Níu fjölbreyttir viðburðir fengu styrk frá VERÐANDI listsjóð

Menningarhúsið Hof á Akureyri. Mynd/Auðunn Níelsson.
Menningarhúsið Hof á Akureyri. Mynd/Auðunn Níelsson.

Veittir hafa verið styrkir úr listsjóðnum VERÐANDI fyrir árið 2023-2024. Það voru 16 umsóknir sem bárust sjóðnum og níu viðburðir sem fengu brautargengi. Viðburðirnir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Klassísk tónlist, jazzperlur, samtímadansverk, barnatónlistar- og danssmiðja, útgáfutónleikar þjóðlaga og popptónlistar, angurværir ástarsöngvar, raf - og óperutónlist munu laða að breiðan hóp gesta á nýju starfsári í húsinu.

„Það var sérstaklega skemmtilegt að sjá fjölbreytni umsóknanna,  sjá metnað listafólksins og vilja til að nýta sér aðstöðuna hér í Hofi fyrir þeirra flottu og krefjandi viðburði. Styrkþegar starfsárs Menningarfélags Akureyrar 2023-2034 bjóða uppá forvitnilega, fjölbreytta og kröftuga viðburði sem munu laða gesti til sín allt frá 3 ára aldri. Við óskum þeim innilega til hamingju með styrkinn og hlökkum mikið til að taka á móti þeim og gestum þeirra í hús,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar og verkefnastjóri VERÐANDI listsjóðs.

Eftirtaldir aðilar fengu úthlutað:

Guðný Ósk Karlsdóttir: Leitin að regnboganum, dans- og tónlistarsmiðja fyrir börn við nýtt frumsamið efni.

Brynjólfur Brynjólfsson og Sigríður Hulda Arnardóttir:  Úr tóngarðinum, útgáfutónleikar með frumsömdu efni.

Vigdís Þóra Másdóttir og Helga Margrét Clarke: Íslenskar Jazz perlur.

Gísli Rúnar Víðisson: Úr öllum áttum, klassískir tónar.

Yuliana Palacios: Hér á ég heima, frumsamið samtímadansverk.

Gísli Magnússon:  Gímaldin flytur Hetfield píanó-próekt.

Rósa María Stefánsdóttir: Ástarsæla, gullperlur ástarsöngvanna.

Michael J. Clarke: Vortónleikar Hljómsveitar Akureyrar. 

Rakel Björk Björnsdóttir: ÞAU taka Norðurland, útgáfutónleikar; frumsamin tónlist við texta norðlenskra skálda.

Það eru Akureyrarbær, Menningarfélagið Hof ásamt  Menningarfélagi Akureyrar sem standa að baki listsjóðnum VERÐANDI. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof sem vettvang fyrir listsköpun sína og  auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að koma þar fram. Allir viðburðir styrkþeganna verða sýnilegir á mak.is þar sem nálgast má nánari upplýsingar. 


Athugasemdir

Nýjast