Lettenskir listamenn sýna í Listasafninu

Sýningin Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me!  verður opnuð í Listasafninu á Akureyri í dag, laugardaginn 1. júní kl. 15:00 verður. Þar verða sýnd verk nítján lettneskra listamanna. Í fréttatilkynningu segir að yfirskrift sýningarinnar gefi til kynna þverstæðukenndar aðstæður: Á sama tíma og samskipti verða tíðari gerist það æ sjaldnar að fólk tali saman augliti til auglitis. Þessi staða getur þó orðið tilefni til þess að einstaklingar og menningarheimar mætast í fyrsta sinn.

„Lettnesk samtímalist er í sókn og á sýningunni er því haldið fram að frelsi grundvallist á tengslum. Í verkunum sem valin hafa verið til sýnis kryfja lettneskir listamenn sjálfsmynd sína og leit að lífvænlegri framtíð. Jafnframt er gefið í skyn að samtímalistasafn geti verið mikilvægur vettvangur samskipta þar sem tekist er á um samveru og pólitískt minni til þess að leysa ráðgátur framtíðar. Sýningin er hluti af fullveldisdagskrá Lettlands og verkin koma öll úr safneign Lettneska þjóðlistasafnsins í Ríga,“ segir í tilkynningu. 

Sýningarstjórar: Astrida Rogule og Æsa Sigurjónsdóttir. Sýningin er opin alla daga kl. 10-17.

 


Nýjast