Norðurorka - 10 áramótaheit

Förum vel með ómetanlega auðlind.   Mynd Vikublaðið
Förum vel með ómetanlega auðlind. Mynd Vikublaðið

Á nýju ári lítum við gjarnan yfir farinn veg en íhugum jafnframt það sem framundan er. Áramótin marka nýtt upphaf sem oft veitir drifkraft og mörg nýta tækifærið og strengja áramótaheit.

Stundum hefur því verið haldið fram að áramótaheit skili engum árangri. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á þau sem strengja áramótaheit eru mun líklegri til að ná markmiðum sínum innan sex mánaða borið saman við þau sem garnan vilja bæta sig en strengja engin heit. Eins getur orðalag haft áhrif á árangur því rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þeim gengur betur sem setja sér heit um að taka upp ákveðnar venjur borið saman við þau sem ætla að láta af ákveðnum venjum. Þannig getur reynst árangursríkara að setja sér markmið um að hjóla í vinnuna tvisvar í viku í stað þess að heita því að sleppa bílnum tvisvar í viku þó hvort tveggja beri að sama brunni.

Hér koma tillögur að eldheitum áramótaheitum sem koma sér einstaklega vel fyrir veiturnar okkar, umhverfið, heilsuna og veskið. Gerist ekki mikið betra. Gleðilegt nýtt ár!

Skrúfum fyrir kranann á meðan tennurnar eru burstaðar.

Ein afar einföld og sársaukalaus leið til að ganga betur um dýrmæta vatnið okkar er sú að skrúfa fyrir kranann á meðan við burstum tennurnar. Lítið skref fyrir einstaklinginn en stórt fyrir umhverfið. Þess má geta að rennsli í þrjár mínútur kvölds og morgna í heilt ár eru um 20.000 lítrar!

 

Notum oftar vistvæna samgöngumáta.

Að ganga eða hjóla er ekki aðeins gott fyrir umhverfið og veskið heldur er það einnig góð hreyfing.

Notum klósettið rétt (hættum að henda blautklútum)

Stór hluti aðskotahluta í fráveitukerfinu eru blautklútar. Fráveitukerfið ræður illa við þessa klúta og líkur á bilunum aukast. Með því að ganga vel um fráveituna getum við dregið úr álagi og lækkað kostnað.

Sleppum heita pottinum yfir köldustu vetrardagana

Fátt er betra er að hlamma sér í heitan pott. Þar gildir þó að vera ábyrgur í sinni orkunotkun og sleppa því að fylla á heita pottinn yfir köldustu dagana. Sér í lagi ef aðeins er um að ræða tíu mínútur ofan í þá er sturtan heppilegri kostur.

Fáum fagmanneskju til að yfirfara hitakerfi hússins.

Íslensk heimili (100 fm) notar árlega um 500 rúmmetra (tonn) af heitu vatni eða eina meðalstóra sundlaug. Fáum fagfólk til að yfirfara hitakerfi hússins reglulega. Þannig nýtum við orkuna betur og orkureikningurinn lækkar.

Hlöðum rafbílinn þegar það er minna álag, t.d. á næturnar

Hægt er að hlaða rafmagnsbíla við öll sérbýli og fjölbýli en hversu mikið afl er í boði fyrir bílhleðslu getur verið mismunandi.Staðsetning húsnæðis skiptir þar máli þar sem tvö mismunandi spennukerfi eru á Akureyri. Hægt er að sjá frekari upplýsingar um spennukerfin og skiptingu svæða hér. Best er þó að dreifa álaginu eins og hægt er, með því t.d. að hlaða bílinn á næturnar.

Slökkvum á hitastrengjum í þakrennum að vori

Segir sig sjálft. Það er óþarfi að vera með kveikt á hitastrengum í þakrennum þegar enginn er snjórinn.

Söfnum olíu úr eldhúsinu, komum henni á endurvinnslustöð og hlífum fráveitukerfinu í leiðinni

Olía og fita getur valdið stíflum í lögnum heimilisins. Öll olía sem við notum í eldhúsinu býr yfir orku sem hægt er að endurnýta, t.d. steikingarolía, olía úr ostakrukkum og djúpsteikingarfeiti.

Förum yfir stillingar á snjóbræðslu

Snjóbræðsla getur verið orkufrek. Með nákvæmari stýringu á snjóbræðslunni allt árið um kring næst betri árangur auk þess sem hún veldur minna álagi og orkureikningurinn lækkar.

Fylgjumst með eigin orkunotkun

Vissir þú að á Mínum síðum getur skráður notandi veitu séð yfirlit yfir orkureikninga og línurit yfir notkun! Við viljum vera í góðu sambandi við notendur og leggjum okkur fram um að miðla upplýsingum hratt og örugglega. Hér má sjá leiðbeiningar um innskráningu á Mínar síður.

Frá þessu er sagt á www.no.is

 


Athugasemdir

Nýjast