Krossgáta númer 500 í Vikublaðinu frá Braga V. Bergmann Forréttindi að vinna við það sem maður hefur gaman af

Bragi V. Bergmann sem handskrifar allar sínar krossgátur og segir það mun persónulegra en að gera þæ…
Bragi V. Bergmann sem handskrifar allar sínar krossgátur og segir það mun persónulegra en að gera þær í tölvu. Bragi skilaði krossgátu númer 500 í Vikublaðið í byrjun vikunnar.

„Ég held ótrauður áfram um ókomin ár, þetta er svo skemmtilegt og í raun forréttindi að hafa tækifæri til að gera krossgátur sem gleðja svo marga,“ segir Bragi V. Bergmann sem í vikunni skilaði af sér krossgátu númer 500 til Vikublaðsins. Hann hefur enn lengur verið að hjá Dagskránni, en krossgátur Braga þar eru yfir 600 talsins. Samanlagt hefur hann því gert yfir 1.100 krossgátur liðin ár fyrir bæði blöð. Ekki er ýkja langt í að Bragi geti haldið upp á þau tímamót að hafa gert krossgátu undanfarin 40 ár í blaðið LEÓ sem Lionsklúbburinn Hængur gefur út fyrir hver jól.

Bragi segir að hann hafi allt frá því hann var strákur haft gaman af krossgátum. Fyrstu árin fólst gamanið í því að leysa gáturnar en áður fyrr var gefinn út fjöldinn allur af dagblöðum og krossgátur í flestum um helgar. „Þessi blöð komu öll meira og minna inn á æskuheimili mitt og ég spændi í mig allar krossgátur sem ég komst yfir,“ segir hann. „Ég sökkti mér yfirleitt í krossgáturnar og það reyndist mér fremur létt verk að leysa þær en ég man að gátan í Vikunni var alltaf erfiðust.“

Eitt sinn var fjölskylduvinur í mat á æskuheimili Braga, Kjartan Þórðarson lögfræðingur, og fylgdist hann með guttanum afgreiða krossgátu nánast á augabragði eftir matinn. Hann spurði Braga hvort hann hefði ekki áhuga á að spreyta sig sjálfur á að búa til krossgátu – en Kjartan var einn af fáum krossgátuhöfundum landsins á þeim tíma. „Ég hafði aldrei hugsað út í þann möguleika að byrja á hinum endanum; að setja orð inn í reitina og búa gátuna til frá grunni,“ segir Bragi en þarna kviknaði neisti og hann hóf að þreifa sig áfram í krossgátugerð, aðeins 13 ára gamall.

Vann fyrir sér með krossgátugerð á námsárunum

„Þetta er óskaplega gaman og gefur bæði mér og þeim sem leysa krossgáturnar svo mikið,“ segir Bragi, en hann er íslenskukennari að mennt og starfaði um árabil sem slíkur, m.a. við Glerárskóla á Akureyri. Hann nefnir að hann hafi ekki þurft að taka námslán eins og flestir námsmenn, hann vann fyrir sér allan námstímann, meðal annars með krossgátugerð. „Ætli ég hafi ekki gert 12 til 15 krossgátur suma mánuðina á háskólaárunum,“ segir hann. Þá var svo komið að hann hafði meira gaman af því að búa gáturnar til en að leysa þær. Það var meiri áskorun.

Bragi segir að mikil og góð þjálfun sé fólgin í því að leysa krossgátur. Fólk noti hugann óspart, læri ný orð og þjálfist í stafsetningu, þannig að ávinningurinn sé margvíslegur. 

Toppurinn á tilverunni

Krossgátur í Vikublaðinu eru alltaf með myndum sem áður hafa birst í blaðinu og segir Bragi það mjög vinsælt. „Ég veit að mörgum sem eru á myndunum þykir mjög gaman að sjá sig í krossgátu síðar. Ég fæ mikil viðbrögð frá fólki sem er hæstánægt og jafnvel má orða það svo í einstaka tilvikum að þetta er bara toppurinn á tilverunni – að lenda á krossgátumyndinni. Þetta er mikil upphefð að margra mati,“ segir hann.

Og í framhaldi af því segir Bragi að hann hafi samið opnukrossgátuna í jólablað Lionsklúbbsins Hængs, LEÓ, í 36 ár samfleytt. Blaðinu er dreift á Eyjafjarðarsvæðinu í byrjun desember ár hvert og margir bíða spenntir eftir því, ekki síst vegna krossgátunnar.

„Þetta byrjaði þannig að Hængsmenn höfðu samband við mig og báðu um krossgátu í LEÓ. Ég vissi lítið um Lionsklúbba á þeim tíma en þegar ég afhenti gátuna spurði ég karlana, m.a. Stefán Vilhjálmsson og Hákon Hákonarson, aðeins út úr. Þeir sögðu allan ágóða af blaðinu renna til góðgerðarmála og t.d. héldi klúbburinn Hængsmótið á hverju ár, íþróttamót fyrir fatlaða. „Þá ákvað ég að krossgátan yrði mitt framlag til þeirra góðu málefna sem Hængur styrkir og er ánægður með að hafa lagt klúbbnum lið með þessum hætti í bráðum fjóra áratugi,“ segir Bragi.

 Forréttindi að vinna við það sem maður hefur gaman af

Bragi er þakklátur fyrir hversu ánægt fólk er með krossgáturnar og veit til þess að inn á sum heimili þurfi að senda tvær Dagskrár því hjónin vilji bæði ráða gátuna. „Ég fæ endalaust jákvæð viðbrögð og það gefur lífinu lit, en vissulega hef ég líka mjög gaman af því að búa gáturnar til.“

Hann segir krossgátugerðina hluta- eða brotastarf hjá sér, því hann hefur rekið eigið fyrirtæki í almannatengslum, FREMRI almannatengsl, í aldarfjórðung og gerir enn. „Þar vinn ég við að skrifa fréttatilkynningar og alls konar texta, prófarkalesa bækur, skýrslur og ritgerðir og halda þjónustunámskeið, námskeið í fundarstjórn og fundaritun og stýra fundum og ráðstefnum sjálfur. Það eru forréttindi að fá að vinna við það sem maður hefur gaman af og það á svo sannarlega við um mig, ekki síst á krossgátusviðinu,“ segir Bragi og kveðst hafa gott úthald til að halda áfram lengi enn.

 


Athugasemdir

Nýjast