Sumarbúðir starfræktar í fyrsta sinn í Saltvík

Efri röð frá vinstri: Elmar, Svala, Iðunn, Emelía, Þóra, Rakel, hundurinn Móa, Guðbjörg, Guðrún, Nan…
Efri röð frá vinstri: Elmar, Svala, Iðunn, Emelía, Þóra, Rakel, hundurinn Móa, Guðbjörg, Guðrún, Nanna, María. Neðri röð frá vinstri: Eva Rut, Hilda Lóa og Lea Dís. Mynd/epe

Um þessar mundir eru 16 hressar stelpur á aldrinum 10-14 ára í sumarbúðum í Saltvík rétt sunnan Húsavíkur. Í hópnum eru bæði stelpur sem eru þaulvanar að umgangast hesta en einnig aðrar sem aldrei hafa stigið á bak.

Sumarbúðirnar heita Útreiðar & útivist og eins og nafnið gefur til kynna er áhersla lögð á hestamennsku en einnig náttúruskoðun, föndur og leiki. Þá ætlar hópurinn að nota Þjóðhátíðardaginn vel á morgun og fara í hvalaskoðun með Norðursiglingu. Gildi sumarbúðanna eru Gleði - Ævintýri - Óvissa!

Þetta er í fyrsta sinn sem sumarbúðir eru starfræktar í Saltvík en þær eru örugglega komnar til að vera enda stelpurnar í sjöunda himni með dvölina sem líkur á föstudag.

Þegar blaðamaður leit við í Saltvík í dag var hluti stelpnahópsins að undirbúa sig fyrir útreiðartúr  ásamt leiðbeinendum og ekki að sjá að þær létu kuldatíðina hafa teljandi áhrif á sig.

Það eru Rakel Jóhannsdóttir og Guðbjörg Ólafsdóttir sem skipulögðu sumarbúðirnar. Þær kynntust í hestamennsku og hafa báðar farið í hestaferðir skipulagðar af Saltvík hestamiðstöð en þær búa á höfuðborgarsvæðinu.

Ítarlegri umfjöllun um sumarbúðirnar verður í Vikublaðinu á fimmtudag í næstu viku.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi


Athugasemdir

Nýjast