Jólin heima Svanhildur Daníelsdóttir frá Gnúpufelli rifjar upp

Svanhildur Daníelsdóttir frá Gnúpufelli   Myndir. Úr safni Svanhildar
Svanhildur Daníelsdóttir frá Gnúpufelli Myndir. Úr safni Svanhildar

Jólin heima.

Næstu daga mun við birta hér á vefnum sögur fólks sem rifjar upp jólin heima hvort sem það er  jólahald fyrr eða nú.  Það er Svanhildur Daníelsdóttir frá Gnúpufelli, kennari við VMA sem ríður á vaðið.

Jólin heima.

Við ferðumst nú tæp 60 ár aftur í tímann, á miðjan sjöunda áratuginn. Ég er á aldrinum 7-9 ára og á heima á sveitabæ í Eyjafjarðarsveit. Þá bjuggu þar foreldrar mínir, fjögur börn þeirra og það fimmta komið á leið hjá mömmu. Í barnsminninu eru aðventan og jólin sveipuð miklum heilagleika, kyrrð og hljóðlátri virðingu fyrir trúnni. Allt fór á hægan snúning, málrómur lækkaði, allt fas og dagleg umgengni fékk á sig prúðmennsku og helgiblæ. Við systkinin vorum alin upp við að bera virðingu fyrir kristnum gildum. Stór hluti af jólaföstunni hjá foreldrum okkar fór í að hlynna að gömlu fólki og fólki sem átti lítið, sem og að skrifa langar og fallegar jólakveðjur til ættingja og vina. Skrifin byrjuðu reyndar snemma í nóvember, þá var bunki af jólakortum og þykk skrifblokk á stofuborðinu, því þar inni var næði til að skrifa þegar tækifæri gafst. Daglega var sparistofan aldrei notuð og oftast lokað þangað inn. Stofan var einungis notuð yfir jólin og þegar gesti bar að garði.  Foreldrar mínir fóru í kaupstaðinn á jólaföstunni og heimsóttu fólk sem þau þekktu á Akureyri og höfðu ætíð meðferðis reykt kjöt, sperðla, kæfu, svið, jólakökur, kleinur eða egg til þess að skilja eitthvað eftir hér og þar. Einnig man ég eftir slíkum heimsóknum á nokkra bæi í hreppnum þar sem gamalt fólk og einstæðingar bjuggu. Frystikista var ekki til heima á þessum tíma en þau voru með tvö stór frystihólf í íshúsi KEA á Oddeyrartanganum og þangað var farið til að ná í kjötmetið sem þau sjálf höfðu verkað og reykt um haustið.  Þangað var líka farið til að ná í lambakótiletturnar. Pabbi hafði um haustið höggvið og sagað niður stóran lambshrygg í kótilettur sem alltaf voru eldaðar á aðfangadagskvöld. Kótilettur í raspi með grænum baunum, rauðkáli, brúnuðum kartöflum og rabarbarasultu. Ég veit ekki hvort niðursoðnar grænar baunir og rauðkál fengust í kaupstaðnum á þessum árum en heima var þetta þurrmatur sem mamma lagði í bleyti og sauð svo næsta dag. Grænu baunirnar, sem þau kölluðu heilbaunir þurftu að liggja í bleyti yfir nótt og svo mátti ekki sjóða þær of lengi svo þær færu ekki í mauk. Þurrkað rauðkál var sett í vatn í potti og látið bíða þar, svo var settur sykur og edik og það soðið líkt því sem fólk gerir enn í dag með ferskt rauðkál. Ég man aldrei eftir því að baunir og rauðkál væri soðið nema fyrir jólin. Líklega þess vegna er lykt af rauðkálssuðu sterk jólaminning hjá mér. Mamma steikti mikið magn af kótilettum á pönnu, örugglega úr öllum stóra hryggnum, setti svo í ofnskúffuna og álpappír yfir. Það var mjög heppilegt því þá gat maturinn dormað í ofninum á meðan þau pabbi voru í fjósi. Svipaðan hátt hafði hún á með kartöflurnar. Hún hleypti upp á þeim suðunni og slökkti svo undir pottinum og þá voru þær soðnar þegar fjósverkin voru búin.  Rjúpur voru aldrei á borðum, foreldrar mínir höfðu andstyggð á skotveiðum auk þess sem föður mínum fannst rjúpan fegurst fugla.

