Paradís fyrir börnin í útjaðri Húsavíkur

Gullfiskatjörnin er vinsæl hjá yngstu kynslóðinni. Mynd/epe
Gullfiskatjörnin er vinsæl hjá yngstu kynslóðinni. Mynd/epe

Á Húsavík er skammt að sækja náttúruperlur sem eiga sér engan sinn líka. Lengi vel hefur það einungis verið á vitorði heimamanna en ferðafólk er nú í auknum mæli farið að sækja þessar perlur heim. 

Gullfiskatjörn

Skammt sunnan Húsavíkur, nærri þjóðvegi, eru fjórar tjarnir sem sameiginlega eru kallaðar Kaldbakstjarnir.  Langstærst þeirra er Svarðarmýrartjörn sem blasir við af þjóðveginum, sjávarmegin.  Austan þjóðvegar er hinsvegar Yltjörn sem er næst stærst tjarnanna. Hún er yfirleitt kölluð Gullfiskatjörnin enda er þar krökkt af villtum gullfiskum. og er eitt vinsælasta útivistasvæði hjá yngstu kynslóðunum Hinar tjarnirnar tvær eru litlar og ekki sýnilegar frá vegi. 

Tjarnirnar urðu til árin 2000 og 2001 í tengslum við rafmagnsframleiðslu í lítilli virkjun í Hrísmóum þegar volgu og heitu vatni var veitt í dalverpið þar sem nú er Yltjörn.  Í Yltjörn rennur umtalsvert magn af heitu vatni og er hún því ávallt volg.  Yltjörn er ekki hvað síst þekkt fyrir að í henni er sjálfbær stofn gullfiska sem þar hefur lifað til margra ára.  Þar er vinsælt að stunda böð og gullfiskaveiðar á góðviðrisdögum.

Gullfiskatjörn 

Í áranna rás hefur Gullfiskatjörnin verið hálfgerð leyniparadís Húsvíkinga enda hefur svæðið ekki verið auglýst að neinu ráði. Orðið hefur þó borist um aðra landshluta og er að verða æ algengara að íslenskt ferðafólk leggi leið sína að tjörninni.

Þegar blaðamannnn bar þar að garði fyrr í dag hitti hann fyrir fjölskyldu frá Reykjavík en fólkið sagðist hafa heyrt af Gullfiskatjörninni hjá ættingjum. Börnin busluðu í tjörninni og reyndu að fanga gullfiska á meðan foreldrarnir böðuðu sig í sólinni á bakkanum. Mikil umferð hefur verið við Tjörnina í sumar enda veðurblíðan verið einstök.

Á vef Norðurþings segir jafnframt að talsvert sé af silungum í Svarðarmýrartjörn og þar er einnig sérlega ríkulegt fuglalíf.  Þar hafa sést yfir 90 tegundir fugla í gegn um árin.  Ýmsar áhugaverðar gönguleiðir er að finna umhverfis tjarnirnar. Sannkölluð náttúruparadís sem vert er að skoða og njóta.


Athugasemdir

Nýjast