Skjálfandaflói fullur af hval og stefnir í gott sumar

Goðafoss er alltaf vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Mynd/epe
Goðafoss er alltaf vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Mynd/epe

Það hefur ekki verið ástæða til að kvarta yfir veðrinu á Norðurlandi undanfarið enda búin að vera einmunablíða síðan um miðjan maí. Á Húsavík byrjar yfirleitt að kvikna mikið líf á Húsavík á þessum árstíma, sérstaklega fyrir neðan bakka þar sem ferðamenn frá öllum heimshornum flykkjast í hvalaskoðun.

Ferðaþjónustuaðilar í bænum eru sammála um að sumarið fari mjög vel af stað miðað við fjölda ferðamanna sem heimsótt hafa bæinn það sem af er. Bjartsýni ríki í greininni fyrir sumarið enda háanna tími að hefjast. Vikublaðið tók stöðuna hjá nokkrum ferðaþjónustuaðilum og spurði út í stöðuna.

 Bjartsýni innan greinarinnar

Örlygur Hnefill Örlygsson verkefnastjóri Húsavíkurstofu var í skýjunum þegar blaðamaður náði tali af honum í vikunni og sagði fulla ástæðu til bjartsýni enda lægju allar leiðir til Húsavíkur.

„Ég hitti mjög marga innan ferðaþjónustunnar í mínum störfum og hefur fundist fólk vera jákvætt fyrir áframhaldinu og ánægt með það sem af er,“ segir Örlygur og nefnir góða traffík í gistingu og veitingum. „Svo hef ég heyrt að vel hafi gengið hjá verslanaeigendum og safnafólki.“

Þá nefnir Örlygur að Hvalasafnið sem nýlega opnaði ný sýningarrými sé fullt út úr dyrum dag eftir dag. „Það er almenn gleði hér í greininni.“

Mikið hefur verið í  umræðunni að hugsanlega sé metfjöldi ferðamanna að koma til landsins í sumar en ferðaþjónustuaðilar sem blaðið ræddi við eru nokkuð sammála um að gott hlutfall af þeim fjölda sé að skila sér norður.

Skemmtifeerðaskipið

Hefur áhyggjur af takmörkunum yfir Skjálfandafljótsbrú

Þó Örlygur tali að mestu á jákvæðu nótunum í spjalli við blaðamanna, þá tekur hann fram að hann hafi áhyggjur af lokun fyrir þungaumferð yfir Skjálfandafljótsbrú. Það komi sérstaklega illa við ferðaþjónustuaðila sem eru með starfsemi sitt hvoru megin við brúna.

„Nú er búið að loka fyrir umferð stórra ökutækja yfir Skjálfandafljótsbrúnna. Það hlýtur að vera óánægja hjá ferðaþjónustunni þarna sitt hvoru megin við fljótið, t.d. Svörtuborgir í Útkinn og Hótel Rauðaskriðu sem er staðsett Húsavíkurmegin við brúna,“ segir hann og bætir við að rútur þurfi nú að fara um talsvert lengri leið að þeim.

„Þetta verður miklu lengri leið til að komast að þeim. Hvort sem það er frá Húsavík í Svörtuborgir eða ef þú ert að koma frá Akureyri í Rauðuskriðu. Þetta er það eina sem mér dettur í hug sem er ekki jákvætt það sem af er sumri. Þessi lokun er bölvanleg fyrir svona akstur,“ segir Örlygur.

Húsavíkurkortin slegið í gegn

Fyrir nokkrum árum fékk Húsavíkurstofa listamanninn Röðul Rey Kárason til að hanna skemmtileg götukort af Húsavík og hafa kortin slegið í gegn jafnt hjá ferðafólki sem heimamönnum. Örlygur segir að ný kort séu komin á helstu ferðaþjónustustaði í bænum og í þetta sinn hafi verið unnar uppfærslur á kortinu. „Hann er búinn að gera þetta fyrir okkur undan farin ár. Við höfum tekið eftir því að fólk er að taka þetta sem minjagrip, þannig að við tókum ákvörðun um það núna að uppfæra kortið og gera það enn þá eigulegra. Við færðum alla tölfræði og upplýsingar á baksíðuna og stækkuðum myndina. Þetta er orðið enn þá eigulegra sem minjagripur,“ segir hann.

 Mikið af hval í flóanum

hvalaskoðuhn

Ef það er eitthvað sem Húsavíkin er þekkt fyrir út fyrir landssteinana þá hlýtur það að vera hvalaskoðunin í Skjálfandaflóa enda hefur Húsavík verið nefnd höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi.

Daníel Annisius aðstoðarframkvæmdastjóri Gientle Giants hvalaferða segir sumarið lofa afar góðu en mikil traffík hafi verið það sem af er sumri.

„Þetta er búið að vera góður mánuður, alveg frá síðari hluta maí þegar fór að vera brjálað að gera. Svo hefur þetta verið stigvaxandi síðan þá. Veðrið hefur verið ótrúlega gott og það er ekki að spilla fyrir,“ útskýrir Daníel og bætir við að flóinn hafi verði fullur af hval.

„Það er búið að vera mikið um hval í flóanum. Frá byrjun maí höfum við verið að sjá hnúfubaka í nánast öllum ferðum. Svo hefur verið talsvert um steypireiðar og höfrunga. Þetta er búið að vera virkilega gott.“

 Spar á yfirlýsingar

Aðspurður hvort hann taki undir að það stefni í metár í ferðaþjónustunni kveðst hann vilja fara varlega í stórar yfirlýsingar enda hafi reynslan sýnt að ýmsir óvissuþættir geti komið upp.

„Staðan er mjög góð og ég er bjartsýnn á framhaldið enda eru horfurnar mjög góðar. Bókunarstaðan er góð og bókunum er enn að rigna inn. Ég vil samt vera með báðar fætur á jörðinni enda eru enn þá óvissuþættir í þessu. Þó útlitið sé gott þá þykir mér skynsamlegt að hafa varann á, við erum búin að fara í gegn um svo margt. Ef covidið hefur kennt okkur eitthvað þá er það að vera ekki með of stórar yfirlýsingar en auðvitað vonum við að góðar horfur standi undir sér,“ segir Daníel.

Stefán Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar tekur í sama streng hvað varðar góðar horfur og segir sumarið fara mjög vel af stað.

„Það er búið að vera frábært veður og mjög góð hvalaskoðun, mikið um hval og gengur mjög vel. Við byrjuðum 1. mars og svo eykst alltaf eftir því sem líður að sumri. Við erum með mest í júlí og ágúst og svo fer að fækka aftur þangað við hættum í nóvember,“ segir hann og bætir við að lokum að honum sýnist gott hlutfall af ferðamönnum sem koma til landsins vera að skila sér norður.

GArðsar


Athugasemdir

Nýjast