Lundarsel fagnaði 40 ára afmæli

Lundarsel.
Lundarsel.

Leikskólinn Lundarsel fagnaði 40 ára afmæli í sumar og í tilefni þess var opið hús og gestum boðið að skoða verk eftir börnin, fræðast um skólann og gæða sér á veitingum. Ýmislegt hefur breyst á þessum 40 árum en á vef Akureyrarbæjar segir að þegar starfsemin hófst árið 1979 hafi tvær deildir verið í leikskólanum og dvöldu börn í hámark fjóra tíma í senn, fyrir eða eftir hádegi, og komu með nesti með sér. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, skólinn verið stækkaður í áföngum og starfsemin breyst.

Nú eru fjórar deildir á Lundarseli og dvelja um 90 börn í leikskólanum að jafnaði. Starfsmenn eru samtals 27, þar af 15 leikskólakennarar. Björg Sigurvinsdóttir, skólastjóri Lundarsels, segir í samtali á vef Akureyrarbæjar að mörg þróunarverkefni hafi verið unnin í gegnum árin og fest sig í sessi. Lundarsel sé heilsueflandi leikskóli, en auk þess sé barnaheimspeki ein af helstu áherslum.

„Einkunnarorð Lundarsels, „þar sem glaðir spekingar leika og læra saman“, er tilvísun í gleðina sem felst í leiknum, við að leita svara og rannsaka sjálfur. Allir eru að læra, börn jafnt sem fullorðnir,“ segir Björg. Hún segir að framtíð leikskólans sé björt. Stóra verkefni næstu ára sé að auka rými og betrumbæta aðstöðu barna og starfsfólks.


Nýjast