„Ánægjulegt að hafa fleira fólk á eynni"

„Það er vissulega ánægjulegt að hafa fleira fólk á eynni á þessu svartasta skammdegi,“ segir Karen.
„Það er vissulega ánægjulegt að hafa fleira fólk á eynni á þessu svartasta skammdegi,“ segir Karen.

Óvenju mannmargt hefur verið í Grímsey í haust  en nokkuð margir Grímseyingar sem alla jafna dvelja í landi á veturna hafa nú verið í eynni, þar með talið töluvert af börnum og unglingum sem hafa verið í fjar- og heimakennslu eins og víða annars staðar. Greint var frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

Á sumrin dvelja yfirleitt upp undir 100 manns í Grímsey en fækkar verulega yfir vetrartímann þegar þar dvelja oftast á bilinu 15-20 manns. Núna í nóvember brá hins vegar svo við að það voru 35-40 í eyjunni. Þar af voru 6-8 börn á leik- og grunnskólaaldri og 2-3 framhaldsskólanemar.

„Þetta má að stórum hluta rekja til kórónuveirufaraldursins,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir, íbúi í Grímsey og verkefnastjóri Glæðum Grímsey, í samtali við Vikublaðið. „Fólk sem er almenn í landi á veturnar hefur verið að dvelja hér í lengri tíma,“ segir Karen. Þá hefur bátafloti Grímseyjar stækkað töluvert í ár, en auk þeirra þriggja báta sem hafa bæst við hingað til, komu feðgarnir Magnús Bjarnason og Bjarni Reykjalín nýverið til hafnar með Skel 26 sem mun fá nafnið Sæfinnur EA 58. „Það er vissulega ánægjulegt að hafa fleira fólk á eynni á þessu svartasta skammdegi,“ segir Karen.

Faraldurinn haft lítil áhrif á samfélagið

Hún segir jafnramt að heimsfaraldurinn hafi haft lítil áhrif samfélagið í Grímsey. „Við finnum alveg fyrir því að það hefur verið notalegt að vera hér á eyjunni í þessum heimsfaraldri. Það hefur ekkert smit komið upp hér. Í fyrstu bylgjunni hafði maður áhyggjur af túrismanum hingað en núna í þriðju bylgjunni hefur ekkert slíkt verið í gangi og lítið flakk á fólki. Þannig að þetta hefur verið býsna þægilegt. Hér er fólk í sinni búbblu og lífið hefur almennt gengið sinn vanagang þar sem veiran hefur lítið haft áhrif á störf á eynni,“ segir Karen.

Líkamsræktarstöð og grillhýsi

Auk fleira fólks á eynni hafa nokkrar framkvæmdir verið í gangi. Í sumar var hafist handa við að koma upp líkamsræktaraðstöðu í félagsheimilinu í Grímsey og fyrir skemmstu var lokið við að setja upp grillhýsi við tjaldssvæðið sem eflaust mun nýta heimamönnum sem og ferðamönnum næsta sumar. „Það er ýmislegt jákvætt í gangi og við erum bara nokkuð brött hérna og bíðum eftir að geta tekið fagnandi á móti nýju ári,“ segir Karen Nótt.


Athugasemdir

Nýjast