Stuðningur HN við hjartaþræðingar á SAk

Stjórn Hjartaverndar Norðurlands afhendir Heilbrigðisstofnun Norðurlands blóðþrýstingsmæli að gjöf. …
Stjórn Hjartaverndar Norðurlands afhendir Heilbrigðisstofnun Norðurlands blóðþrýstingsmæli að gjöf. Á myndinni eru frá vinstri Hugrún Hauksdóttir læknir, Sólveig Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Snæbjörn Þórðarson formaður HN í 17 ár, Þorlákur Axel formaður HN, Inga Berglind Birgisdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Kristín Sigfúsdóttir gjaldkeri, sem hefur setið í stjórn HN í 37 ár, Hulda Pétursdóttir ljósmóðir og Julia Leschhorn læknir. Myndir Aðsendar

Aðalfundur Hjartaverndar Norðurlands var haldinn á dögunum [þann 26. okt. síðast liðinn]. Auk venjulegra aðalfundarstarfa ræddu fundarmenn við hjartalækni um stöðuna í baráttunni við hjartasjúkdóma. Miklar framfarir hafa orðið í hjartalækningum síðustu áratugi og sú bragarbót sem orðið hefur á lífsstíl þjóðarinnar, einkum með minni tóbaksreykingum, hefur leitt til færri dauðsfalla og örkumla af völdum hjartasjúkdóma. Mikið verk er þó óunnið og mun hækkandi meðalaldur þjóðarinnar og  þyngdaraukning birta nýjar áskoranir í forvörnum, lækningum og umönnun hjartasjúklinga.

Hjartavernd Norðurlands er almannaheillafélag stofnað árið 1965 sem Hjarta- og æðasjúkdómavarnarfélag Akureyrar og nágrennis. Félagið hefur beitt sér fyrir framförum í hjartalækningum, unnið að bættri þjónustu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra, haldið vakningarfundi og mælt blóðþrýsting bæjarbúa. Félagið tók þátt í stofnun HL-stöðvarinnar og það hefur úthlutað styrkjum til rannsókna og til tækjakaupa á heilsugæslur og sjúkrahús. Félaginu hafa borist margar og höfðinglegar gjafir á starfstíma sínum sem varið hefur verið í þágu markmiða þess, sem hafa verið að berjast gegn hjarta- og æðasjúkdómum, útbreiðslu þeirra og afleiðingum, eins og segir í stofnskrá félagsins.

Samþykkt var einróma eftirfarandi ályktun um hjartaþræðingar við Sjúkrahúsið á Akureyri:

Aðalfundur Hjartaverndar Norðurlands lýsir stuðningi við þingsályktunartillögu (þingskjal 396/2023) um að hjartaþræðingar verði gerðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Aðalfundurinn hvetur Alþingi og ríkisstjórn til þess að vinda bráðan bug að því að tryggja mannskap og tæki þannig að verða megi af enn bættri þjónustu við hjartasjúklinga. Það kallar á pólitíska afstöðu og aðgerðir að gera sérfræðiþjónustu aðgengilega öllum landsmönnum í samræmi við Heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðuneytisins frá 2019. Heilbrigðiskerfið varð ekki til af sjálfu sér, því er hægt að breyta og það má bæta. Til þess þarf pólitískan vilja og málafylgju sem tryggir framgang umbóta. Hjartavernd Norðurlands mun ekki láta sitt eftir liggja í þessu efni og hvetur aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Fh. Hjartaverndar Norðurlands

Þorlákur Axel Jónsson, formaður stjórnar

Snæbjörn Þórðarson þá formaður HN tekur á móti rausnarlegum styrk til félagsins frá Akureyrardætrum, sem þær öfluðu með þátttöku í hjólreiðakeppni hringinn í kringum landið. Á myndinni með honum eru Hafdís Sigurðardóttir, Þórdís Rósa Sigurðardóttir, Harpa Hermannsdóttir, Laufey Hrólfsdóttir, Kristjana Hákonardóttir og Vala Magnúsdóttir.


Athugasemdir

Nýjast