Litla Hryllingsbúðin hjá Leikfélagi Akureyrar í haust
Stórleikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur í söngleiknum Litla Hryllingsbúðin sem Leikfélag Akureyrar setur upp í Samkomuhúsinu í haust. Hún fer með hlutverk tannlæknisins. Kristinn Óli Haraldsson, tekur þátt í uppsetningunni en Króli mun leika Baldur blómasala.
„Ég hlakka mikið til að ganga til liðs við Leikfélag Akureyrar. Ég hef leikið í fallega Samkomuhúsinu og veit að hljómburðurinn er sérstaklega góður. Nú fæ ég að æfa þar upp leikrit. Það er svakalega notaleg tilhugsun að fá að dvelja svona lengi á Akureyri,“ segir Ólafía Hrönn sem leikur sjálfan tannlæknirinn. „Þetta er auðvitað geggjað hlutverk og að fá að vera með Bergi leikstjóra og hans áhöfn er bara æði.“
Söngleikurinn Litla Hryllingsbúðin eftir Howard Asman og Alan Menken hefur farið sigurför um heiminn frá því að hann var frumsýndur á Broadway árið 1982 enda hefur hann allt sem prýðir bestu söngleiki; krassandi sögu, heillandi persónur og frábæra tónlist.
Litla Hryllingsbúðin verður frumsýnd í október. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson.