Maður getur allt ef maður trúir á sjálfan sig

Freyvangsleikhúsið sýnir um þessar mundir Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit   Myndir aðsendar
Freyvangsleikhúsið sýnir um þessar mundir Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit Myndir aðsendar

Freyvangsleikhúsið-Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit.

Höfundur og leikstjóri;Jóhanna S.Ingólfsdóttir 

Verkið byggir á sögupersónum A.A.Milne en samkvæmt uppflettingum birtist Bangsímon fyrst fyrir sjónum fólks í Bretlandi á aðfangadagskvöldi 1925. 

Á fjölum Freyvangs eru Bangsímon og Gríslingur komnir til Íslands í jólasveinaleit. Þeir höfðu heyrt að þeir væru þrettán, þessir heiðursmenn sem ekki vildu ónáða, allir í senn. En þeir félagar skunda af stað og á leið þeirra verði ýmsar persónur sem eru ansi áhugaverðar. Allt gengur þó upp að lokum, því það er nánast allt hægt, ef maður trúir á sig sjálfan. 

Að setja á svið sögupersónu sem langflestir núlifandi hafa alist upp við sem teiknimyndapersónu, getur verið krefjandi og snúið. Þetta er nú það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá Freyvangsleikhúsið auglýsa þessa sýningu og velti strax fyrir mér hvernig þetta yrði útfært. Ég komst að því á föstudagskvöldið. Þarna eru tvær breskar persónur, Bangsímon og Gríslingur settar inn í íslenskt sagna umhverfi með sögumanni, álfi, jólasveini, draug og jólakettinum með dass af Jóhannesi úr Kötlum tónað með Eika Bó.. Sniðugt verð ég að segja, ekki síst sem aðventuleikrit. Uppfærslan ber keim að því að vera svolítið heimilisleg; formaður leikfélagsins skrifar og leikstýrir, móðir hennar, Guðný Kristinsdóttir hannar búningana, nema einn, álfabúninginn, sem svilkona hennar Beate Stormo gerir. Dóttir Jóhönnu, Alexandra Guðný B.leikur svo Grísling en auk þess eru margir gamalkunnir Freyvangar í sýningunni eins og til dæmis Eiríkur Bóasson sem semur tónlistina, Reynir Schiöth og Gunnar Möller sem skipa hljómsveitina ásamt Hafþóri Önundarsyni. Jóhanna semur einnig söngtexta ásamt aðstoðarleikstjóranum Sveindísi Maríu Sveinsdóttur en auk þess fá þær lánuð tvö erindi frá Jóhannesi úr Kötlum. 

Sem sagt, íslenskur heimilisiðnaður að mestu úr Eyjafirði, með breskum áhrifum. En höfundur fór sannarlega ekki á verkstæði jólasveinanna í leit að uppfinningum því þarna er ekkert verið að finna upp hjólið. Leikritið er eins og gott jólalag sem þú heyrir í fyrsta skiptið, þú ert oft búin/n að heyra þetta áður en veist kannski ekki alveg hvaðan og þér finnst þetta bara þrælfínt. 

Bókbindari leikritsins er Jón Friðrik Benónýsson sem bindur þetta saman í hlutverki Sögumannsins. Eins og sögumanni sæmir er ekkert verið að vasast með einhvern fjórða vegg en að mínu mati fer hann mun lengra með það, því hann er svo yfirvegaður á sviðinu að spjalla við áhorfendur. Fékk hann ágætis svörun frá börnunum og hlustaði virkilega á þau. Hann datt aldrei í þá gryfju að kasta spurningu út í sal og hlusta svo ekki eftir svarinu, heldur leyfði hann börnunum að svara. Einstaklega skemmtilegt, áreynslulaust og heimilislegt enda margreyndur leikari þar á ferð. 

Nú er ég byrjaður að tala um leikarana og best að taka það bara næst.

