Syngur bassa í kirkjukórum

Birna Guðrún Konráðsdóttir segir halda upp á Háskólann á Akureyri. Mynd: Ása Guðmundsdóttir.
Birna Guðrún Konráðsdóttir segir halda upp á Háskólann á Akureyri. Mynd: Ása Guðmundsdóttir.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Birna Guðrún Konráðsdóttir hefur starfað sem verkefnastjóri á Hug-og Félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri frá árinu 2018. Birna á sér merkilega sögu innan veggja skólans en starfið fékk hún í beinu framhaldi af því að hafa lokið meistaranámi í félagsvísindum, sem hún lauk árið 2017. Tími Birnu í Háskólanum er senn á enda en hún hyggst flytja aftur heim í Borgarfjörð ásamt eiginmanni sínum, en Birna er Borgfirðingur í húð og hár.

Blaðamennska og sjúkranudd

Árið 1995 starfaði Birna í blaðamennsku á litlu héraðsfréttablaði sem hét Borgfirðingur. Því næst fluttist hún til Kanada í tvö ár þar sem hún hóf nám í sjúkranuddi sem hún svo starfaði við ásamt því að vinna sjálfstætt, þar sem hún tók viðtöl að beiðni ýmissa blaða. ,,Árið 2009 eftir hrun var svo ekkert lengur að gera í sjúkranuddinu, þar sem enginn taldi sig hafa efni á því, og þá fór ég aftur í blaðamennsku, m.a. á Skessuhorni. Svo var ég fréttaritari Morgunblaðsins í Borgarfirði og bjó sem sagt þarna á sveitabæ í Borgarfirði,” segir Birna.

Síðan kom að ákveðinni U-beygju. Hún skráði sig í nám við háskólann á Bifröst en námið þar  fannst henni ekki henta sér nægilega vel og ákvað hún í kjölfarið að skrá sig í nám í nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Það var þó ekki svo að Birna flyttist til Akureyrar án þess að þekkja til staðarins, en hún stundaði hér áður nám við Menntaskólann á Akureyri. ,,Ég var í MA í gamla daga og ég hef alltaf sagt að ef ég byggi ekki í Borgarfirði þá byggi ég á Akureyri.”

Frá Borgarfirði til Akureyrar

Aðspurð segir Birna að upplifun sín af Akureyri sé almennt mjög jákvæð. Hún segist ekki hafa fundið fyrir þessari “klíkustarfsemi” sem stundum er sögð einkenna bæinni. Á menntaskólaárunum bjó hún á vistinni, eins og margir þeirra sem koma utan að landi til að stunda framhaldsskólanám hér á Akureyri. Hún fór fljótlega bæði í tónlistarskólann og skátana og kynntist þar Akureyringum. ,,Allar mömmurnar sem ég var í samskiptum við í gegnum börnin þeirra vorkenndu svo mikið þessum utanbæjarmanni að mér var reglulega boðið í sunnudags mat, þannig að ég upplifði ekki á eigin skinni þetta “við og þið”.” Í eitt skipti kveðst Birna þó hafa fengið tilsvar frá starfsmanni í verslun, “fínni frú” eins og hún segir, sem sagði ,,Já þið, þetta utanbæjarpakk”. ,,Það var sko greinilegt að við vorum í menntaskólanum og við vorum utanbæjar pakk,” segir Birna og hlær.

Eini skólinn með fjölmiðlafræði

,,Ég held rosalega upp á Háskólann á Akureyri. Það sem mér finnst gott við hann er þessi persónulega nálgun. Ég er svolítið svona maður á mann manneskja, ég vil kynnast fólki og ég kynntist kennurunum fljótt, kannski af því að ég var eldri en flestir,”

Birna segir að þegar hún hafi verið nemandi við háskólann hafi samnemendur hennar iðurlega leitað til sín þegar ákveðnum skilaboðum átti að koma til starfsmanna skólans. ,,Ég er frekar kjaftfor þannig að ef ég var ekki ánægð með eitthvað þá kvartaði ég. Það var svo auðvitað orðið þannig að þeir sem þekktu mig sögðu gjarnan við mig: Birna getur þú ekki farið og talað við þau.”

