NorðurHjálp fékk húsnæði við Dalsbraut

Nýja húsnæðið er við Dalsbraut    Myndir  MÞÞ
Nýja húsnæðið er við Dalsbraut Myndir MÞÞ

„Við hlökkum mikið til að taka á móti okkar góðu viðskiptavinum á nýjum stað,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir sem í félagi við stöllur sínar rekur nytjamarkaðinn NorðurHjálp. Starfsemin hófst í lok október síðastliðnum í hluta af fyrrverandi húsakynnum Hjálpræðishersins við Hvannavelli, en samningur rann út nú í byrjun apríl.

Nýtt hús undir markaðinn fannst við Dalsbraut, um 400 fermetra stór salur ofan við Bakaríið við brúna og verður gengið inn frá bakatil. „Húsnæðið er nánast hrátt og mikið verk fram undan við að laga til, bæta og breyta. Við fáum sem betur fer góða hjálp, það er svo fallegt hvað allir eru boðnir og búnir að aðstoða okkur á alla lund. Við erum svo innilega þakklátar fyrir hvað okkur er allir eru tilbúnir að aðstoða,“ segir Sæunn. Sem dæmi nefnir hún að Höldur lánaði sendibíl til flutninganna og Greifinn gaf fólki að borða þegar flutningum lauk. „Við erum orðlausar yfir hvað allir eru almennilegir við okkur.“

Hún telur að þrjár vikur,  jafnvel mánuð taki að koma húsnæðinu í viðunandi horf og hlakkar til að geta opnað á nýjum stað.  „Við erum ánægðar með þetta húsnæði, það er rúmgott og verður eftir endurbætur mjög flott. Aðkoma og aðgengi er líka ljómandi gott.Við teljum okkur heppnar að hafa fengið þetta húsnæði."

Styðja þá sem höllum fæti standa

NorðurHjálp hefur verið starfandi um 5 mánaða skeið. Greidd er leiga en allir sem starfa á markaðnum eru launalausir sjálfboðaliðar. Öll innkoma fer í að rétta þeim sem höllum fæti standa í okkar nærsamfélagi hjálparhönd. „Við erum afskaplega glaðar og stoltar af þeim árangri sem við höfum náð á þeim skamma tíma sem við höfum starfað, en við höfum getað veitt fólki sem ekki nær endum saman á bilinu frá 5 til 6 milljónir króna.

Það er mikill fjöldi fólks sem leggur okkur lið með því að gefa okkur varning, fatnað, leikföng, húsgögn, búsáhöld, allt milli himins og jarðar í raun og svo er líka góður hópur viðskiptavina sem kemur reglulega til okkar.

Það er heimilislegt hjá þeim stöllum í NorðurHjálp

Þetta er gott samspil og gerir að verkum að við getum látið gott af okkur leiða í samfélaginu.“


Athugasemdir

Nýjast