Sveinn Brimar Jónsson leikur Bangsímon. Það er meira en að segja það að túlka svona gamla og rótgróna persónu. En hann gerir það vel, reyndar er eins og hann kunni ákaflega vel við sig, sísvangur og bara svona frekar rólegur og æðrulaus. Hann heldur því allt í gegnum leikritið og missir aldrei taktinn. 

Það gerir heldur ekki Alexandra Guðný B.Haraldsdóttir sem leikur Grísling. Þau tvö standa þétt saman á sviðinu allt leikritið, nánast alltaf í sama fasanum. Þau verða því eins og góður grunnur í sósuna sem þarf að krydda með einhverjum brögðum. 

Fyrsta kryddið í þeirri sósu er Hallur Örn Guðjónsson en Bangsímon og Gríslingur hitta á leið sinni til jólaveinana Afturgöngu. Hann heitir Jón og er afturganga sem má muna fífil sinn fegri. Engin trúir á hann lengur, nema þó er Gríslingur svo skemmtilega hræddur og það finnst hinni rykföllnu afturgöngu ansi skemmtilegt. Hallur fer vel með þennan karakter, ekkert of mikið en maður finnur alveg til með honum, því eins og nýlegar kannanir sína, þá er trú fólks á drauga á miklu undanhaldi. Það kemst vel til skila að það er ekkert skemmtilegt að vera draugur og enginn óttast mann. 

Eyþór Daði Eyþórsson leikur svo Álfinn. Hann er mjög hefðbundinn álfur sem fer þó að rappa jólasveinavísurnar, því bjóst maður síður við. Álfurinn er gerður frekar ýktur í háttum sem ég var ekki alveg viss um fyrst hjá leikaranum en smám saman fór það að ganga upp. Ekkert er of ýkt ef það hefur innihald og það er mikil leikgleði hjá Eyþóri í hlutverkinu sem skilar sér út í sal. 

Þá er komið að næsta kryddi í sósunni sem er kóríenderinn. Ef það krydd er sett í sósu, þá yfirtekur það svolítið. Freysteinn Sverrisson er trúlega í hlutverki sem gert er svolítið til að stela senunni og það tækifæri lætur hann ekki frá sér. Í hlutverki Jólakattarins, sem við þekkjum sem óhræsið sem stelur börnum sem ekki fá nýja flík, þá sjáum við Freystein stela áhorfendum í sýningunni. Þjófnaður af bestu gerð og krækti hann loppunum utan um salinn, hvort sem það var að láta fólk hlægja, hrífast eða eitt skiptið þegar salnum brá svo mikið að hann hoppaði. 

Svo er það Kristbjörn Steinarsson sem leikur Stúf. Þar er sannfærandi stórt barn, sem þau verða mjög hissa að sjá í hversdagsfötum en auðvitað er maður ekkert í sparifötunum heima hjá sér. Ég kunni vel við þennan Stúf sem var í senn einfaldur en góðhjartaður. 

Leikmynd Guðrúnar Elvu Lárusdóttur er frekar einföld og skilaði sínu fullkomlega. Lýsingin hjá Badda Ingimars ljósameistara skilaði sínu að mestu en þó hefði mátt bæta hughrif með nákvæmari lýsingu og það bar við að leikarar færu í dauða skugga. Í lokin fá ljósin að búa til falleg hughrif með einu atriði, þar sem skór í glugga eru í draumkenndu augnabliki og hefði alveg mátt sjá fleiri svoleiðis atriði í sýningunni. 

Tónlistin hjá Eiríki Bóassyni er einföld og hleraði ég að hann hefði viljað hafa hana aðeins fjölbreyttari en að ósk höfundar og leikstjóra, fær sama stefið að hljóma margsinnis í leikritinu með mismunandi texta. Það stef hljómar enn í höfðinu á mér.

Bangsímon og Gríslingur er góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna á hóflegu verði sem gefur allri fjölskyldunni tækifæri á að fara saman í leikhús á aðventunni. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið það sem lagt var upp með og það tekst ljómandi vel. Enda getur maður allt, ef maður trúir á sjálfan sig. 


Athugasemdir

Nýjast