Það að hafa upplifað skólann frá sjónarhóli nemenda segir Birna að hafi nýst sér vel í starfi sínu síðar meir. Hún hafi lagt sig eftir því að hafa jákvæð áhrif á það sem hún taldi að mætti bæta í skipulagi námsins. ,,Mér finnst það ennþá mjög mikilvægt að á fyrsta degi séu námsbrautirnar kallaðar saman, hvort sem þær eru stórar eða litlar, svo þú sjáir framan í fólkið sem þú ætlar að vinna með því að sérstaklega eins og í dag þegar fjarnemar eru fleiri, þá finnst mér allavega persónulega mikið betra að vinna með einhverjum sem ég hef séð áður.”

Birna hefur trú á því skólinn eigi bjarta framtíð fyrir sér og telur hann henta þeim einkar vel sem sækjast eftir persónulegu námi og persónulegum samskiptum. Hún bendir á að Háskólinn á Akureyri sé eini skólinn á landinu sem bjóði upp á Fjölmiðlafræði en ekki bara blaðamennsku. ,,Ég er svolítið montin af því og hvet Birgi Guðmundsson mjög til dáða í að halda brautinni sinni góðri, sem hann hefur reyndar byggt vel upp. Þannig að ég vona að hann standi sig vel áfram, tala nú ekki um ef þú setur það í viðtalið,” segir Birna kímin á svip.

Finnst gaman að syngja

Birna hefur brennandi áhuga á tónlist en á sínum yngri árum lærði hún á orgel og píanó ásamt því að “kenna” sjálfri sér á gítar. Hún hefur einnig mjög gaman að því að syngja og syngur með tveimur kirkjukórum. Hún segir þó að hlutverk sitt í kórum þessum sé ekki beinlínis eftir bókinni, en hún syngur bassann í þeim báðum. ,,Ég er ekki með mjög kvenlega rödd, þannig að ég get ekki sungið kvenraddir, ég bara næ ekki þangað,” segir Birna og bætir við að það séu ekki allir kórstjórar tilbúnir að fá konu í bassann. ,,En ég er sem sagt búin að syngja bassann í kirkjukór Akureyrarkirkju og kirkjukór Möðruvallaklausturskirkju núna og það hefur verið æðislegt af því að mér finnst mjög gaman að syngja.”

Birna hefur mörg önnur áhugamál en hún hefur meðal annars mjög gaman að því að ferðast. ,,Mér finnst fólk vera æðislegt,” segir Birna líka og bætir því við að það séu ekki margir sem hún hafi kynnst sem henni finnist vera leiðinlegir. Einnig hefur hún mjög gaman af grúski. Hún segist eiga alltof margar bækur, heillist af sagnfræði og finnist skemmtilegt að skoða hluti í samhengi. ,,Ég er mjög einlægur áhugamaður þess að maður reyni að læra af því sem búið er, að við séum ekki alltaf að finna upp hjólið og það væntanlega tengist þessu grúski.”

Leiðin liggur aftur heim

Komið er að tímamótum hjá Birnu en nú heldur hún aftur heim í Borgarfjörð þar sem hún og eiginmaður hennar hafa keypt sér hús á Hvanneyri. Birna segir að tilfinningar sínar séu blendnar yfir því að kveðja Akureyri. ,,Ég er bæði glöð og leið, það hefur verið frábært að vera hérna, mér líkar vel að vera í bænum og samstarfsfólkið hefur verið aldeilis frábært hérna. Þannig að ég mun sakna Háskólans á Akureyri og bæjarins sem slíks, en stundum verður maður bara að taka ákvörðun og þetta var mín ákvörðun, það er bara svoleiðis.”

-VM


Athugasemdir

Nýjast