Matarstígurinn Taste Mývatn

Matarstígurinn beinir ljósum að framleiðslu og framboði af matvöru í Þingeyjarsveit og Skútustaðahre…
Matarstígurinn beinir ljósum að framleiðslu og framboði af matvöru í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi.

Mývatnsstofa kynnir Taste Mývatn sem er matarstígur er beinir ljósum að framleiðslu og framboði af matvöru í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. „Það er mikil framleiðsla á matvöru í sveitarfélögunum og full ástæða til að benda bæði ferðamönnum og heimafólki á hvað er í boði,“ segir í tilkynningu. Á tastemyvatn.is er sagt frá framleiðendum á svæðinu og hvar sé hægt að nálgast vörur þeirra, veitingastöðum sem bjóða upp á hráefni úr nærumhverfi og tengsl milli veitingastaða og framleiðenda gerð sýnilegri.

Stefnt er að því að efla tengingu veitingastaða og frumframleiðenda enn frekar og styðja þannig í auknum mæli við uppbyggingu hringrásarhagkerfis. Á svæðinu er haldið fast í gamlar matarhefðir. Á tastemyvatn.is er því líka sagt frá gömlum hefðum og sérstöðu svæðisins er kemur að mat, til dæmis er sagt frá hverabakaða rúgbrauðinu, reyktum silungi, grasystingi, kæstum eggjum og fleiru. Til að hjálpa frumframleiðendum að koma sér enn frekar á framfæri er stefnt að því að halda 3-4 bændamarkaði á ári. Sá fyrsti var í Kaffi Borgum í Dimmuborgum í lok maí þegar Mývatnsmaraþon fór fram. Á markaðnum voru 14 sölubásar og mæting gesta var framar vonum. 

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra.


Athugasemdir

Nýjast