Margrét EA landaði fyrsta farminum á Eskifirði í gær

Margrét EA á leið til hafnar  í gær   Mynd samherji.is
Margrét EA á leið til hafnar í gær Mynd samherji.is

Margrét EA 710, nýtt uppsjávarskip í flota Samherja, landaði á Eskifirði í gær um tvö þúsund tonnum af loðnu. Skipið, sem smíðað var í Noregi árið 2008 var keypt í Skotlandi og hét áður Christina S.

Margrét kom til Reykjavíkur síðasta miðvikudag eftir siglingu frá Skotlandi og í kjölfarið var hafist handa við að uppfylla tilskilin leyfi samkvæmt íslenskum reglugerðum um fiskiskip. Margrét hélt á loðnumiðin út af Reykjanesi á föstudagsmorgun og nokkrum klukkustundum eftir að komið var á miðin var búið að dæla úr nótum fjögurra skipa um borð í Margréti, sem sigldi með hráefnið austur til vinnslu.

Hjörtur Valsson skipstjóri á Margréti segir að einstaklega vel hafi gengið að ganga frá öllum pappírum í tengslum við kaupin á skipinu.

 

Hjörtur Valsson skipstjóri

Landað innan við viku frá því skipið sigldi frá Skotlandi

 „Allt var klappað og klárt síðdegis á fimmtudeginum en mín bjartsýnasta spá var að það yrði hugsanlega við lok föstudagsins, þannig að þetta gekk allt saman vonum framar. Það eru fjölmargir þættir í ferlinu sem þurfa að ganga upp en með góðri og þéttri samvinnu allra tókst að ljúka þessu á innan við tveimur sólarhringum og halda á miðin út af Reykjanesi. Skipið fór frá Skotlandi á sunnudegi og innan við viku síðar er sem sagt landað hérna á Eskifirði. Geri aðrir betur segi ég nú bara. Loðnuvertíðin er líklega á lokametrunum, þannig að hver sólarhringur er dýrmætur.“

Fyrri eigendur hugsuðu vel um skipið

„Allir tanknar skipsins eru fullir og líklega tekur um sólarhring að dæla hráefninu í land. Okkar fyrsta reynsla af skipinu er góð í alla staði, það fer vel um mannskapinn og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Tækjabúnaðurinn er sömuleiðis góður, vélin er kraftmikil og er auk þess lítið keyrð. Það er greinilegt að fyrri eigandur hugsuðu vel um skipið. Við erum sjö í áhöfn og ég heyri ekki annað en að allir séu sérlega ánægðir með skipið og aðbúnaðinn.“

Gert klárt fyrir dælingu

 

Góð og skynsamleg kaup

„Jú jú, fyrir skipstjórann er auðvitað skemmtilegt að landa fyrsta farminum. Þar sem loðnuvertíðin er senn á enda, er líklegt að Margrét fari næst á kolmunnaveiðar og svo á makríl. Skipið er ekki búið til nótaveiða, en vel útbúið til veiða með flottrolli. Þetta er hörku gott skip, frændurnir Kristján og Þorsteinn Már gerðu greinilega góð og skynsamleg kaup.“

Brúin
Borðsalurinn er vistlegur
Skipstjórinn og forstjórinn ræða málin

 

Frá þessu er sagt á heimasíðu Samherja  

 


Athugasemdir

Nýjast