„Mikil þolinmæðisvinna að leyfa hugmynd að fæðast náttúrulega“

Nele Marie Beitelstein fjölmenningarfulltrúi, Einar Óli listamaður Norðurþings 2023 og Katrín Sigurj…
Nele Marie Beitelstein fjölmenningarfulltrúi, Einar Óli listamaður Norðurþings 2023 og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.

Listamaður Norðurþings 2023 er Einar Óli Ólafsson tónlistarmaður, laga- og textahöfundur. Einar er nýorðinn þrítugur og er Húsvíkingur í húð og hár. Hann er söngvari og lagahöfundur og hefur lokið námi á skapandi braut hjá Tónlistarskóla Akureyrar. Hann starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Húsavík auk þess sem hann starfar hjá félagsþjónustu Norðurþings.


 Einar Óli er tónlistarmaður frá Húsavík sem kallar sig iLo. Hann brennur fyrir það að skapa eitthvað nýtt og sýna fólki afraksturinn, hvort sem það er gert á tónleikum, samfélagsmiðlum eða streymisveitum. Tónlist, laga- og textasmíðar veita honum andlega næringu og hann notar sköpun til hugleiðslu. Í nóvember á árið 2021 gaf hann út plötuna 9 laga plötuna Mind Like a Maze sem aðgengileg er á öllum helstu streymisveitum.

Þetta er fyrsta plata Einars Óla en hæfileikarnir eru næstum yfirþyrmandi og nokkuð ljóst að hann á eftir að gera sig gildandi á tónlistarsenunni á næstu árum. Hæfileikaríkt fólk dregur líka að sér annað hæfileikaríkt fólk en að plötunni koma þungavigtar manneskjur í tónlistarbransanum, s.s. Pálmi Gunnarsson. Kristján Edelstein og Andrea Gylfadóttir.

Viðburðaríkt ár

Einar óli

Síðasta árið hefur verið viðburðaríkt hjá Einari Óla. Hann tók þátt í Idol stjörnuleit og vakti þar mikla athygli fyrir söng sinn, textasmíð og einlæga framkomu. Hann stefnir á að gefa út tvær smáskífur með eigin efni og eiga þær að koma út á næstu mánuðum. Sú fyrri „Where wind takes me“ er unnin með Kristjáni Edelstein gítarleikara og pródúsent og er komin ágætlega á leið. Hina ætlar hann að taka upp og útsetja sjálfur og heitir hún „Something new“.

 Stoltur af nafnbótinni

Vikublaðið ræddi við Einar Óla á dögunum en hann var virkilega stoltur af nafnbótinni Listamaður Norðurþings „Þetta samstarf leggst bara ótrúlega vel í mig og ótrúlegur heiður á fá þessa nafnbót,“ sagði hann og bætti við að nafnbótin stæði fyrir samstarf á milli hans og Norðurþings að viðburðahaldi í sveitarfélaginu.

„Þetta er í  raun bara samstarf á milli mín og Norðurþings sem snýr að því að halda viðburði hér á svæðinu og mun gera sveitarfélaginu gott og mér líka.“

Einar Óli segist vera búinn að kortleggja hvað hann ætli sér að gera í sumar en frekari samtöl eigi efitir að eiga sér stað varðandi samstarfið við Norðurþings.

 Lætur gamlan draum rætast

„Ég er að vinna að tveimur smáskífum. Aðra þeirra er ég að vinna með Kristjáni Edelsteins sem ég hef unnið með áður á Akureyri. Hina er ég að vinna sjálfur en það er búið að vera draumur hjá mér lengi að vinna að svona smáskífu einn og sjá hvert það leiðir mig,“ útskýrir tónlistarmaðurinn ungi.

