Norðlensk hlaðvörp ryðja sér til rúms

Podcast Stúdíó Akureyrar.
Podcast Stúdíó Akureyrar.

Norðlensk hlaðvörp (e.podcast) hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarnar vikur eftir að Podcast Stúdíó Akureyrar fór í loftið snemma á þessu ári. Fjölmargir þættir eru í boði sem teknir eru upp í glænýju stúdíói þar sem allt er til alls til að gera góðan hlaðvarpsþátt.

Nú eru um sjö podcast-þættir sem teknir eru upp í stúdíóinu og eru allir þættirnir aðgengilegir inn á heimasíðu Podcast Stúdíó Akureyrar, www.psa.is, auk þess sem hægt er að hlusta á þættina á öllum helstu streymisveitum á borð við Spotify. Fleiri þættir eru svo væntanlegir í næstu misserum. Það eru Davíð Rúnar Gunnarsson hjá Viðburðarstofu Norðurlands og Halldór Kristinn Harðarson, einnig þekktur sem KÁ/AKÁ, sem standað að stúdíóinu. Keyptar voru allar helstu græjurnar sem þarf fyrir hlaðvarpsþætti og aðstaðan, sem er við Glerárgötu, er leigð út.

Við stiklum hér á stóru yfir það sem er í boði varðandi norðlensk hlaðvörp en listinn er þó alls ekki tæmandi.

Gestir mæta með uppáhaldslögin sín

10 bestu er þættir sem Ásgeir Ólafs stýrir þar sem gestir koma með sín tíu uppáhaldslög og spjalla um daginn og veginn. Þátturinn fór snemma ofarlega á lista yfir vinsælustu hlaðvörp landsins. „Ég ræði við gestina um ferilinn og lífið almennt, í bland við það að spila brot úŕ lögunum þeirra,“ segir Ásgeir í samtali við Vikublaðið. „Hugmyndin kom til mín árið 2018. Ég byrjaði á Útvarp Akureyri með sama þátt og er nú kominn í podcast umhverfi. 10 bestu var fyrsti og eini slíki þátturinn í einhvern tíma.“ Ásgeir segir viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar. „Ég setti mér takmark sem ég ætlaði að ná í lok árs en náði því strax í febrúar. Ég þakka það frábærum viðmælendum mínum og hlustendum. 10 bestu er nú orðinn einn af 15 vinsælustu íslensku hlaðvörpunum,“ segir Ásgeir sem ætlar að taka upp 100 þætti á árinu. „Eftir það koma einn til tveir þættir út vikulega.“

Spjall við listamenn og áhugavert fólk

Kata Vignis er með þáttinn Farðu úr bænum sem snýst um að spjalla við listamenn og fleira áhugavert fólk á Akureyri. „Hugmyndin kom vegna þess að mig langaði að læra að taka viðtöl fyrir sjónvarp en ég fann ekkert námskeið akkúrat núna sem hentaði hér á landi. Þannig að ég ákvað að taka málin í mínar hendur og láta vaða, enda er ég stanslaust að læra á meðan ég framkvæmi og er þakklát fyrir alla leiðsögn sem að ég fæ,“ segir Kata. „Síðan er ekki verra að fá að kynnast fullt af frábæru fólki í leiðinni. Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar,“ segir Kata, sem skellti sér í djúpu laugina þegar hún byrjaði með hlaðvarpið. „Ég fór inn í þetta alveg blint, með engar væntingar og markmiðið var alltaf bara að nýta þetta sem tækifæri til þess að læra og prófa mig áfram. Þannig ég er alveg einstaklega þakklát fyrir alla viðmælendur mína, það kom mér skemmtilega á óvart að fólk sé bara í alvöru að segja já við að koma í viðtal þegar að það veit enginn hver ég er! Ég kann mikið að meta það,“ segir Kata. Þættirnir koma út alla þriðjudaga.

Bannað að dæma

Bannað að dæma nefnist podcast-þáttur í umsjón Heiðdísar Austfjörð og Halldórs Kristins Harðarsonar sem snýst í grunninn um að það sé bannað að dæma. „Við viljum nota þennan vettvang til að koma sem flestu og flestum á framfæri og skyggnast inn í heima og raunveruleika sem við kannski vitum minna um og þar af leiðandi dæmum þá frekar en að afla okkur upplýsinga um þá,“ segir Heiðdís Austfjörð. „En ásamt því viljum við líka tala við áhugavert fólk allsstaðar að úr samfélaginu og spjalla um allt milli himins og jarðar. Hafa gaman, hlæja, peppa og hrósa.“ Hún segir hugmyndina hafa komið til þegar Halldór var að opna stúdíóið. „Ég var búin að nefna það að það væri gaman að byrja með podcast því ég hefði svo mikla þörf til að tjá mig og forvitnast, en mig langaði ekki að vera ein og ég þyrfti að hafa eitthvern með mér til að böggast í,“ segir Heiðdís. „Viðtökurnar eru búnar að fara fram úr öllum okkar vonum. Við bjuggumst ekkert endilega við neinu og vissum ekkert hvað við vorum að fara út í en fólk hefur gaman af fræðslunni og að fá svör við spurningum og almennt heyra hvað við erum opin og hömlulaus.“ Þættirnir koma út tvisvar í viku, fimmtudaga og sunnudaga.

Fannst vanta umfjöllun um Þórsliðið

Þórspodastið er þáttur þar sem nokkrir félagar fara yfir allt það helst sem tengist Knattspyrnudeild Þórs. „Við ræðum úrslit og gengi liðsins, fáum leikmenn og þjálfara í viðtöl m.a. Reynum svona að hafa þetta í léttari kantinum, rifjum upp góð móment í gegnum tíðina hjá liðinu. Kemur fyrir líka að við förum aðeins yfir gengi Þórs í körfunni og handboltanum,“ segir Baldvin Kári Magnússon sem er einn af umsjónarmönnum þáttarins. „Okkur fannst vanta umfjöllun um Þórsliðið en það var eiginlega ekki fyrr en vorið 2019 sem við fórum af stað með þetta. Við vorum í brasi með aðstöðu lengi vel en nú er staðan allt önnur í þeim málum. Viðtökurnar hafa verið góðar. Stuðningsmenn Þórs eru aðalmarkhópurinn og þeir hafa tekið þáttunum vel,“ segir Baldvin.

Alla þættina sem fjallað hefur verið um að ofan má finna á www.psa.is ásamt fleiri öðrum þáttum og hvet ég lesendur til að kíkja þangað inn.

 


Athugasemdir

Nýjast