Orð dagsins í hálfa öld

Jón Oddgeir rekur Litla húsið í miðbæ Akureyrar, verslun þar sem ýmislegt kristilegt efni er í boði.…
Jón Oddgeir rekur Litla húsið í miðbæ Akureyrar, verslun þar sem ýmislegt kristilegt efni er í boði. Hann hefur frá barnæsku tekið þátt í kristilegu starfi í heimabæ sínum. Hefur setið í sóknarnefnd Akureyrarkirkju óslitið frá árinu 1985, var kirkjuvörður í Glerárkirkju í 11 ár. Mynd/Margrét Þóra.

„Viðbrögðin hafa verið jákvæð, fólk er þakklátt fyrir að hafa þennan möguleika til að sækja sér huggun, styrk eða blessun í dagsins önn. Þakklæti fólksins eru mín laun,” segir Jón Oddgeir Guðmundsson á Akureyri sem haldið hefur úti Orði dagsins í hálfa öld.

Í Orð dagsins getur fólk hringt og hlustað á lestur, ritningarorð eða lestur úr Biblíunni og er ávallt nýr texti á hverjum degi. Fyrsti lesturinn fór í loftið 17. apríl árið 1971. Símanúmerið er 462-1840. Jón Oddgeir segir að vinur sinn einn hefði heyrt um það í bresku útvarpi að fólk gæti hringt í ákveðið símanúmer og fengið guðs orð beint í eyrað. „Mér fannst þetta alveg frábær hugmynd og fór strax að vinna í því að setja upp valkost af þessu tagi,” segir hann.

Fyrirkomulagið var með þeim hætti fyrstu árin að Jón Oddgeir leigði síma og símsvara af Pósti og sími sem þá var og hét og greiddi töluvert háa upphæð í afnotagjöld. Las hann ýmis sjálfur eða fékk vini í lið með sér ritningarvers hvers dags. Lesið var inn á stórar 8 rása kassettur og fært yfir á símsvara. Hver lestur var að jafnaði um 3 mínútur. Tæknin krafðist þess að lesari sæti við tækið á meðan lestur fór fram. “Tækninni hefur í tímans rás fleygt mikið fram,” segir hann. Nú er lesið inn á talhólf og það er hægt að gera hvar sem er. Talhófið tekur þó einungis við einni mínútu þannig að tíminn sem gefst til að hlusta á guðs orð hefur styst.

Hann segir að viðtökur hafi verið góðar og á fyrstu árunum hafi um 90 til 100 hringingar verið í símsvarann daglega. Nú hin síðari ár hefur hringingum fækkað enda margt annað í boði í gjörbreyttu samfélagi miðað við fyrri tíð. „Það er samt alltaf einhver notkun, 10 til 12 hringingar á dag. Fólk sem hringir ef til vill inn til að leitar sér huggunar á erfiðum tímum og það gleður mig ef það finnur hana í Orði dagsins hverju sinni.”

Mitt framlag til samfélagsins

Jón Oddgeir er við þokkaleg heilsu en segir sjón sinni hafa hrakað umtalsvert með árunum. Hann er með stóran skjá frá Þjónustumiðstöð blindra og sjónskertra sem gerir honum kleift að halda starfinu áfram. Það hafi um árin gefið sér mikið og verið uppörvandi fyrir sig að finna þakklæti þeirra sem nýttu sér þjónustuna, það hafi haldið sér við efnið og gert að verkum að úthaldið sé svo mikið sem raun ber vitni. “Þetta er mitt framlag til samfélagins og þakklætið sem ég finn fyrir eru mín laun,” segir hann. 

-mþþ

 

 


Nýjast