Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hafi fest sig í sess í menningarlífi bæjarins

Jónína Björt Gunnarsdóttir listrænn stjórnandi Sumartónleika í Akureyrarkirkju. Mynd/aðsend
Jónína Björt Gunnarsdóttir listrænn stjórnandi Sumartónleika í Akureyrarkirkju. Mynd/aðsend

mth@vikubladid.is

„Það hefur gengið alveg gríðar vel, full kirkja af ánægðum gestum, bæði íslenskum og erlendum,“ segir Jónína Björt Gunnarsdóttir listrænn stjórnandi Sumartónleika í Akureyrarkirkju.  Tvennum tónleikum er lokið og tveir eru eftir, á morgun og þarnæsta sunnudag.

Tunglið og ég

Jónína Björt segir að Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hafi fest sig í sess sem árleg tónleikaröð, en hún hófst árið 1987. „Við leggjum mikið upp úr því að hafa dagskrána fjölbreytta og oftar en ekki reynum við að bjóða upp á eina tónleika fyrir börn. Við einlínum svolítið á klassíkina, þessa sígildu tónlist, en það er líka gaman að blanda þessu saman. Á lokatónleikunum hjá okkur í sumar eru orgel og saxófónn í öndvegi, sem er skemmtileg blanda, hljóðfæri sem maður heyrir ekki oft í saman,“ segir hún. Á þeim tónleikum leikur Duo BARAZZ, sem skipað  er saxófónleikaranum Dorthe Højland frá Danmörku og Láru Bryndísi Eggertsdóttur organisti Grafarvogskirkju.

Ferðafólk duglegt að mæta

Jónína Björt tók við starfi listræns stjórnanda Sumartónleikanna af Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur árið 2019, en þær höfðu skipt með sér verkum. Nú hefur Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir gengið til liðs við hana og saman halda þær um stjórnartauma tónleikaraðarinnar.

Hún segir að Sumartónleikarnir eigi sér sína „fastakúnna“ gesti sem komi á tónleika á hverju einasta ári og það sé alveg dásamlegt. „Sumir koma þegar þá langar að heyra eitthvað sérstakt og eins fáum við líka mikið af ferðafólki. Bæði er þar um að ræða fólk sem statt er tilfallandi við að skoða kirkjuna og heyrir af væntanlegum tónleikum og fá þá í kaupbæti en einnig sækja tónleikana ferðamenn sem sjá auglýsingar í bænum um þá og koma gagngert til að hlusta,“ segir Jónína Björt.

Varpljóð á Hörpu er yfirskrift tónleikanna sem verða næsta sunnudag, 17. júlí kl. 17, en þar flytja þær Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir lög úr samnefndum ljóðaflokki eftir Ingibjörgu Azimu við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur. Sönglögin samdi Ingibjörg í tilefni af 100 ára afmælis ömmu sinnar, Jakobínu Sigurðardóttur. Einnig flytja þær stöllur perlur úr íslenskum söng- og þjóðlögum.

„Við höfum verið einstaklega heppin með styrki, höfum lengi notið þeirra þannig við getum alltaf borgað tónlistarfólki og þeim sem þátt taka, en haft á sama tíma frítt inn og það er eiginlega alveg frábært,“ segir Jónína Björt og bætir við að fólk sé duglegt við að borga í litla krúttlega kassann frammi í anddyri þar sem tekið er við frjálsum framlögum. „Við erum þakklát fyrir það því auðvitað skiptir það máli að geta greitt fólki fyrir að taka þátt í þessu með okkur.“


Athugasemdir

Nýjast