Miðaldatónlist í Akureyrarkirkju: Fjölröddun frá fjórtándu öld

Það er ekki á hverju ári sem við fáum miðaldatónlist til Akureyrar
Það er ekki á hverju ári sem við fáum miðaldatónlist til Akureyrar

Klukkan 16 laugardaginn 9. mars 2024 flytur sönghópurinn Cantores Islandiae ásamt gestasöngvara og hljóðfæraleikurum Maríumessu eftir franska miðaldatónskáldið Guillaume de Machaut. 

Maríumessa Machauts er er eitt helsta meistaraverk miðaldatónlistar og framúrskarandi dæmi um sérstæða fjölröddun sinnar tíðar, sem er afar ólík þeirri fjölröddun sem síðar þróaðist í vestrænni tónlist.

 Eins og titill messunnar gefur til kynna var hún samin til heiðurs Maríu guðsmóður og ætluð til notkunar á hátíðum sem tileinkaðar voru henni innan kirkjuársins. Þetta er heillandi tónverk og mjög ólíkt kórverkum seinni alda sem oftast heyrast flutt. Fjórir hljóðfæraleikarar leika með kórnum á ýmis hljóðfæri fyrri alda sem sjaldan heyrast á tónleikasviði. Hrynur og hljómar í messunni orka sérkennilega á eyra nútímamanns og færa hann í horfinn heim og hálfgleymdan.

Efnisskrá tónleikanna má finna hér.

Efnisskrá:

Introitus — við inngöngu: Gaudeamus (gregorssöngur)

Kyrie — miskunnarbæn (Machaut og gregorssöngur)

Gloria — dýrðarsöngur (Machaut)

Graduale — grallari: Propter veritatem (gregorssöngur)

Alleluia — lofgjörðarvers: Assumpta est Maria (gregorssöngur)

Credo — trúarjátning (Machaut)

Offertorium — við undirbúning fórnargjafanna: Diffusa est

(gregorssöngur)

Sanctus — heilagur (Machaut)

Agnus Dei — Guðs lamb (Machaut)

Communio — við altarisgöngu: Beatam me dicent (gregorssöngur)

Ite missa est — messulok (Machaut)

Flytjendur:

Cantores Islandiae

Kórinn skipa: Atli Freyr Steinþórsson, Ágúst Ingi Ágústsson, Jonas Koesling, Jón Gunnar Axelsson, Pétur Húni Björnsson, Þorgrímur Þorsteinsson, Þórarinn Arnar Ólafsson

Lilja Dögg Gunnarsdóttir, mezzósópran

Helga Aðalheiður Jónsdóttir, blokkflautur

Hildigunnur Halldórsdóttir, miðaldafiðla

Ingibjörg Azima Guðlaugsdóttir, endurreisnarbásúna

Jens Bauer, endurreisnarbásúna

Stjórnandi: Ágúst Ingi Ágústsson

 Um verk og höfund:

Maríumessa (fr. Messe de Nostre Dame) eftir franska miðaldatónskáldið Guillaume de Machaut er eitt helsta meistaraverk miðaldatónlistar og framúrskarandi dæmi um sérstæða fjölröddun sinnar tíðar, sem er afar ólík þeirri fjölröddun sem síðar þróaðist í vestrænni tónlist. Eins og titill messunnar gefur til kynna var hún samin til heiðurs Maríu guðsmóður og ætluð til notkunar á hátíðum sem tileinkaðar voru henni innan kirkjuársins. Gregorssöngvarnir sem hljóma á tónleikunum eru messuþættir tileinkaðir Maríu mey og þannig myndar efnisskráin eina heild.

Guillaume de Machaut fæddist í kringum árið 1300 og lést árið 1377. Hann var í þjónustu konunga, kirkju og valdamanna og skorti því ekki efni eða aðstöðu til að helga sig tónsmíðum og fá verk sín flutt.

Maríumessuna samdi Machaut að líkindum laust eftir árið 1360 til flutnings í dómkirkjunni í Reims í Norður-Frakklandi. Sérstaða messunnar felst í því að hún er fyrsta heildstæða messa sögunnar eftir nafngreint tónskáld. Áður sinntu menn því ekki sérstaklega að semja eða setja saman heilar messur sem væru verk eins tónskálds; messuþættir voru þess í stað gripnir héðan og þaðan. Hrynur og hljómar í messunni orka sérkennilega á eyra nútímamanns og færa hann í horfinn heim og hálfgleymdan.

 Um flytjendur:

Ágúst Ingi Ágústsson lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1998 en 2008 lauk hann einleiksáfanga við sama skóla. Ágúst hefur undanfarin ár stundað nám í kirkjutónlist við Listaháskóla Íslands þar sem hann hefur m.a. lært kórstjórn hjá Magnúsi Ragnarssyni og orgelleik hjá Eyþóri Inga Jónssyni. Ágúst hefur lagt stund á gregorssöng um langt skeið. Hann starfaði sem organisti hjá kaþólsku kirkjunni í Hafnarfirði árin 1993–2000 og var stjórnandi gregorskórsins Cantores Iutlandiae í Danmörku árin 2011–2017. Fyrir utan tónlistariðkun starfar Ágúst sem læknir.

Sönghópurinn Cantores Islandiae var stofnaður í Reykjavík haustið 2018 af Ágústi Inga Ágústssyni og Gísla Jóhanni Grétarssyni. Hópurinn leggur áherslu á gregorssöng í verkefnavali sínu en einskorðar sig þó ekki við hann.

Lilja Dögg Gunnarsdóttir, mezzósópran, lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2010 undir handleiðslu Elísabetar F. Eiríksdóttur. Hún lauk meistaraprófi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi frá LHÍ. Lilja Dögg hefur tónlistariðkun að aðalstarfi og kemur reglulega fram sem einsöngvari. Hún er aðalsöngkona tónlistarhópsins Umbru, sem flytur forna tónlist í útsetningum hópsins. Umbra hefur gefið út þrjár plötur og heldur reglulega tónleika hérlendis og erlendis. Dæmi um nýleg verkefni Lilju Daggar eru einsöngsaríur Lucreziu Vizzana með sveitinni Reykjavík Barokk. Lilja Dögg er meðlimur í sönghópunum Cantoque Ensemble og Schola Cantorum.. Hún stjórnar kvennakórnum Kötlu ásamt Hildigunni Einarsdóttur. Einnig starfar Lilja Dögg við upptökutengd söngverkefni, stjórnar tónlistarsmiðjum og útsetur kórtónlist.

Ókeypis er á tónleikana og allir eru velkomnir.


Athugasemdir

Nýjast