Lára Sóley rifjar upp sígilda takta með Hymnodiu

Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari og framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kemur fram…
Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari og framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kemur fram með kórnum Hymnodiu.

Kvöldið 22. desember er löngu orðið jólatónleikakvöld Hymnodiu. Kórinn hefur sungið í Akureyrarkirkju þetta kvöld í áratug og mörgum er ómissandi að gera hlé á jólaönnum til að njóta kyrrðar og friðar með Hymnodiu í kirkjunni. Að þessu sinni kemur fram með kórnum Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari og framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem einmitt tók þátt í að búa til þennan jólasið Hymnodiu fyrir tíu árum. Kórfélagar hlakka mjög til að rifja upp gamla takta og slá nýja með Láru Sóleyju en hljóðfæraleikari ásamt henni er stjórnandi kórsins, Eyþór Ingi Jónsson.

Þótt kyrrð og friður sé einkenni jólatónleika Hymnodiu rís inn á milli upp kraftur og kynngimagn. Á efnisskránni að þessu sinni eru lög sem kórinn hefur ekki flutt áður í bland við þekktari jólakórsmelli.

Flutt verður hið glæsilega jólalag Advent, sem sænska tónskáldið Otto Olsson samdi í síðrómantískum stíl í upphafi síðustu aldar. Á efnisskrá Hymnodiu heitir það reyndar Um jól og er við nýtt ljóð eftir Magnús Kristjánsson, kórfélaga í Hymnodiu. Jólabæn einstæðingsins er tvær stökur eftir einstæðinginn Gísla á Uppsölum sem Ómar Ragnarsson samdi lag við og Gunnar Gunnarsson útsetti. Svo er það hinn gamli og hressi enski jólasöngur, I saw three ships sem Hannes Sigurðsson, annar kórfélagi, gerði íslenskan texta við. Við heyrum sömuleiðis unaðslegan Jólasöng Huga Guðmundssonar við ljóð Steingríms Thorsteinssonar og mörg önnur þekkt og minna þekkt jólalög sem færa tónleikagestum sannan jólafrið og anda.

Að venju verður slökkt á raflýsingu kirkjunnar og efnisskráin líður áfram án kynninga. Tónleikarnir verða því eins konar ferðalag, þar sem hljóðfæraleikararnir, Lára Sóley og Eyþór Ingi, spinna millispil á milli jólasöngva kórsins.

Nýjustu sóttvarnareglum verður fylgt og þurfa allir sem sækja tónleikana að framvísa gildu vottorði úr hraðprófi ekki eldra en tveggja sólarhringa gömlu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21 og miðasala er hafin á Tix.is. Miðar verða einnig seldir við innganginn.


Athugasemdir

Nýjast