„Mikilvægt andlega að koðna ekki niður á bak við hurð heima hjá sér“

Bjarni Hafþór Helgason
Bjarni Hafþór Helgason

Haldnar verða tvær sýningar í Hlíðarbæ 12. Og 13 október næstkomandi kl. 20 þar sem Bjarni Hafþór Helgason segir sögur af sér og sínu fólki og hvernig húmorinn hefur nýst til að takast á við alls konar veikindi, bæði andleg og líkamleg.

Sýningin ber heitið  „Húmor og veikindi„ sögustund með Bjarna Hafþóri en hann greindist með Parkinson sjúkdóminn fyrir nokkrum árum. Því verðuga verkefni hefur hann mætt eins og honum einum er lagið með jákvæðni og æðruleysi.

Bjrnai Hafþor

„Jú ég hef reynt það eftir bestu getu og með líkamsrækt líka. Það er það eina sem vitað er að hægi á framvindu sjúkdómsins. Það stoppar hann ekkert en hægir á honum. Það er svo mikilvægt andlega að koðna ekki niður á bak við hurð heima hjá sér heldur mæta þessu andlega líka,“ segir Bjarni Hafþór.

Lífshlaup Bjarna Hafþórs er fyrir löngu orðið merkilegt enda hefur hann yljað landsmönnum í gegnum tíðina með hnyttni sinni, húmor og æðruleysi á hverjum þeim vettvangi sem hann gefur lagt fyrir sig.

Bjarni Hafþór viðurkennir að með sýningunni fari hann vel út fyrir þægindarammann en segir það jafnframt nauðsynlegt að ögra sjálfum sér. „Þetta er stressandi að standa í svona löguðu enda er ég að gera þetta líka til að ráðast svolítið á parkann, fara vel út fyrir rammann með sjálfan sig. Ég held að ég hafi bara gott af þessu,“ segir hann.

Aðspurður segist Bjarni Hafþór ekki alveg vita hvernig hann eigi að skilgreina þessa sýningu. „Ég kalla þetta bara svona sagnakvöld. Þetta er byggt á einhvers konar raunverulegum sögum af mér og mínu fólki. Einhverju sem við höfum verið að segja af hverju öðru út og suður og hlæja af sjálfum okkur og gera grín að öllu saman,“ útskýrir hann.  

Sýningin er haldin í samstarfi við Öskju, reglu Musterisriddara á Akureyri en Bjarni Hafþór var meðlimur í þeirri reglu þegar hann bjó á Akureyri. „Þetta er bindindisregla, í þessu eru menn sem aldrei hafa smakkað vín og menn sem eru hættir að drekka vín. Þeir voru með húsnæði á Akureyri, seldu það og keyptu Hlíðarbæ fyrir nokkrum árum,“ segir Bjarni Hafþór og bætir við að það hafi verið gott tilefni til að gera þetta í samvinnu við regluna, fá eitthvað inn í hússjóðinn og um leið að prófa þetta á sjálfum sér.  

„Þetta eru sögur af sjálfum mér, pabba og mömmu og margt af þessu er þekkt innan fjölskyldunnar, við erum búin að segja þessar sögur aftur og aftur í gegnum árin og hlæjum alltaf jafn mikið af þeim. En svo hef ég ekki hugmynd um hvernig þetta virkar fyrir annað fólk. Það verður að hafa það, úr því að maður er búinn að láta hafa sig út í þetta, þá verður bara að láta sig hafa það,“ segir Bjarni Hafþór og viðurkennir að hann sé örlítið stressaður yfir þessu.  

„Þó parkinn sér ekkert farinn að fara mjög illa með mig, þá veit ég ekkert hvernig það hefur áhrif á mig að tala í kannski 90 mínútur framan við fólk tvö kvöld í röð. Þetta er svona „risk faktor“ Hvernig áhrif þetta hefur á röddina í mér og líkamann. Áhorfendur verða bara að taka þátt í þeirri áhættu með mér,“ Bjarni Hafþór léttur í bragði að lokum.

Miðaverð er kr. 2.500 og rennur óskipt í hússjóð Öskju - Reglu Musterisriddara, lögð verður áhersla á þægileg sæti við borð, innifalinn er kaffisopi og jafnvel viðbit að auki. Miðasala er í Veiðibúðinni Óseyri 2 og hefst miðvikudaginn 5. október.


Athugasemdir

Nýjast