Lauganemar ganga fyrir Miðgarðakirkju í Grímsey

Elín Rós Sigurðardóttir, Edda Hrönn Hallgrímsdóttir, Sigrún Anna Bjarnadóttir, Karólína Dröfn Jónsdó…
Elín Rós Sigurðardóttir, Edda Hrönn Hallgrímsdóttir, Sigrún Anna Bjarnadóttir, Karólína Dröfn Jónsdóttir, Bryndís Anna Magnúsdóttir standa fyrir áheitasöfnuninni. Mynd/aðsend

Nokkrar vinkonur í Laugaskóla hafa tekið sig saman og ætla að safna áheitum til styrktar endurbyggingu Miðgarðakirkju í Grímsey. Kirkjan sem brann til grunna 22. september sl. var elsta bygging eyjarinnar, byggð 1867, og var hún friðuð árið 1990.

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu nýrrar kirkju er um 100 milljónir króna.

„Við erum stelpur í Framhaldsskólanum á Laugum sem viljum láta gott af okkur leiða með því að leggja Grímseyingum lið í söfnun þeirra fyrir byggingu á nýrri kirkju,“ segir Bryndís Magnúsdóttir, ein af stelpunum sem standa að áheitasöfnuninni.
„Við bjóðum því einstaklingum og fyrirtækjum að taka þátt í söfnuninni með því að heita á verkefnið okkar en við ætlum að ganga frá Laugaskóla að Ýdölum sem er um 20 km. leið núna á næstu dögum,“ segir Bryndís og bætir við að þær taki við frjálsum framlögum. „Sem viðmið hvetjum við fyrirtæki til að greiða á bilinu 5000-10000 krónur og einstaklinga að lágmarki 1000 krónur.“

Aðspurð um hvers vegna þeim datt í hug að leggja Grímseyingum lið segir Bryndís að hugmyndin hafi vaknað við samtal við móður sína. „Mamma er mikið úti í Grímsey og var að segja mér frá kirkjubrunanum þegar ég var heima í helgarfríi um daginn. Við stelpurnar höfum líka verið að leita okkur að öðruvísi verkefnum í skólanum og fannst þetta vera alveg kjörið,“ sagði hún.

Greiða má áheitin beint inn á reikning Miðgarðakirkju Grímseyjar

Reiknings númer 565 04 250731 og kennitölu 460269-2539
Merkið greiðsluna „Áheitasöfnun Laugaskóla“


Nýjast