Killer Queen og Hvanndalsbræður á Græna hattinum

Hvanndalsbræður.
Hvanndalsbræður.

Hljómsveitina Killer Queen þarf varla að kynna fyrir gestum Græna hattsins en bandið hefur öðlast þann sess að vera nokkurskonar húsband Hattsins eftir að hafa spilað þar með vissu millibili í yfir 10 ár. Sveitin heldur tónleika á Græna hattinum í kvöld, föstudagskvöldið 28. febrúar.  

„Tónleikar Killer Queen á Hattinum eru með þeim sveittari og hressari sem þar eru haldnir og verður þetta engin undanteking frá þeirri reglu enda eru lög hljómsveitarinnar Queen þess eðlis að Show must go on,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 22.00.

Hvanndalsbræður halda tónleika laugardagskvöldið 29. febrúar að loknu úrslitakvöldi Ríkissjónvarpsins fyrir hina einu sönnu Eurovision keppni en það eru einmitt akkúrat 10 ár síðan bræðurnir boðuðu Gleði og glens í þeirri skemmtilegu keppni.

„Því ber að fagna. Strákarnir hafa verið inn í æfingarhúsnæði að semja nýtt efni síðan fyrir jól og nú er komin tími til að leyfa fólki að fá nasaþefinn af nokkrum þessara laga. Að sjálfsögðu verður nýju lögunum blandað af kostgæfni saman við gömlu góðu lummurnar. Einhverjar sögur verða látnar fjúka á milli laga og stefnum við að því að flestir ef ekki allir fari kátir heim,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 22.00.


Athugasemdir

Nýjast