Meistarar-heimildarmynd um gullstelpurnar í KA/Þór

Martha Hermannsdóttir fyrirliði KA/Þórs ásamt dóttur sinni.
Martha Hermannsdóttir fyrirliði KA/Þórs ásamt dóttur sinni.

N4 hefur unnið að heimildarmynd um gullstelpurnar í KA/Þór sem nefnist Meistarar og verður sýnd miðvikudagskvöldið 30. júní á N4 sjónvarp. Handboltastelpurnar  áttu stórkostlegt keppnisár og draumurinn um Íslandsmeistaratitilinn er orðinn að veruleika.

Segir í tilkynningu frá N4 að eftir mikla uppbyggingu og vinnuframlag leikamanna, þjálfara, foreldra, stuðnings- og stjórnarmanna sé ekki annað hægt en að skyggnast bak við tjöldin og kynnast meisturunum örlítið betur.  

Í myndinni kynnast áhorfendur Íslandsmeisturunum betur, ekki bara á vellinum heldur líka í sínu daglega lífi en þremur liðsmönnum er fylgt eftir þeim Rakel Söru, Mörthu Hermanns og Huldu Tryggva.

Þá er rætt við þjálfarann Andra Snæ, Siguróla Sigurðsson, íþróttafulltrúa KA, sem og tvo fulltrúa úr Stjórn kvennaliðsins. Gullstelpunum er fylgt eftir á handboltaæfingu og styrktaræfingu hjá Agli Ármanns í TFW og áhorfendum gefst kostur á því að vera á fluga á vegg innan um liðið og sjá með eigin augum hvað liðið býr yfir góðum liðsanda og frábærum karakter.

Börnin með á æfingar

Í myndinni sést meðal annars hvernig fjölskyldulífið tvinnast við handboltann en sumar kvennanna í liðinu taka börnin sín með á æfingar og eru börnin alvön því að taka þátt.

Þá er fjallað um kostnaðinn við að rekstur liðsins.  Siguróli íþróttafulltrúi KA segir í myndinni að 85% af kostnaðinum komi úr fjáröflunum sem þýðir að leikmenn og sjálfboðaliðar þurfa að leggja mikið á sig í fjáröflunum til þess að láta dæmið ganga upp.

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast