Mikil lyftistöng fyrir hjólabæinn Húsavík

Aðsend mynd.
Aðsend mynd.

Enduro mót Hjólreiðafélags Akureyrar er ein af greinunum sem keppt er í á Hjólreiðahátíð Greifans sem fram fer 24. júlí til 1. ágúst næst komandi. Enduro mótið er nú í fyrsta sinn tveggja daga viðburður og fer fram á Akureyri og Húsavík. ​Sigur í mótinu í A-flokki veitir líkt og áður Þátttökurétt í heimsmeistaramótaröð Enduro (e. EWS) auk þess sem efstu sæti gefa stig.


 

Vikublaðið ræddi við Aðalgeir Sævar Óskarsson, formann Hjólreiðafélags Húsavíkur en hann var mjög spenntur yfir því að fá hluta mótsins til Húsavíkur. Undanfarin ár hefur verið mikil uppbygging á Húsavík í kringum raf- og fjallahjólamennsku en búið er að taka nýja glæsilega Enduro braut í notkun. Aðalgeir segir þessa uppbyggingu hafa skilað sér í því að Akureyringar hafi sýnt því áhuga að keppa á Húsavík. „Þeir vissu af mikilli uppbygginu hér og áhuga á hjólreiðum. Þetta var því upprunið í hjólreiðarfélagi Akureyrar að vera með auka dag í mótinu hér á Húsavík.  Þetta er sama mótið en því er skipt niður á tvo daga. Fyrri dagurinn á Húsavík og sá síðari á Akureyri. Leggirnir gilda til samtals stiga í mótinu,“ útskýrir hann.

Vonast eftir góðri þátttöku

Enduro

Aðalgeir segir að búið sé að breyta uppsetningu mótsins lítillega og nú sé verið að prófa rafmagnshjólaflokk. Sá flokkur gildi þó ekki til stiga í Íslandsmótinu.

„Það er svona verið að prófa sér rafmagnshjólaflokk til að sjá hvernig það kemur út og kanna áhugann, síðan erum við með unglingaflokk; 10-13 ára og 13 -16 ára. Þá þurfa krakkarnir að vera með leyfi frá foreldrum til að keppa og foreldrar þurfa að fylgja börnum sínum á keppnisstað. Í yngri flokknum þurfa foreldrar að fylgja krökkunum í gegn um brautina,“ útskýrir Aðalgeir. A-flokkarnir eru óbreyttir og gilda til stiga eins og áður er getið.

Aðalgeir segir að um afar stóran viðburð sé að ræða en 200 hjól geta tekið þátt. Þegar blaðamaður heyrði í Aðalgeiri voru um 70 manns búnir að skrá sig og sífellt fleiri að bætast við. Hann skoraði því á fólk að vera ekki að bíða of lengi með það að skrá sig.

Þá segir Aðalgeir að svona viðburður hafi gríðarlega jákvæð áhrif á félagslífið á Húsavík og ekki síður hagkerfið. „Já, það er bara þannig að með hverjum hjólara er a.m.k. ein manneskja með í för og oft mun fleiri. Þarna eru oft heilu fjölskyldurnar að koma saman. Þannig að þetta hefur jákvæð áhrif að fá allt þetta fólk í bæinn sem mun borða á veitingastöðum, fara í sund, Sjóböð og fleira.“

 Komið til að vera

Aðalgeir segir aðspurður að vonir standi til þess að Húsavíkurleggur keppninnar sé kominn til að vera. „Það er klárlega stefnt að því. Við erum náttúrlega að prófa þetta núna og sjáum svo hvernig til tekst og hvernig keppendur taka Húsavík sem keppnisstað. Ef þetta gengur allt upp þá er þetta komið til að vera.“

Hvað er Enduro


Nýjast