„Laufás hefur verið draumastaðurinn minn“

„Eiginlega má segja að við höfum spurt okkur spurningarinnar; viljum við heim eða ætlum við að vera …
„Eiginlega má segja að við höfum spurt okkur spurningarinnar; viljum við heim eða ætlum við að vera áfram í Noregi? Niðurstaðan var sú að við vildum flytja heim,“ segir Gunnar.

Kjörnefnd hefur valið Akureyringinn séra Gunnar Einar Steingrímsson í embætti sóknarprests í Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmi. Þetta kemur fram á vef VMA þar sem er rætt er við Gunnar Einar um starfið. Eftir að hafa starfað í Noregi undanfarinár kemur hann aftur heim á fornar slóðir. Fyrir um aldarfjórðungi, árið 1994, brautskráðist Gunnar sem stúdent af uppeldisbraut í VMA. Strax á þeim tíma var hann ákveðinn í því að læra til prests og það gekk eftir.

Leiðin úr VMA í Laufás var sem sagt aldarfjórðungs löng, sr. Gunnar Einar verður formlega sóknarprestur í Laufási frá 1. nóvember nk., í sókninni þar sem hann hefur alltaf haft áhuga að starfa. Gamall draumur hefur ræst. Gunnar hóf ungur að árum að vinna í kirkjulegu starfi, veturinn 1989-1990, þá fimmtán ára gamall, hafði hann umsjón með yngri deild KFUM í Sunnuhlíð á Akureyri ásamt Davíð Inga Guðmundssyni. Árið 1991 hóf Gunnar að stýra starfi Æskulýðsfélags Akureyrarkirkju og síðan hefur hann komið óslitið að kristilegu starfi á einn eða annan hátt. Auk kirkjulega starfsins vann Gunnar ýmislegt á sínum yngri árum, t.d. í byggingarvinnu og frystihúsi og var um tíma á sjó. Einnig hefur hann kennt og unnið á leikskólum. Þá hefur hann mikla reynslu af starfi með fötluðum og þroskahömluðum.

Sr. Gunnar lauk BA-gráðu í guðfræði frá guðfræðideild Háskóla Íslands 2004, kennslufræði til kennsluréttinda í grunn- og framhaldsskólum lauk hann frá HA árið 2007 og djáknaprófi frá Háskóla Íslands 2008. Árið eftir var hann vígður djákni til Grafarvogssóknar. Árið 2012 flutti fjölskyldan til Noregs þar sem Gunnari bauðst að gerast afleysingaprestur í Beitstad og jafnframt að ljúka guðfræðinámi í Oslóarháskóla. Að námi loknu vígðist Gunnar til prests í Niðurósdómkirkju 30. ágúst 2015 og síðan hefur hann verið fastráðinn prestur í Beitstad, þar þjónar hann þremur sóknum og eru sóknarbörnin samtals um 3.500.

Vildu flytja heim

Eiginkona Gunnars, Erla Valdís, er frá Grenivík og foreldrar hennar og fleiri úr fjölskyldunni búa þar. „Laufás hefur verið draumastaðurinn minn frá því ég man eftir mér. Það má því segja að draumur hafi ræst,“ segir Gunnar. Hann segir að þó svo að hann hafi lengi átt sér þann draum að þjóna í Laufási hafi það ekki legið alveg í augum uppi að sækja um starfið, enda hafi fjölskyldunni liðið afskaplega vel í Noregi og hann hafi haft mikla ánægju af preststarfinu þar. En spurningin hafi fyrst og fremst verið sú hvort fjölskyldan ætlaði að búa áfram í Noregi og myndi þá ekki flytja til Íslands í bráð eða að Gunnar myndi sækja um sóknarprestsstarfið í Laufási og fjölskyldan flytja þá heim ef hann myndi fá starfið.

„Eiginlega má segja að við höfum spurt okkur spurningarinnar; viljum við heim eða ætlum við að vera áfram í Noregi? Niðurstaðan var sú að við vildum flytja heim,“ segir Gunnar. Laufásprestakall veitist frá 1. nóvember nk. Gunnar mun hins vegar vinna uppsagnarfrestinn í Beitstad til ársloka og flytur heim um miðjan janúar ásamt tveimur yngri börnum þeirra hjóna. Elsti sonurinn verður ásamt móður sinni í Noregi til vors þar sem hann lýkur framhaldsskóla. Ekki aðeins mun sr. Gunnar þjóna í Laufáskirkju, í prestakallinu eru einnig kirkjur á Grenivík, Svalbarðsströnd, Illugastöðum, Hálsi og Draflastöðum í Fnjóskadal, einnig mun hann þjóna í Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði og Lundarbrekku í Bárðardal. Viðtalið birtist á vefnum www.vma.is.

 


Nýjast