Lokaorðið - Er bíllinn í gangi?

Lokaorðið er nýr liður i Vikublaðinu og verður að finna á baksíðu blaðsins.  Það er Svanhildur Daníe…
Lokaorðið er nýr liður i Vikublaðinu og verður að finna á baksíðu blaðsins. Það er Svanhildur Daníelsdóttir sem er með orðið að þessu sinni.

Góðir nágrannar eru ómetanlegir. Þegar fjölskyldan mín flutti í götuna okkar fyrir aldarfjórðungi voru allir nágrannarnir frumbyggjar. Umgengni í götunni var metnaðarfull, allir samstíga með að klippa runna, moka snjó og hreinsa illgresið við gangséttarnar. Bílastæðin inná lóðunum og sjaldséð að bílar stæðu á götunni. Við vorum þá yngstu íbúarnir. Nú hafa gömlu góðu frumbyggjarnir tínst yfir móðuna miklu einn af öðrum. Einungis einn er eftir. Þannig týnist tíminn og við hjónin erum skyndilega komin í hóp þeirra elstu.

Nýtt fólk er komið við allar hliðar hússins okkar og sama hjálpsemin er eins og áður var. Unga fólkið hefur gát á gamlingjunum. Iðulega er einn nágranninn búinn að blása snjó af stéttinni fyrir framan húsið okkar og annar passar uppá að við gleymum ekki bílskúrnum opnum. Það var til dæmis notalegt að fá skilaboð frá grannkonu á dögunum.

Ég hafði verið að útrétta á bílnum seinnipart dags og var að bakka í stæðið þegar síminn hringdi og truflaði mig.  Í stað þess að hunsa símann svaraði ég og gleymdi mér svo. Grannkonan góða sagðist ekki geta gengið til náða fyrr en hún væri viss um eitt og spurði: „Er bíllinn ykkar í gangi?“ Það stóð heima, bíllinn var á sínum stað og hafði verið í gangi í marga klukkutíma. 

Já, góðir nágrannar eru ómetanlegir.


Athugasemdir

Nýjast