Svanhildur á jólum 1966

Alltaf var keyptur stór eplakassi

Auk rauðkálslyktarinnar er eplalyktin sterk jólaminning. Alltaf var keyptur stór eplakassi. Honum fylgdi hinn eini sanni jólailmur og barnshjartað fylltist eftirvæntingu þegar eplakassinn kom í búrið.  Gosdrykkir voru ekki keyptir en pabbi fór með 10 lítra mjólkurdúnkinn með haldinu niður í ölgerðina Sana og kom með hann fullan af jólaöli til baka. Þetta var auðvitað bara maltöl en var kallað hvítöl. Svo var blandað í gömlu brúnu glerkönnuna sem sagði glúgg, glúgg, þegar hellt var úr henni. Blandan var appelsínuþykkni frá Flóru, blandað með vatni og svo var ölið sett útí nokkurn vegin til helminga. Eitt sinn gerðist það þegar pabbi var á heimleið með ölbrúsann að hann velti Landróvernum í hlaðinu á Stokkahlöðum. Það voru djúp hjólför í snjónum og glerhálka. Það hafði blotað og rignt á meðan hann var í bænum. Hann missti bílinn uppúr hjólförunum og skipti engum togum að bíllinn fór á hliðina á miðjum veginum. Það var heppilegt að það gerðist á þessum stað því bóndinn á Stokkahlöðum átti allskonar tæki og rétti bílinn við í snatri, en ölið fór allt forgörðum og slettist um allan bílinn utan og innan. Hvorki bíll né maður bar tjón af svo pabbi ók bara áfram heim og öltaumarnir voru frosnir utaná bílnum er í hlaðið var komið. Sælgætið úr Akra er sterk jólaminning og þegar jólaölið var sótt var líka farið í Akra. Akra var smjörlíkisgerð á  Oddeyrinni á Akureyri og þar var einnig framleiddur brjóstsykur og karamellur. Brjóstsykurinn var einstaklega hátíðlegur. Allir molarnir voru sérpakkaðir inn í glært sellófan og það var sérstök sælutilfinning að taka appelsínu brjóstsykurinn úr pappírnum og stinga uppí sig. Ég heyri skrjáfið í pappírnum þegar ég hugsa um þetta.  Laufabrauðsgerðin var á sínum stað snemma á jólaföstunni. Laufabrauðið var flatt út og kökunum dreift á hvít lök í stofunni því þær þurftu að taka sig, áður en þær voru skornar með vasahnífum. Laufabrauðið var haft þykkt því það var smurt með smjöri og borðað þannig með köldu hangikjötinu á jóladag. Mamma sagðist alltaf vera klaufi við laufabrauðsgerðina en hún var úr Dýrafirði og þekkti ekki laufabrauð. Skatan er hinsvegar vestfirskur siður en hún var aldrei á borðum heima á þessum árum, veit ekki af hverju, sennilega ekki veiðst hér fyrir norðan.  En mamma sagði að þau fyrir vestan hefðu borðað ýmist kæsta eða saltaða skötu allt árið ef svo bar undir og tengdi skötuna ekkert við jólaföstuna. Á þorláksmessu var mjólkurgrautur og súrt slátur í matinn. Mamma sauð mikinn graut vegna þess að afganginn notaði hún í hrísgrjónabúðinginn sem enn heldur góðu lífi á mínu heimili. Hrísgrjónabúðingur er það sem þykir fínt í dag að kalla ris a la mande. Mamma hrærði þeyttum rjóma, vanillu og pínulitlum sykri saman við kaldan grautinn, en svo bjó hún til heita súkkulaðisósu sem var sett útá. Ég hef engan hitt enn sem kannast við heita súkkulaðisósu af þessu tilefni, en þetta geri ég enn í dag á mínu heimili, nema ég nota ekta súkkulaði í sósuna á meðan mamma þurfti að gera hana úr kakói, sykri og kartöflumjöli. Kaldur ávaxtagrautur með rjóma var líka sérstakur jólamatur heima. Mamma sauð fullan pott af graut úr þurrkuðum apríkósum, eplum og sveskjum og með þessu var hnausþykkur óþeyttur rjómi. Rjóminn var sóttur út í mjólkurhús. Við krakkarnir veiddum rjómann ofan af mjólkurbrúsunum sem stóðu í ísköldu vatni í mjólkurkerinu. Rjóminn var svo þykkur að hann hneig upp í ausuna eins og þykkfljótandi hraun. Best af öllu var svo að sleikja ausuna á eftir. Á gamlársdag var smurt brauð (snittur) með eggjum, gaffalbitum frá Sigló síld og sardínum, rúsínugrautur með kanelsykri og rjómabland útá.  Stundum voru líka niðursoðnir kokteilávextir með þeyttum rjóma. Það var alltaf hátíðlegt ef til voru niðursoðnir ávextir en ég er ekki viss um að þeir hafi alltaf fengist á þessum árum.

