Jólin heima - María Björk Ingvadóttir rifjar upp

María Björk í Melbourne 2023
María Björk í Melbourne 2023

Það er María Björk Ingvadóttir sem svo sannarlega er lesendum  að góðu kunn sem segir hér frá 

 Jólin heima

Er hálfmyrkur eða hálfljós ?

 Pabbi minn notar þessi orð til að skilgreina þá stöðu sem upp kemur þegar birtan er ekki mikil, er kannski of lítil, jafnvel hálfgerð týra eða bara skárri en engin. Í þessu felst að hægt er að lýsa ástandi með ólíkum orðum, orðalagi sem um leið birta afstöðu til þess sem lýst er. Aðrir taka líkingu af glasi sem ýmist er hálf fullt eða hálf tómt. Val um orðalag liggur ævinlega hjá þeim sem orðin nota og orðin velja. Hálffullt glas og hálfljós er samt það sama og hálftómt glas og hálfmyrkur, ef út í það er farið en skapa mjög ólík hughrif.

Þessvegna er hægt að skrifa og segja ólíkar frásagnir af sömu atburðum allt eftir því hver sér og hvernig það er túlkað. Stundum er líka talað um að við höfum val um að setja upp ólík gleraugu, litur þeirra breytir líðan og birtu. Þannig útiloka dökk gleraugu að við sjáum hluti nema að takmörkuðu leyti en björt gleraugu auka okkur sýn.

 Ég ólst upp í stórri fjölskyldu, átta systkinin, þar af sex systur og tveir bræður. Það var oft og er reyndar enn mjög glatt á hjalla, sum okkar tala meira en hin og önnur hlusta betur og velja vel hvert orð. Við höfum með okkur út í lífið allskonar minningar og einnig inngrónar hefðir sem foreldrar okkar báru með sér kynslóð fram af kynslóð. Mamma sauð alltaf skötu á Þorláksmessu, að vestfirskum sið og þó okkur hafi kannski ekki alveg frá byrjun þótt hún góð, þá tengdi þessi hefð okkur betur við móðurfjölskylduna á einhvern sérstakan hátt. Mér finnst ég aldrei meiri Vestfirðingur en á Þorláksmessu, með munninn fullan af vel kæstri skötu, hnoðmör og kartöflum. Þessu fylgja jákvæð hughrif og þessvegna hlakka ég alltaf til Þorláksmessu.

Fjölskyldan árið 2000

 Pabbi kom með þá hefð, frá sínum föður, að skera út laufabrauð og þá dugði ekki að kasta til höndunum. Afi lagði línurnar um hvað taldist vera nógu góður útskurður og hvað ekki. Þeir feðgar sáu svo um að kenna okkur ýmis jólalög til að syngja með útskurðinum en þegar kom að sjálfum aðfangadegi mátti ekki setja aðra tónlist á en þá allra vönduðustu, með öðrum orðum, ekkert garg sem var í tísku þá stundina.

 Við systkinin höfum svo tekið áfram ýmsar þær hefðir sem við ólumst upp við og bætt í sarpinn einu og öðru sem hentar hverju okkar.

 Sá siður sem ég og mín fjölskylda höfum haldið í mörg ár og þykir ómissandi á gamlárskvöld, er að fara hringinn við matarborðið og gefa hverjum og einum tíma til að segja frá merkilegum og minna merkilegum atburðum líðandi árs, rifja upp sögur og samskipti með þakklæti í huga. Þarna æfumst við í að orða hlutina sem ræðst af eigin líðan, stemmingunni og þroska. Það fer nefnilega ekki endilega eftir aldri hvað fólk segir og hvernig það orðar hlutina, jafnvel þó einhverjir haldi það. Regla sem ekki má brjóta er að allir hlusta, dæma ekki og eru styðjandi ef á þarf að halda. Þá er  gott að minna sig á að betra er að hafa hálfljós í frásögninni en hálfmyrkur.

Jólamyndin árið 2020

Ég vil að lokum óska ykkur öllum gleðilegs árs með von um að friður og ljós sigri myrkrið og hatrið og við tileinkum okkur að tala fallega hvert við annað.

 María Björk Ingvadóttir  - Félagsráðgjafi og fjölmiðlakona

 


Athugasemdir

Nýjast