Styrkja sálfélagslega þjónustu á HSN

Guðjón H. Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, Hjördís Albertsdóttir, varaformaður Félag…
Guðjón H. Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, Hjördís Albertsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, og Pétur Maack Þorsteinsson, yfirsálfræðingur HSN við afhendingu styrks KÍ í húsakynnum HSN á Akureyri.

Kennarasamband Íslands styrkti nýverið sálfélagslega þjónustu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands um 350 þúsund krónur. Styrkurinn er ætlaður til kaupa á búnaði til sálfræðimeðferðar barna og unglinga á Norðurlandi.

Í tilkyningu segir að Kennarasambandið hafi ekki sent jólakort um árabil en þess í stað látið fé af hendi rakna til stofnana, samtaka og félagasamtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna. Á heilsugæslustöðvum HSN stendur sálfræðiþjónusta börnum og unglingum að 18 ára aldri til boða þeim að kostnaðarlausu.

Miðað er við að sálfræðingar HSN sinni meðferð við vægum tilfinninga- og lyndisröskunum auk ráðgjafar við foreldra og heilbrigðisstarfsfólk. Þá er samstarf við félagsþjónustu, barnavernd og skólaþjónustu vaxandi hluti af starfsemi sálfræðinga HSN. „Það er von Kennarasambandsins að styrkurinn komi sér vel í þessari mikilvægu starfsemi,“ segir í tilkynningu.


Athugasemdir

Nýjast