segir að krakkarnir séu hvergi bangin enda leyfi hún þeim alltaf að velja sín verk sjálf.

„Hvert og eitt leikrit hefur sínar áskoranir og það eru jú, þau sem eru að kljást við þessar áskoranir og því finnst mér mikilvægt að þau hafi eitthvað um málið að segja. Ég mæti bara á svæðið með langan lista af leikritum sem hentar hverjum hópi fyrir sig miðað við fjölda leikara og slíkt og þau velja svo úr bunkanum sjálf. Ég sá strax að þau vildu setja upp söngleik svo ég fór aðeins yfir vinnuna sem fylgir því, þar sem hún er oftar en ekki töluvert meiri heldur en þegar sett er upp leikrit án tónlistar til dæmis. Þau hikuðu þó ekki í eitt augnablik og vildu láta vaða. Ég hef leikstýrt þessum árgangi áður, þegar þau settu upp söngleikinn Annie fyrir þremur árum, svo ég vissi vel að þau hefðu það sem þyrfti og hafði engar áhyggjur af þessu,“ segir Karen og bætir við að æfingar hafi gengið mjög vel.

„Æfingar hófust í lok mars og hefur ferlið allt saman gengið mjög vel. Það eru virkilega duglegir krakkar í þessum hópi sem láta ekki svona stóran söngleik á sig fá og hafa rúllað þessu upp frá degi eitt.“

 Tárast af stolti

Grease

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Karen leikstýrir ungum og óreyndum leikurum en hún segir það vera það allra skemmtilegasta sem hún gerir.  

„Það eru ótrúlegir töfrar sem eiga sér stað þegar æfingaferlið byrjar. Krakkar sem tilkynna mér kannski í upphafi að þau geti ekki þetta eða hitt en rúlla því svo upp með smá æfingu og skína svo oft skærast þegar að sýningum kemur,“ segir Karen stolt og bætir við að hún sitji yfirleitt með tárin í augunum af stolti út í sal á frumsýningum.

„Vatnsheldur maskari er algjörlega mitt leynivopn þar. Það er ekkert grín að taka skref út fyrir þægindarammann, allra síst þegar maður er unglingur og því er þetta vandmeðfarið og ég verð ansi meyr þegar það tekst vel. Stærsta áskorunin sem ég tekst á við er að lesa krakkana almennilega. Finna út hvenær þau þurfa smá hvatningu til að halda áfram og hvenær þarf hreinlega að hætta við eitthvað. Þægindramminn er eitt og mörk eru annað. Ég þarf að finna út hjá hverjum og einum hvar hver lína liggur. En með opnum og heiðarlegum samskiptum höfum við alltaf náð að finna út úr þessu í sameiningu,“ útskýrir Karen.

 Allir í leikhús

Grease

Það er eitt að fá unga leikara til að brjótast út úr skelinni til að leika á sviði fyrir framan fullt af fólki, en svo er það enn önnur áskorun að syngja fyrir framan áhorfendur. Er ekkert erfitt að fá unglingana til að stíga svona langt út fyrir  þægindarammann?

„Erfitt er kannski ekki rétta orðið, en það er klárlega áskorun. En þau verða að vera klár í áskorunina með mér, ég neyði engan í neitt. Ef þau taka þá ákvörðun sjálf að þau eru til í þessa áskorun verður vinnan mun auðveldari því við erum með sama markmið. Getur oft tekið langan tíma og mikla vinnu, en það tekst alltaf á endanum. Þetta er eitt af því sem við förum yfir á okkar fyrstu fundum áður en valið er leikrit. Það skiptir nefnilega ekki bara máli hversu marga leikara við höfum, heldur líka hversu marga söngvara og verðum við að velja leikrit samkvæmt því. Svo þau vita alltaf út í hvað þau eru að fara og reyni ég bara að vera þeirra stoð og stytta í að koma þeim að leiðarenda,“ segir Karen að lokum og ekkert eftir nema hvetja Húsavíkinga og nærsveitafólk að taka frá kvöld til að skella sér í leikhús.

Grese

 


Athugasemdir

Nýjast