Sýningin Tónlistarbærinn Akureyri opnuð í Minjasafninu

Minjasafnið á Akureyri.
Minjasafnið á Akureyri.

Sýningin Tónlistarbærinn Akureyri verður opnuð í Minjasafninu á Akureyri laugardaginn 13. júní klukkan 14:00. Í tilkynningu segir að tónlist hafi verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og standi í miklum blóma um þessar mundir. Norðursal Minjasafnsins hefur verið breytt í óræðan skemmtistað þar sem sjá má fjölmarga áhugaverða gripi úr tónlistarsögu bæjarins.

Gestir safnsins geta tyllt sér niður, fengið sér kaffisopa og hlustað á tónlist eða kynnt sér söguna með því að glugga í 72 síðna blað um Tónlistarbæinn Akureyri. Í blaðinu er fjallað um allt milli himins og jarðar; stiklað á stóru í tónlistarsögu bæjarins en þó farið ítarlega í fjölmargt. 

  • Magnús Einarsson, fyrsti organisti á Akureyri, var ómenntaður alþýðumaður með óbilandi áhuga og ást á tónlist. Hann heyrði hornablástur frá ensku herskipi, hafði aldrei komist í slíkt hrifningarástand og ákvað að helga líf sitt tónlist.

  • Magnús stofnaði bæði kór og hornaflokk. Karlakór hans, Hekla, var sá fyrsti sem hélt úr landi í söngferð, til Noregs 1905.

  • Jóhannes Gísli Vilhelm Þorsteinsson – Jonni í Hamborg – var stjarna í íslensku tónlistarlífi skamman tíma laust fyrir miðja síðustu öld. Hann hélt fyrstu „íslensku“ djasstónleikana.

  • Passíukór Roars Kvam flutti fyrstur stórvirkið Messías eftir Händel í heild á Íslandi.

  • Lýður Sigtryggsson varð Norðurlandameistari í harmonikuleik árið 1946 með gríðarlegum yfirburðum.

  • Jonni í Hamborg var eitt sinn rekinn úr Menntaskólanum fyrir slagsmál á dansleik. Sigurður Guðmundsson skólameistari rak hann „frá og með næsta mánudegi, en [þér] leikið á skóladansleiknum á laugardagskvöldið.“

  • Jóhanna Jóhannsdóttir er að öllum líkindum fyrsta íslenska barnastjarnan.

  • Jóhann Konráðsson var einn vinsælasti söngvari Íslands um árabil. Rödd hans spratt fram „eins og tær lind,“ sagði Áskell Jónsson söngstjóri.

  • Pálmi Stefánsson stofnaði Tónaútgáfuna af illri nauðsyn seint á sjöunda áratug síðustu aldar, því hann fékk ekki leyfi til að selja íslenska tónlist á Akureyri! Pálmi gaf út fjölda hljómplatna.

  • Friðgeir Sigurbjörnsson varð að hætta störfum við húsgagnasmíði vegna berkla og varð afkastamikill hljóðfærasmiður.

  • Gígja Kjartansdóttir var fyrsti nemendi á pípuorgel á Íslandi.

  • Barnakór Akureyrar var fyrsti íslenski barnakórinn sem fór utan í söngferð – til Noregs 1954.

  • Strákahljómsveitin Bravó vakti mikla athygli 1965, þegar hún hitaði upp átta sinnum fyrir bresku rokkhljómsveitina Kinks, sem þá var ein sú þekktasta í heimi.

  • Kvöld í Sjallanum var kveikjan að tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves.

  • Fyrsta danshljómsveit Akureyrar var X-bandið, stofnað 1928. Hljómsveitin lék franska þjóðsönginn fyrir vísindamanninn og landkönnuðinn Jean Charcot, þegar hann sótti Akureyri heim.

  • Organistar hafa verið fáir síðan Magnús Einarsson gegndi því starfi fyrstur frá miðjum áttunda áratug nítjándu aldar. Sigurgeir Jónsson frá Stóruvöllum var organisti Akureyrarkirkju í 30 ár og Jakob Tryggvason í 45 ár! Áskell Jónsson var organisti í Lögmannshlíðar- og síðar Glerárkirkju í 42 ár.

  • Finnur Eydal spurði unga söngkonu í Reykjavík seint á sjötta áratugnum: Gætirðu hugsað þér að syngja eitt sumar með hljómsveit á Akureyri? Helena Eyjólfsdóttir svaraði játandi ...

  • Kristján Jóhannsson, þekktasti tenórsöngvari Íslands síðustu áratugi, kom reglulega fram í þekktustu óperuhúsum heims um langt árabil.

  • Vissir þú að tónskáldið og sellóleikarinn Hafliði Hallgrímsson lék sóló inn á hljómplötu fyrir Pink Floyd?

  • Forsvarsmenn Karlakórsins Geysis lofuðu árið 1934 að taka upp nafn Heklu, til minningar um Magnús organista, en af því varð ekki.

  • Bræðurnir Ingimar og Finnur Eydal hóf báðir barnungir að vinna við tónlist.

  • Fyrsti undirleikari kvennakórsins Gígjanna var einungis 14 ára.

  • Þegar Akureyrarkirkja í Fjörunni var vígð 1862 var söngurinn svo lélegur að hneyksli þótti. Danski verslunarmaðurinn Bernhard August Steincke tók þá til sinna ráða …

 


Athugasemdir

Nýjast