Nemendur Símenntunar útskrifast í annað sinn úr MBA-námi við UHI

Freydís Heba Konráðsdóttir
Freydís Heba Konráðsdóttir

Þann 5. október síðastliðinn fór fram útskrift nemenda viðUHI – University of the Highlands and Islands. Símenntun HA átti þar sjö útskriftarnema úr MBA-náminu. MBA-námið við UHI býður upp á 100% fjarnám og mikinn sveigjanleika svo nemendur geta stundað námið á sínum hraða.

Þetta er í annað sinn sem nemendur frá Símenntun útskrifast úr MBA-náminu og að þessu sinni mættu fjórir útskriftarnemanna til Perth og tóku þátt í hátíðarhöldunum. Ein þeirra er Freydís Heba Konráðsdóttir eða Freyja, eins og hún er kölluð dagsdaglega.

„Mér fannst námið vera mun meira krefjandi en ég bjóst við í upphafi. Ég vildi klára námið á sem stystum tíma svo ég vissi að þetta yrði mikil vinna en það sem kom mér á óvart var hversu mikinn áhuga ég fékk á viðfangsefnunum og óskaði þess bara að hafa minnkað vinnuna enn frekar til að geta lesið mér meira til, sérstaklega í ljósi þess að námið var í heild sinni mun fræðilegra en ég bjóst við,“ segir Freyja, sem kláraði námið á einu og hálfu ári.

,,Eitthvað breyttist og ég fékk meira sjálfstraust”

Hún segir að fyrstu tvær annirnar hafi hún unnið mikið í skorpum í kringum verkefnaskil og að síðasta önnin hafi veriðtileinkuð ritgerðarskrifum þar sem hún hafi unnið jafnt og þétt enda með góðan leiðbeinanda sem sýndi mikið aðhald. „Það sem stendur upp úr fyrir mig er sú þekking sem ég sankaði að mér, reynslan sem fylgir því að skrifa og læra á ensku og aðgera fjölda verkefna um fjölbreytt viðfangsefni sem efldu mig gríðarlega, bæði í lífi og starfi. Það er erfitt að segja puttann á hvað nákvæmlega það er, en eitthvað breyttist og fékk meira sjálfstraust á eigin getu og gráðuna til að bakka það upp. Í námskeiðinu Responsible Leadership öðlaðist ég nýja sýn á sjálfsþekkingu, hver ég vil vera og hver ég vil ekki vera. Þessi áfangi var mun persónulegri en ég bjóst við og í áfanganum framkvæmir maður meðal annars persónuleikapróf og rýnir í sjálfan sig alveg niður í kjölinn, finnur falda eða gleymda hæfileika og gildi. Eitthvað sem mér þykir einstaklega vænt um í dag,“ segir Freyja.

Hún segir jafnframt: „Ég fann það í sjálfsskoðuninni í þessu námskeiði að hæfileikum mínum væri ekki best varið þar sem ég var að starfa en fyrir fram hafði ég í rauninni bara viljað fá þessa gráðu. Síðan breyttist allt þegar ég fór að vinna þessi verkefni og sá fljótt að innst inni vildi ég fara aðra átt með minn starfsferil. Ég fór því að horfa aðeins í kring um mig en ákvað þó að klára námið fyrst og ana ekki út í neitt. Síðan var það á kynningardögum MBA námsins árið eftir þar sem nýir nemendur hittast á Akureyri og koma sér í gírinn fyrir komandi vetur sem ég kemst að því að Símenntun er að auglýsa starf sem vakti áhuga minn og var eitthvað sem kallaði á mig og var í þá átt sem mig langaði að stefna,“ segir Freyja sem starfar í dag sem verkefnastjóri markaðssetningar og námsframboðs hjá Símenntun.

Hagstætt MBA-nám þar sem þú stjórnar ferðinni og áherslum

MBA-nám hefur verið gríðarlega vinsælt og eftirsóknarvert síðustu ár hér á landi og segir Freyja nokkrar ástæður vera fyrir því að hún valdi MBA-námið hjá Símenntun fram yfir hina möguleikana sem eru í boði á Íslandi. „Verðið átti stóran þátt í ákvörðuninni. Námið kostar 1.450.000 kr. í stað margra milljóna hjá hinum, fyrir utan allan kostnað við að fara suður mjög reglulega í lotur. Þá er námið 100% fjarnám og það að geta sinnt náminu þegar mér hentar og með sem minnstu raski á fjölskyldulífinu er eitthvað sem skipti mig miklu máli,“ segir Freyja um ákvörðun sína. 

Hún segir jafnframt að fjölbreytnin hafi heillað hana. Nemar í MBA-náminu geta valið úr fimm mismunandi áherslulínum. „Að geta valið áherslulínu eftir mínu áhugasviði þótti mér mikilvægt og ég gat svo valið þar innan úr fjölda valáfanga sem mér fannst mikill kostur en það var erfitt að velja vegna þess úr hve mörgum spennandi áföngum er hægt að velja. Námið byggir á einstaklingsverkefnum og ég bar fulla ábyrgð á náminu sjálf og kannski þess vegna fannst mér öll verkefnin vera mjög spennandi því ég gat valið viðfangsefni sem mér fannst áhugaverð og tengt þau næstum öll við vinnuna mína,“ útskýrir Freyja. 

Mikilvægt aðgengi að Símenntun

Á námstímanum hafa MBA-nemarnir fullan aðgang að starfsfólki Símenntunar og gefst þeim einnig færi á að kynnast samnemendum sínum. „Að tengjast hinum nemendunum í gegnum Símenntun og að hafa aðgang að starfsfólki þar var frábært. Því fylgir líka ákveðin ró að hafa einhvern til að leita ráða hjá ef eitthvað kom upp á, frekar en ef ég hefði farið í fjarnám við annan erlendan háskóla með enga tengingu við stofnun hérlendis,“ segir Freyja.

Þá er Freyja sérstaklega ánægð með útskriftarhátíðina og sér ekki eftir að hafa gert sér ferð til Perth. „Ég var næstum því hætt við að fara, nennti varla öllu umstanginu bara til þess að fá eitthvert plagg í hendurnar, en maður fær skírteinið sitt sent heim eftir að ritgerðinni er skilað. En svo ákvað ég að slá til, hugsaði með mér að ég myndi kannski sjá eftir því að fara ekki, og ég hefði svo alls ekki viljað missa af þessu. Þegar maður hefur verið í fjarnámi, að mestu einn við tölvuna, þá fann ég að það skipti mig miklu máli að fá þarna viðurkenningu fyrir alla vinnuna, að ég var vissulega að vinna að einhverju merkilegu. Við sem mættum vorum sammála um að þessi uppskeruhátíð væri eitthvað sem allir í þessum námi ættu að stefna á að mæta í. Það var líka svo gaman að klæða sig upp í tilheyrandi skikkju, hitta samnemendur, kennara og bara að hafa það huggulegt þarna í Perth. Athöfnin sjálf var hátíðleg með sekkjapípuleik og flottum ræðum svo égklökknaði smá, en á sama tíma nokkuð létt og skemmtileg en alls ekki of löng, sem er mikilvægt,” segir Freyja að lokum. 

Við óskum útskriftarnemum hjartanlega til hamingju með áfangann.


Athugasemdir

Nýjast