Söngelsk systkini ásamt meðleikara úr Dölunum

,,Fjólójól – er nafn á tónleikum sem við systkinin þrjú úr Fjóluhvamminum í Hafnarfirði erum að halda í fyrsta skipti. Fjóluhvammurinn er æskuheimilið okkar og þegar við fengum þessa flugu í höfuðið að halda saman tónleika í fyrsta skipti saman, þá ákváðum við að nefna tónleikana eftir því. Því við hittumst alltaf í Fjóló... ,,Verðið þið í Fjóló um jólin?” er t.d. árleg spurning.

Við systkinin höfum öll sömu grunnmenntunina í samsöng. Við tókum öll fyrstu spor okkar á tónlistarbrautinni í hinum rómaða Kór Öldutúnsskóla, sem undir stjórn Egils Friðleifssonar ferðaðist út um allan heim og var fenginn til þess að syngja í ýmsum sjónvarpsupptökum í gegn um árin, syngja inn á hljómplötur (Vísnaplöturnar, Jólagestir Björgvins, svo fátt eitt sé nefnt) og við vorum svo heppin að fá að halda áfram í kórastarfi í Flensborg, þar sem við nutum leiðsagnar þeirra Margrétar Pálmadóttur og Hrafnhildar Blomsterberg. 

Þessir miklu og dásamlegu tónlistarmenn höfðu mikil áhrif á okkur og mörkuðu fyrstu spor okkar systkinanna í tónlistinni. Svo höfum við á okkar eigin forsendum haldið áfram að syngja okkur til gagns og gamans, og  öll lært söng á einhverjum tímapunkti. Ívar tók þetta lengst, alla leið, en við systurnar aðeins styttra. Sönggleðin er alltaf með okkur.

Á þessum tónleikum fáum við að njóta meðleiks píanorganistans, kórstjórans, ljósmyndarans og náttúrubarnsins úr Dölunum Eyþórs Inga Jónssonar. Hann er organisti í Akureyrarkirkju, stjórnar multi-talent-kórnum Hymnodíu og nær að fanga einstakar ljósmyndir í náttúrunni" segir fjöllistamaðurinn Ívar Helgason þegar hann var inntur eftir þvi hvað Fjólójól eiginlega væri.

Hvað er á efnisskránni?

Efnisskrá þessara tónleika er, mætti segja, með “innhverfu” sniði. Við ætlum ekki í “blastið” heldur ætlum við að leyfa einlægninni að ráða för. Á þessum tónleikum verða flutt nokkur lög sem Ívar gaf út á Jólaplötu sinni “Jólaljós” 2009, auk þess sem 7 ný lög eftir hann verða flutt. Flest, ef ekki öll, verða frumflutt á tónleikunum. Að öðru leyti höfum við leitast við að velja lög sem eru að okkar mati perlur, sem hafa heyrst allt of lítið, en eiga þann eiginleika sameiginlegan að allir geta lygnt aftur augunum og íhugað texta-innihald og gildi þeirra.

Hafið þið systkinin stigið áður saman að svið? Eins og við sögðum áðan, þá höfum við aldrei áður sungið öll þrjú saman, sko, opinberlega. Raddirnar okkar smellpassa saman. 

Eyþór Ingi er meðleikari, hann kann nú til verka.

Já, hann er svo næmur og hann er fullkominn félagi til liðs við okkur systkinin að draga fram mýktina sem við stefnum á að koma til áheyrenda. Ívar mun örugglega grípa í gítarinn, jafnvel fleiri hljóðfæri, það kemur í ljós. En Eyþór Ingi verður “rauði þráðurinn” í meðleiknum á þessum tónleikum.

Þannig að stemningin verður hlý og ,,kósý?"

Við stefnum á að draga fram notalega stemmningu sem er einmitt það sem við þurfum á að halda í amstri þessa árstíma, eins og segir í einum texta af lögum eftir Ívar:

Jólanótt e. Freystein Gunnarsson:

Nóttin hljóða, helgust allra nótta,

himni færir lof og þakkargjörð,

boðar frið og eyðir hatri og ótta.

Englar Drottins halda tryggan vörð.

Jólabarn, í jötu reifum vafið,

Jesúbarn til æðstu dýrðar hafið

send oss friðinn, jólafrið á jörðu.

Báðar kirkjurnar sem við höldum tónleikana í eru afar fallegar og eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hljómburði. Andrúmsloftið sem við viljum skapa er kyrrðarstund með tónlistarívafi. 

Hvenær verða tónleikarnir? Við verðum í Akureyrarkirkju föstudaginn 15. desember – kl: 20:00 og í Hafnarfjarðarkirkju, laugardaginn 16. desember – 20:00.  Sökum mikillar fyrirspurnar með miða, þá ákváðum við að nýta okkur miðasölukerfið á TIX.is

 


Athugasemdir

Nýjast