Ofurmæðgur á setti: Sannkallað ævintýri

Mæðgurnar Berglind og Viðja Karen spiluðu stórt hlutverk í tökunum á Húsavík- My Hometown. Mynd/epe
Mæðgurnar Berglind og Viðja Karen spiluðu stórt hlutverk í tökunum á Húsavík- My Hometown. Mynd/epe

Mæðgurnar Viðja Karen Vignisdóttir og Berglind Ragnarsdóttir léku báðar stórt hlutverk í tengslum við tökur á myndbandinu við Husavik – My Hometown. Viðja er ein af stúlkunum 17 sem sungu með Molly Sandén og opnuðu Óskarsverðlaunahátíðina sem fram fór aðfararnótt mánudags.

Berglind, móðir Viðju var óvænt ráðin sem aðstoðarmaður tökumanns og var því á setti alla helgina. „True North vantaði aðstoð og ég bauð mig fram. Ég bjóst reyndar við að ég væri bara að fara bera hluti á milli staða en svo var ég límd við tökumanninn allan tímann. Ég fylgdi honum um hvert fótmál og var því á settinu allan tímann sem tökur stóðu yfir,“ segir Berglind en hún var eini heimamaðurinn sem starfaði beint með tökuliðinu og jafnframt eina konan; en því miður er kvikmyndabransinn enn mjög karllæg grein. Berglind sagði að þetta hafi verið mjög skemmtileg reynsla fyrir sig og dóttur sína en vegna sóttvarnaráðstafana þurfti Berglind að búa á hóteli ásamt öðru starfsliði kvikmyndafyrirtækisins.

Berglind þótti hafa staðið sig með eindæmum vel í sínu hlutverki og hafði einn úr  tökuliðinu orð á því að nú yrði tekin upp ný regla: „Aðstoðarmaður tökumanns verður hér eftir að vera hjúkrunarfræðingur,“ en Berglind er einmitt hjúkrunarfræðingur og starfar hjá HSN á Húsavík.

Berglind Ragnarsdóttir 2021

Viðja var líka stolt og ánægð þegar blaðamaður hitti á hana daginn eftir að tökum lauk. „Það var rosalega gaman að fá að vera með í þessu,“ sagði Viðja og yppti öxlum þegar hún var spurð hvort biðtíminn á milli taka hafi ekki reynt á hana. „Nei, nei. Við stelpurnar lékum okkur bara á meðan og æfðum inni í rútunni.“ Hún sagði jafnframt að þrátt fyrir kulda á tökustað hafi þetta verið vel þess virði. Sannkallað ævintýri.

Viðja lét sig heldur ekki vanta þegar stúlkurnar komu saman á Cape Hotel til að horfa á atriðið sitt á Óskarsverlaunahátíðinni. Þar var boðið upp á snakk, mæru og frábæra stemningu.


Nýjast