Söfnuðu hálfri milljón fyrir Pietasamtökin

Emilía Björt Ingimarsdóttir heillaði alla viðstadda með kraftmiklum söng. Hún flutti 
lagið Rain me…
Emilía Björt Ingimarsdóttir heillaði alla viðstadda með kraftmiklum söng. Hún flutti lagið Rain með Jet Black Joe. Mynd/epe

Föstudagskvöld 10. september, á alþjóðlegum degi sjálfsvígsforvarna var ég staddur í þéttsetinni Húsavíkurkirkju.

Stemningin var rafmögnuð en þar fór fram sannkölluð tónlistarveisla á vegum Tónasmiðjunnar á Húsavík en það er Elvar Bragason sem er í forsvari fyrir hana. „Rokkað gegn sjálfsvígum“ var yfirskrift tónleikanna og rann allur ágóði til Píetasamtakanna á Akureyri.

Að sýningunni komu um 30 flytjendur á ýmsum aldri þar sem sú yngsta er 8 ára og sá elsti um 60 ára. Öllu var til tjaldað; stór hljómsveit, bakraddarhópur, einsöngvarar og landsþekktu heiðursgestirnir Ragnheiður Gröndal og Bjössi sax.

 

Veislustjóri og kynnir var tónlistarmaðurinn, sálfræðingurinn og rokkarinn Birgir Örn Steinarsson einnig þekktur sem Biggi í Maus en hann er forstöðumaður Píeta á Akureyri.

Tónasmiðjan

 

Það var listamaður Norðurþings, Sigurður Illugason sem steig fyrstur á svið tónlistarfólks og setti tóninn fyrir það sem koma skyldi; með grjóthörðum rokkslagara.

Fjölmargir gestasöngvarar stigu á stokk; systurnar Bylgja, Harpa og Svava Steingrímsdætur fluttu hverjar sitt lagið af sinni alkunnu snilld. Aðalsteinn Júlíusson var nálægt því að rífa þakið af kirkjunni með kraftmikilli röst sinni. Frímann kokkur átti flotta innkomu. Ragnheiður Gröndal bjó til töfrandi stund þegar hún söng tvö lög án undirspils og auðvitað dustaði Biggi í Maus rykið af pönkaranum og flutti lag eftir Billy Idol.

Tónasmiðjan

 

Stjörnur sýningarinnar voru þó allir þeir frábæru ungu listamenn Tónasmiðjunnar sem fluttu skemmtileg lög af mikilli innlifun. Hæfileikarnir leyndu sér ekki og þarna eru greinilega á ferð tónlistarfólk framtíðarinnar, bæði söngvarar og hljóðfæraleikarar.

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík flutti stutta hugvekju og kveikti á kerti til minningar um þá sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Að lokum tók Birgir Örn við 500 þúsund krónum fyrir hönd Píetasamtakanna á Akureyri frá Tónasmiðjunni en það var Elvar Bragason sem afhenti gjöfina. Sannarlega stórkostleg veisla og góður boðskapur sem gestir tóku með sér inn í helgina. 

Myndirnar í fréttinni tók Hilmar Friðjónsson

Tónasmiðjan

Tónasmiðjan

Tónasmiðjan

Tónasmiðjan

Tónasmiðjan


Athugasemdir

Nýjast