„Það er greinilega þörf á þessu“

Á heimsvísu er talið að um þriðjungi af framleiddum mat til manneldis eyðileggist eða sé sóað, það er um 1.3 milljarður tonna. Norðurlandabúar sóa um 3,5 milljónum tonna af mat árlega.

Anna Soffía Halldórsdóttir vildi leggja sitt af mörkum til þess að sporna við þessu alvarlega umhverfisvandamáli en eins og Vikublaðið greindi frá fyrir skemmstu lagði hún talsvert á sig til þess að koma upp svo kölluðum frískáp á Húsavík.

Frí­skáp­ur er ís­skáp­ur þar sem fólk get­ur komið og sótt sér frí­an mat. All­ir geta sett mat í frí­skáp­inn og öll­um stend­ur til boða að nýta sér hann. Nú hefur frískápurinn á Húsavík verið tekinn í gagnið við Tún og segir Anna Soffía að viðtökurnar hafi farið fram út björtustu vonum.

Hrærð yfir viðtökunum

„Þetta er búið að fara ótrúlega vel af stað, gengur ekkert smá vel. Tilfinningin er dásamleg, hjartað mitt hefur bara stækkað ef eitthvað er,“ segir Anna Soffía í samtali við Vikublaðið full af stolti.

Hún segir íbúa Húsavíkur hafa verið mjög duglega að nýta sér skápinn fyrstu tvær vikurnar og að sama skapi að fylla á hann. „Nettó og Krambúðin hafa líka verið að gefa matvörur sem er verið að  afskrifa vegna þess að þær eru komnar á síðasta söludag,“ Útskýrir Anna Soffía en bætir við að vörurnar séu í góðu lagi þrátt fyrir stimpilinn.

Þá segir hún að það liggi auðvitað töluverð vinna á bak við framtakið og þetta gerist ekki af sjálfu sér. En það sé gefandi að standa í þessu. „Það er auðvitað nokkur vinna við þetta þegar maður er svona einn í þessu en það er alveg þess virði því fólk er rosalega ánægt og það er greinilega þörf á þessu. Fólk er bæði að koma með mat og aðrir að sækja og svo allt þetta sem við fáum úr verslununum, ég hef stundum verið í vandræðum með að koma þessu fyrir í skápnum,“ segir hún.

Ánægð með umgengnina

Anna Soffía kveðst jafnframt vera ákaflega stolt af því hvað Húsavíkingar gangi vel um skápinn. „Já ég er rosalega ánægð með hvað fólk gengur vel um. Ég sé að sjálfsögðu um að þrífa skápinn en fólk er samt að ganga svo vel um, fólk ber virðingu fyrir þessu og það er æðislegt. Það má líka koma fram að þetta er fyrir alla óháð efnahag enda snýst þetta um að sporna gegn matarsóun en auðvitað er frábært að þetta geti hjálpað þeim sem minna hafa á milli handanna,“ segir hún.


Athugasemdir

Nýjast