Sameinar gamlar hefðir og býr til nýjar

Magni Ásgeirsson segir fjölskylduna reyna að hafa aðventuna afslappaða.
Magni Ásgeirsson segir fjölskylduna reyna að hafa aðventuna afslappaða.

Þessi grein birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem unnið var af fjölmiðlafræðinemum við Háskólann á Akureyri.

Magni Ásgeirsson gerir meira en að syngja inn jólin fyrir landsmenn. Hann sinnir stóru heimili á milli túra og í jólamánuðinum stjórnar hann uppsetningu á ævintýralegu jólaþorpi sem hefur stækkað með fjölskyldunni í fimmtán ár. Magni spjallaði við Vikudag um jólahátíðina og fjölskyldulífið.

Ég er að sýsla hitt og þetta þegar ég er ekki að syngja. Ég rek tónlistarskóla með vinum mínum og við hjónin erum líka að ala upp þrjá syni eftir bestu getu, það tekur ágætis tíma. Annars er vinnan mín í raun allt sem tengist tónlist. Hvort sem það er skipulagning viðburða, hljóðritun eða tónlistarflutningur. Áhugamálin er síðan flest tengd músíkinni líka en ætli ég sé ekki bara fyrst og fremst fjölskyldufaðir þegar ég er ekki í vinnunni.

Pabbinn Magni

Á virkum dögum vakna ég klukkan sjö og kem öllum í skólann. Ég er síðan að snúast heima fram eftir morgni, setja í vélar og svona og vinn aðeins í tölvunni. Næst á dagskrá er svo ýmist kennsla í Tónræktinni eftir hádegi eða skutl á fótboltaæfingar þá daga sem það á við. Eftirmiðdagurinn er síðan klassískt barnauppeldi og eldamennska. Ég svæfi yfirleitt þegar ég er heima. Við hjónin náum svo kannski einum þætti af Shameless og þá er dagurinn úti. Helgarnar eru síðan allt annar kapítuli. Þær snúast meira og minna um flugferðir, hljóðprufur og almenna vanvirðingu fyrir góðum nætursvefni.

Luville jólaþorpið

Við Eyrún, konan mín, erum frekar mikil jólabörn og auðvitað er gríðarleg spenna hjá strákunum okkar sem eru fjögurra, sex og tólf ára. Við skreytum ekkert yfirdrifið en samt slatta. Ég stjórna til dæmis uppsetningu á Luville jólaþorpi sem við erum búin að safna síðan tengdamamma gaf okkur kirkjuna í upphafi búskapar okkar Eyrúnar. Við reynum af gefinni reynslu að hafa aðventuna afslappaða, kerti og kósý. Mér finnst hún reyndar ekkert síðri en jólin sjálf. Við höfum stundum farið austur til pabba um jólin og nokkrum sinnum haldið áramótin með vinum hérna á Akureyri þannig að við erum með nokkrar mismunandi hefðir. Hamborgarhryggur og hangikjöt er samt það eina sem má alls ekki vanta á jólunum. Þessar jólahefðir hjá okkur fjölskyldunni eru í raun óteljandi. Ég segi að galdurinn við að vera í sambandi og eiga börn sé að sameina allar þessar gömlu hefðir og búa til nýjar.

Óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn

Eyrún er augljóslega betri helmingurinn. Hún er vanalega búin að kaupa flestar jólagjafirnar um miðjan júní og þær fara allar í sína landshluta í byrjun des. Við skrifum ennþá sirka hundrað jólakort, að setja inn status á Facebook telst ekki með. Jólatréð er vanalega fura sem kemur að austan en Eyrún plantaði einhverjum þúsund stykkjum á sínum yngri árum. Ég held svo ásamt vinum mínum á Akureyri jólatónleika áttunda og níunda desember sem heita Norðurljósin. Nafnið er frekar táknrænt þar sem næstum allir sem koma að uppfærslunni eru búsettir hér á Akureyri. Reyndar eru flestir söngvararnir ættaðir af Norðurlandi líka. Árið sem við byrjuðum á þessu sáum við fram á að það yrðu engir stórir jólatónleikar á Akureyri þannig við ákváðum að bæta úr því og sýna að það þyrfti ekki alltaf að vera að sækja vatnið yfir lækinn. Nú erum við búnir að gera þetta í fjögur ár og er það eiginlega orðinn hluti af jólaundirbúningnum að standa á sviðinu í Hofi og syngja jólalög með vinum mínum. Forsönvararnir koma úr öllum áttum, Erna Hrönn, Valdimar Guðmunds, Stefán Jakobs, Andrea Gylfa, Óskar Péturs og Helga Möller. Við reynum að láta sem flesta syngja saman til að gera upplifunina sem besta. Lagavalið er allt frá Bing Crosby til Wham þannig það ætti engum að leiðast.

Mömmukökurnar bestar

Mömmukökur eru sennilega uppáhalds smákökurnar mínar, ekki endilega til að borða, frekar það sem þær standa fyrir. Mamma bakaði þær alltaf og leyfði mér að hjálpa til við kremið, það er eitthvað svo ljóslifandi í minningunni. Ég er allt of mikið fyrir sætindi og sérstaklega fyrir jólin. Ég er yfirleitt búinn með þær sortir sem við bökum löngu fyrir jól, Lakkrístoppar og Sörur meira að segj, en ég hef ekki lagt í Mömmukökurnar sjálfur enn þá. Er ansi hræddur um að þær myndu ekki standast væntingar.

Jól sveitastráksins

Mér finnst vanta þegar ég er á Akureyri að sjá pabba ekki korter í jól koma frá því að gefa jólagjöfina í fjárhúsinu og drífa sig í bað og gera sig fínan. Ég sakna þess líka ólýsanlega að geta ekki farið til ömmu og afa í Sæbergi eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir. Alla mína barnæsku hittist stórfjölskyldan þar upp úr klukkan tíu á aðfangadag og fékk sér kökur og kaffi. Þau eru bæði fallin frá en þetta er eitthvað sem maður man alltaf.

-LMG

 


Nýjast