Á jólum 1959 fjölskyldan í Gnúpufelli f.v Friðfinnur, Þórlaug, Svanhildur, Anna Rósa, Ingibjörg Bjarnadóttir og Daníel Pálmason

Lagt uppúr að hafa sem mesta kyrrð og hvíld

Almennt má segja að kappkostað hafi verið að hafa nógu mikið af mat sem lítið þurfti að hafa fyrir á hátíðisdögunum, vegna þess að allt var lagt uppúr að hafa sem mesta kyrrð og hvíld. Engin verk mátti vinna, einungis að sinna skepnunum sem var gert afar vel þessa daga.  Þær fengu alltaf ríflega af besta heyinu, kýrnar fengu allar slettu af fóðurbæti, geldneytin og kindurnar líka og útigangshrossin fengu úrvals hey en ekki moð. Að þvo þvott eða gera einhver slík verk á hátíðisdögunum voru helgispjöll og þvottur mátti alls ekki hanga úti þessa daga. Það var óvirðing. Jólin voru fyrst og fremst íhugunar- og hvíldardagar, hver og einn hafði ofan af fyrir sér sjálfur með lestri eða einhverju öðru dundi og ég hugsa að örþreyttir foreldrar mínir hafi mest sofið milli mála. Jólaskraut og jólatré var fábrotið en líklega þess vegna er það í minningunni eins og skínandi gull. Til voru tvær eða þrjár skrautlegar pappírslengjur sem lögðust saman eins og harmonikka en voru undur fallegar þegar þær voru teknar í sundur. Eldri systur mínar festu þær í loftið á stofunni og svo fengum við eitt búnt af kreppappír og bjuggum til músastiga sem þær festu líka upp. Jólatréð var lítið gervijólatré og því fylgdi undur falleg jólasería með tíu perum. Mér er nær að halda að perurnar hafi verið handmálaðar, svo fagrar voru þær og sorgin var mikil jólin sem slokknaði endanlega á seríunni. Stofan var skreytt á þorláksmessu en jólatréð var aldrei sett upp fyrr en á aðfangadags morgun. Lifandi grenigreinar voru alltaf settar á bakvið myndir af látnum ástvinum. Þá man ég eftir fallegri kirkju úr froðuplasti sem pabbi bjó til. Hún var hvít með rauðu þaki og hann hafði komið fyrir lítilli peru inni í kirkjunni og notaði sellófan pappír utanaf sælgæti í rúðurnar.Jólagjafir voru miklu færri en tíðkast í dag, allir urðu að fá flík til að þeir færu ekki í jólaköttinn og svo var kannski ein bók líka eða lítið leikfang eða lítill skrautlegur hlutur. Ég man að stundum fékk ég heilan kertapakka, Hreins jólakerti sem voru lítil snúin og mislit. Áður hafði ég fengið pínulítinn stjaka sem þessi undurfallegu kerti pössuðu í. 

Hreinskerti sem Svanhildur á í dag

 

Alltaf var farið til kirkju á jóladag og oft fór mamma bæði á jóladag og annan jóladag vegna þess að hún söng í marga áratugi í kirkjukórunum. Kirkjurnar í hreppnum voru þrjár og var messað í þeim til skiptis jól og áramót  - sem enn er gert það ég best veit.

Já það er margs að minnast þegar hugsað er til baka og ótal fallegar myndi og ljúfar minningar koma upp í hugann. Lýk þessu með erindi úr ljóðinu Jól eftir Stefán frá Hvítadal.

Ó, blessuð jólin er barn ég var,

ó, mörg er gleðin að minnast þar.

Í gullum ljóma hver gjöf mér skín.

En kærust voru mér kertin mín.

 Gleðileg jól.

 Svanhildur Daníelsdóttir frá Gnúpufelli.

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast