Rauði dregillinn kominn á malbikið

Smári Jónas Lúðvíksson, passar upp á að línan sé bein. Mynd/epe
Smári Jónas Lúðvíksson, passar upp á að línan sé bein. Mynd/epe

Óskarsverðlaunahátíðin sem fram fer í lok apríl er orðin helsta hitamálið á Húsavík en eins og kunnugt er var lagið Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga tilnefnt til Óskarsverðlauna.

Silja Jóhannesdóttur stjórnarmeðlimur í Húsavíkurstofu og Hinrik Wöhler forstöðumaður sóttu nýverið um leyfi til byggðarráðs Norðurþings um að setja upp rauðan dregil í miðbæ Húsavíkur í tengslum við Óskarsverðlaunaafhendinguna. Jafnframt óskuðu þau eftir styrk í formi aðkomu starfsmanna þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins að framkvæmd verkefnisins.

Um hádegisbil í dag mættu vaskir menn á vegum þjónustumiðstöðvar Norðurþings með málningu og rúllur. Nú er búið að mála rauða dregilinn á malbikið á milli Kaupfélagshússins og Sölku við Garðarsbraut. Hinrik Wöhler sagði í samtali við Vikublaðið að á mánudag yrði hengdur upp viðhafnarborði á milli húsanna tveggja yfir götuna. „Þá er bara að vona að Húsavíkingar séu búnir að taka nagladekkin undan svo málningin endist örugglega fram að Óskarsverðlaunaafhendingunni,“ sagði hann léttur í bragði.

Rauður dregill


Nýjast