Krefjandi ferli

Einar Óli segir að ferlið við að semja tónlist og gefa hana út vera krefjandi en ótrúlega skemmtilegt. „Ég gaf náttúrlega út þessa plötu árið 2021 og svo þegar það var búið þá vissi ég ekki nákvæmlega hvað ég vildi gera næst.  Það er mikil þolinmæðisvinna að leyfa einhverri hugmynd að fæðast náttúrulega. Þetta er hugmynd sem er búin að vera þroskast í höfðinu á mér í a.m.k eitt ár. Svo er ég að fara fylgja því eftir núna með hljóðversvinnu,“ útskýrir hann

Fann ástríðuna í framhaldsskóla

Einar Óli hefur unnið í tónlistarbransanum í nokkur ár nú þegar en hann segist þó ekki hafa verið mjög upptekinn af tónlist eða lagasmíðum á sínum yngri árum. „Nei, ég var reyndar ekki mikið í tónlist á yngri árum. Ég er að mestu sjálflærður á allt sem viðkemur minni sköpun. Ég fór reyndar í Tónlistarskóla Húsavíkur sem krakki og lærði á harmónikku, svo tók ég eitt ár á trompet og eitt ár á trommur, þannig að maður prófaði ýmislegt,“ segir hann og bætir við að hann hafi lítið annað gert í tónlist fyrr en á unglingsárunum. Þetta er kannski til marks um það hvað Tónlistarskóli Húsavíkur hefur unnið frábært starf í gegnum tíðina í samtarfi við Borgarhólsskóla en flestir ef ekki allir krakkar sem fara í gegnum grunnskóla á Húsavík spreyta sig á hljóðfæri á einhverjum tímapunkti.  „Svo gerði maður eiginlega ekkert fyrr en aðeins á unglingsárunum þegar ég spilaði á trommur í hljómveitum í grunnskóla, bæði í Reykjavík og á Ísafirði," bætir Einar við.

Einar Óli fór í framhaldsskóla á Laugum í Reykjadal og þá vaknaði áhugi hans á tónlistarsköpun fyrir alvöru og hefur síðan orðið að þeirri ástríðu sem hún er í dag. „Þá var ég ekkert í tónlist fyrr en ég ákvað að fara fikta á gítar. Þegar ég var í framhaldsskólanum á Laugum á heimavistinni þar, þá stal ég gítar hjá frænku minni og fór að æfa mig á hann. Eftir það var ekki aftur snúið.“

 Langaði ekki að spila tónlist eftir aðra

Það var þá sem Einar Óli áttaði sig á því að hann hefði ekki sérstaklega gaman af því að læra lög eftir aðra og fór að semja sjálfur. „Mér fannst miklu skemmtilegra að búa til eitthvað sjálfur frá grunni. Það kviknaði strax þessi áhugi þegar ég fór að spila á hljóðfæri með einhverjum tónum,“ segir hann.

Sneri sér að kennslu

Fyrir nokkrum árum fór hann í sérstakt tónlistarnám á Akureyri, svokallaða skapandi braut þar sem m.a. var verið að kenna hljóðupptökur. „Svo fékk ég símtal frá skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur þar sem hún lýsti áhuga á að fá mig til liðs við skólann. Hún hafði verið með í huga að bæta við skapandi námi í tónlist sem snerist um ýmislegt fleira en bara hljóðfæraleik,“ útskýrir Einar Óli.

Hann sló til og hefur nú kennt við skólann í tvo vetur. „Ég hef verið að kenna upptökur og laga-og textasmíðar. Svo hef ég reynt að finna út með hverjum og einum hópi hvað nemendurnir vilja gera og þróa kennsluna út frá því. Þannig að þetta er frekar einstaklingsbundið hvað ég er að kenna hverjum og einum nemanda og þetta er í stöðugri þróun.“

Fjölgar í fjölskyldunni

Einar gerir ráð fyrir því að hafa nóg fyrir stafni í sumar og íbúar sveitarfélagsins mega eiga von á því að kynnast þessum efnilega tónlistarmanni betur. Hann er líka að undirbúa sig undir verulegar breytingar í einkalífi sínu en eftir mánuð á hann von á sínu fyrsta barni með kærustu sinni, Helgu Gunnarsdóttur.

„Svo mun ég klárlega spila eitthvað í sumar. Ég ætla að vera líflegur í bænum og jafnvel þegar gott veður er, að koma mér bara einhversstaðar fyrir og spila fyrir vegfarendur,“ segir Einar Óli að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast